Grunnskóli

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 01:50:22 (5090)


[01:50]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Þetta stóra mál er nú rætt við sérstæðar aðstæður að mér finnst, komið fram á miðja nótt þegar loksins gefst færi á nýjan leik. Ég hef verið þeirrar skoðunar að í því ágæta frv. sem hér er búið að vinna séu um margt góð atriði sem horfa til bóta þegar til framtíðar er litið. Ég efast ekkert um þá

vinnu sem farið hefur fram í sjálfu sér þó að ég álíti, hæstv. forseti, að betra hefði verið að fleiri aðilar hefðu komið að þessu máli og allir þingflokkar hefðu þar haft aðgang að. En hitt er annað mál að þetta frv. er í mínum huga dautt fallið við þær aðstæður sem nú blasa við í þjóðfélaginu. Það stendur yfir harðvítug kennaradeila og það er enginn vafi á því að ef menn herða á framgangi þessa frv. og reyna að lögsetja það þá harðnar sú deila. Ég hefði talið eðlilegt að ríkisstjórnin við þessar aðstæður mundi beita sér að því að finna lausn á þessari erfiðu deilu sem vissulega bitnar á námsfólki fyrst og fremst.
    Það er margt sérstætt við þetta frv. og mér finnst að ég hafi aldrei séð á þeim tíma sem ég hef setið á Alþingi að menn settu fram brtt. við þetta frv. með þeim hætti sem gert er. En ég er með, hæstv. forseti, í höndunum brtt. frá meiri hluta menntmn. þar sem segir að lög þessi öðlist þegar gildi og komi að fullu til framkvæmda 1. jan. 1996. Ekkert þarf í sjálfu sér að vera eðlilegt við þetta. En síðan kemur: enda hafi Alþingi þá samþykkt breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga með tilliti til þeirra auknu verkefna er sveitarfélög taka að sér samkvæmt lögum þessum.
    Sem sé, það er ákveðið að lög taki gildi en það er sett að skilyrði að áður skuli hafa verið sett önnur lög og náð öðrum árangri. Þetta segir mér allt um það, hæstv. menntmrh., að þó að frv. sé um margt ágætt, þá eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli auðvitað fyrir neðan allar hellur. Það var það öllum ljóst þegar farið var í þessa vinnu að hún var viðkvæm og ég er í engum vafa að menn hafa byrjað á vitlausum enda í sjálfu sér. Í stað þess að byrja á því að klára réttindamál kennaranna þannig að þeir gætu vegna sinna kjarasamninga og réttindamála verið rólegir og eins að tryggja með hvaða hætti tekjustofnar yrðu færðir frá ríki til sveitarfélaganna. Mér sýnist að þetta hvort tveggja sé í rauninni óunnið verk, hæstv. menntmrh. Og þetta eru kannski aðalatriðin sem hefði þurft að klára í upphafi og síðan frv. og lagasetningin í framhaldi af því þegar samstöðu var náð.
    Ég minnist þess, hæstv. menntmrh., að þegar hér fór fram viðkvæmur verkefnaflutningur frá ríki til sveitarfélaga 1987/1988 þá gerðist það hér í þinginu vegna þess að ósamstaða var um málið að allir sáu að viturlegt var að fresta því í eitt ár og vinna málið og það var reyndar gert og öllum til hagsbóta og stóðu menn sáttir að málinu að lokum. Nú er ég ekkert að segja að það þurfi að fresta þessu máli um langa hríð. En það gæti verið hyggilegt að fara yfir viðkvæmu þættina í málinu, gefa sér lengri tíma og klára þá málið á vorþingi því að hvað lagasetninguna varðar þá truflar það ekki málið, þannig að það ríkir ekki samstaða um þetta mál. Það er rangt að það ríki samstaða um þetta mál.
    Í fyrsta lagi eru kennarafélögin óróleg undir þessum kringumstæðum. Þau hafa sent frá sér bréf, síðast í gær, sem staðfestir það. Bréfið er skrifað til hæstv. menntmrh. og hefur verið dreift til þingmanna. Þar segir, með leyfi forseta, á þá leið að eftirfarandi atriði valdi óróa hjá kennarafélögunum:
    ,,Stjórnir Kennarasambands Íslands og Hins íslenska kennarafélags ítreka hér með þá fyrirvara sem kennarafélögin hafa sett varðandi frv. til laga um grunnskóla. Í umsögn kennarafélaganna um frv. til laga um grunnskóla er þess krafist að a.m.k. ári áður en af flutningi grunnskóla verði verði ríki og sveitarfélög búin að tryggja eftirfarandi:
    1. Fjárveitingar til sveitarfélaga þannig að þau geti staðið undir kostnaði af skólastarfi grunnskóla í samræmi við núverandi grunnskólalög án þeirra ákvæða um skerðingu sem nú eru í gildi, auk þess að tryggja fjármagn til frekari þróunar grunnskólans.
    2. Að ekki dragi úr stoðkerfi skólanna svo sem starfsemi fræðsluskrifstofa, ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu, starfsemi Námsgagnastofnunar og tilboðinu um endurmenntun fyrir kennara.
    3. Öruggan rekstrargrundvöll sérskólanna með tilliti til þess að nemendur geti notið allrar nauðsynlegrar þjónustu óháð búsetu.
    4. Öll samningsbundin og lögbundin réttindi kennarastéttarinnar og að einn viðsemjandi fari með samningsumboð fyrir öll sveitarfélög sameiginlega.
    Ekkert af þessu hefur verið tryggt`` segir síðan. Og síðar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þau skilyrtu lagaákvæði sem eru í brtt. meiri hluta menntmn. tryggja á engan hátt:
    1. Rétt kennara og skólastjóra til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
    2. Óbreytt ráðningarréttindi kennara og skólastjóra hjá nýjum vinnuveitanda.
    3. Að víðtæk sátt náist um flutninginn milli hlutaðeigandi aðila, ríkis, sveitarfélaga og Samtaka kennara.``
    Þarna stendur það klárt að þeir aðilar, kennararnir, sem nú á að færa að fullu yfir sem starfsmenn sveitarfélaganna óttast um sinn hag og það hlýtur að verða hæstv. menntmrh. erfiðara að leysa hina viðkvæmu kennaradeilu við þær aðstæður þegar menn hrinda þessu máli áfram með þessum hætti. Þess vegna hlýtur það að vera mjög skynsamlegt að fresta málinu og taka við að reyna að leysa hina alvarlegu kennaradeilu.
    En það eru ekki bara kennararnir einir sem eru ósáttir í þessu máli. Ég er sannfærður um, hæstv. menntmrh., að mörgum sveitarstjórnarmönnum líður ekki vel eins og er þó að það hafi gerst að samtök sveitarfélaga hafi verið beygð í þessu máli og sagst mundu fallast á, að málið færi fram, þá er ég viss um það og hef rætt það við ýmsa forsvarsmenn minni sveitarfélaga að þeir telja að málinu sé ekki fullnægt hvað litlu sveitarfélögin varðar og vilja sjá það klárt hvernig að skuli staðið hvað fjármagnið og tekjustofnana varðar þannig að þar er enginn allsherjarfriður eða samkomulag.

    Ég veit enn fremur að fleiri samtök sem að þessu máli þurfa að koma eru ekki sátt við meðferð málsins og það snýr að þeim sem halda utan um málefni fatlaðra. Þau sjá ekki fyrir sér hvernig fötluðum verður tryggð menntun í smærri skólum. Þroskahjálp hefur látið fara frá sér erindi sem ég hef undir höndum og ætla ég ekki að þreyta þingheim með lestri á því en í lokin segir, með leyfi forseta:
    ,,Foreldrar fatlaðra barna hafa haft þær væntingar að með nýjum grunnskólalögum yrði stigið mikilvægt skref til að hægt væri að tryggja markvissa uppbyggingu varðandi það að öll fötluð börn fengju kennslu við hæfi í heimaskóla. Frv. eins og það er í dag tryggir það ekki. Því skora Landssamtökin Þroskahjálp á Alþingi að endurskoða einstakar greinar þess til að tryggja með afgerandi hætti rétt fatlaðra barna til náms við hæfi í heimaskóla.``
    Þarna liggur það klárt fyrir að einn aðilinn enn, sem heldur um einhvern viðkvæmasta þáttinn, lýsir því yfir að gagnvart fötluðum hefur ekki verið komið til móts við óskir þeirra og sveitarfélögin hljóta vissulega að hafa miklar áhyggjur af því ef svo er. Það er kannski kjarni þessa máls hversu sveitarfélögin eru misstór, misvel stæð. Eftir því fer hvort þau ráða við þann verkefnaflutning sem hér á að eiga sér stað.
    Ef ég sný mér að þessu frv., hæstv. menntmrh., þá vil ég kannski segja það fyrst að vissulega boðar það betri tíð með blóm í haga. Það er auðvelt fyrir fólk sem hefur gengið hart að skólakerfinu íslenska í fjögur ár, svelt það að fjármagni, skorið skólana niður, stöðvað það jafnrétti sem hér hefur verið til náms, að koma í lok kjörtímabils og segja: Allt það vonda sem við gjörðum höfum við gleymt. Nú viljum við biðjast fyrirgefningar og við viljum koma í gegnum þingið nýjum grunnskólalögum með allt öðrum fyrirheitum nema það verða ekki við sem borgum brúsann heldur sveitarfélögin.
    Ég hef á undanförnum vikum hitt marga námsmenn og þeim ber öllum saman um það að jafnrétti til náms hefur verið eyðilagt í tíð þessarar ríkisstjórnar og fjögur ár hafa á margan hátt verið raunatími í skólum landsins. ( KHG: Dapur er norðanvindur íhaldsins.) Og það er kannski sorglegt að þurfa að skamma hæstv. menntmrh., Ólaf G. Einarsson, því að engin leið er að setja ábyrgðina á hæstv. ráðherra einan. Hann hefur setið í þeirri nöturlegu stöðu að fara með þennan málaflokk undir skilningslausri ríkisstjórn sem hefur gengið þessa leið. En það kann vel að vera að hæstv. ráðherra eigi að sætta sig við það eitt að hafa látið semja þetta ágæta frv. Það er ástæðulaust að leggja metnað sinn svo í að gera þetta að lögum ef það á ekki að taka gildi í bráð. Frv. eitt getur haldið uppi nafni ráðherrans, að í lok mesta þrengingartímabils í skólalífi landsmanna um áratuga skeið hafi menn lagt fram ágætt frv. sem auðvitað verður að vinna í á næsta þingi.
    Það er eitt sem ég vil ræða sérstaklega við hæstv. menntmrh. hvað frv. varðar. Ég hef farið yfir hvað gildistakan er einkennileg. Það er annað atriði sem ég vil sérstaklega minnast á þegar búið er að færa grunnskólann alfarið yfir á hin misstóru, misauðugu sveitarfélög og þau þurfa að berjast við að framfylgja lögum sem eru mun strangari á allan hátt en verið hafa. Það er hvernig á að fylgjast með og framfylgja þessum lögum ef þau verða sett. Hver er eftirlitsþátturinn? Jú, eftirlitsþátturinn verður hjá menntmrn. og hæstv. menntmrh. en við skulum segja að einhver sveitarfélög á einhverju tímabili sjái að þau geta á engan hátt framfylgt þessum nýju lögum eða hreinlega ákveða að vera ekkert að verja öllu þessu fjármagni í menntun, segja sem svo að þau vilji fremur malbika götur í sínu byggðarlagi eða efla atvinnulíf og stytta skólann og skerða. Hvernig ætlar hæstv. menntmrh. að koma í veg fyrir svona aðferðir?
    Hvað skoðanir þess sem hér stendur varðar þá hef ég aldrei verið sannfærður um að málefni grunnskólans ættu alfarið að fara yfir á sveitarstjórnarstigið. Ég tel að ríkisvaldið verði að bera mikla ábyrgð á menntun þjóðarinnar. Ég hygg að samvinna ríkis og sveitarfélaga með einhverjum hætti hafi víða reynst vel. Í þeim efnum væri ekkert óeðlilegt að ríkið bæri laun kennara þó að sveitarfélögum væri kannski gert að hagræða og spara. Ég vil því láta þá skoðun koma fram fyrir utan hitt að ég hefði talið það mjög mikilvægt vegna þess hversu sveitarfélögin í landinu eru misstór. Þau eru allt frá því að vera 50 manns eða þar undir í nokkrum og upp í mjög stór sveitarfélög eins og Reykjavík. Þau eru því mjög misvel undir þetta verkefni búin.
    Við framsóknarmenn höfum margrætt þessi mál í okkar þingflokki og gert athugasemdir við nokkur atriði. Okkur finnst að óeðlilega mikið sé dregið úr áhrifum kennara í stjórn skóla, ekki gert ráð fyrir fjöldatakmörkunum í bekkjardeildir, of mikil áhersla lögð á samræmd próf, og skal þeim beitt niður í 4. bekk, sérfræðiþjónusta og sérkennsla er illa skilgreind, ekki er kveðið á um að hægt sé að grípa til aðgerða ef sveitarfélag uppfyllir ekki ákvæði laga og reglugerða um grunnskólann, eins og ég gat um áðan, hlutverk skólanefnda er of umfangsmikið með tilliti til lítilla sveitarfélaga og flutt eru verkefni frá fræðsluskrifstofu til menntmrn.
    Þetta eru þau stóru atriði sem flokkurinn hefur gert athugasemdir við og nefndarmennirnir, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir og Jón Kristjánsson, hafa tíundað sérstaklega.
    Hæstv. forseti. Hér hafa orðið harðar deilur um þetta mál og stjórnarliðar og þar á meðal hæstv. menntmrh. hafa kallað hverja ræðu málþóf og meira að segja haft uppi þau stóru orð, sem komu mér á óvart, að hann hefur kallað flestar ræður sem fluttar hafa verið um málið rugl í málflutningi. Hafa menn þó jafnan verið að vitna í þann ágreining sem um málið er hjá kennarafélögum, af hálfu sveitarfélaganna og séraðila sem ég hef hér minnst á eins og Þroskahjálp.
    Það er búið að ræða þetta mál fram og til baka í sjálfu sér þannig að ég veit ekki hvort ég á að

fara að rekja einstakar greinar frv. við þessar aðstæður. Ég tel það í rauninni ástæðulaust. En ég vil leggja áherslu á það að hæstv. menntmrh. og formaður menntmn. meti meira við þessar aðstæður þegar stendur yfir alvarlegasta deila um kjaramál á milli kennara og ríkisins og börnin hafa verið send heim, að það sé miklu meira atriði að setjast yfir það þunga verkefni að ná skólunum í gang á nýjan leik og sátt við kennarana. Hitt sé svo framhaldsverkefni að fara yfir frv. á vorþingi og þá liggi þau atriði fyrir sem ég gat um áðan að væru einkennileg og hefði sennilega ekki sést í þingsögunni að lög væru sett með þessum hætti.
    Þetta held ég að væri drengskaparbragð af hálfu hæstv. ráðherra heldur en ætla í þröngri stöðu og tímaleysi að knýja þetta mál fram og sem yrði kannski til þess að hnútur kennaradeilunnar yrði svo harður að skólastarf vetrarins væri fyrir bí. Það er margt sem bendir til þess að svo gæti farið. Ég er með í höndunum fréttir úr dagblöðum í dag sem rauninni staðfesta það. Þar kemur t.d. fram að þó að sveitarfélögin hafi ákveðið að segja fyrir sitt leyti að frv. mætti ganga í gegnum þingið, þá er þó Vilhjálmur Vilhjálmsson sá drengur að hann segir frá því í viðtali, með leyfi forseta:
    ,,Vilhjálmur sagði að sveitarfélögin hefðu alla tíð lagt áherslu á að þessi tilflutningur ætti sér stað í sátt við sveitarfélögin og kennara.``
    Að þau yrðu gerð í sátt, hæstv. menntmrh., við sveitarfélögin og kennara. Það er skoðun formanns íslenskra sveitarfélaga. Og nú liggur fyrir að það er í raun ekki sátt við sveitarfélögin því að litlu sveitarfélögin hafa lýst áhyggjum og í ofanálag hafa þau, eins og Samband sveitarfélaga á Norðurl. v., fjallað um málið og segja á þá leið, með leyfi forseta:
    ,,Þar sem ekki hefur tekist að ganga frá málefnum kennara, kostnaðarliðir eru óljósir og hugmyndir um tekjur og jöfnunaraðgerðir ekki fullmótaðar leggur stjórn Sambands sveitarfélaga á Norðurl. v. til að niðurfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna verði frestað þar til niðurstaða er fengin.``
    Hver var að tala um að það væri samstaða sveitarfélaga? Öll sveitarfélög á Norðurl. v. álykta með þessum hætti. Það er eitt kjördæmi sem kemst að þeirri niðurstöðu, nákvæmlega því sama og margir þingmenn hafa haldið fram í þessari umræðu, að við þessar aðstæður yrði að fresta málinu. Síðan segir:
    ,,Sveitarstjórnarmenn hafa lýst sig reiðubúna til að taka við þessu verkefni, en óttast nú mjög að þeir fjármunir sem til þarf muni ekki fylgja þar sem ríkisvaldið heldur uppteknum hætti við að brjóta gerða samninga á sveitarfélögum í landinu.``
    Hvað eru menn að rifja upp? Auðvitað hafa menn staðið frammi fyrir því að þrátt fyrir fyrirheit fyrir einum 5--6 árum og verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga þá hefur ríkisvaldið trekk í trekk leyft sér að leggja á sveitarfélögin sérstaka skatta. Hér í þingsölum hafa menn sagt: Sveitarfélögin eru svo rík. Það hefur verið lögguskattur og ég man nú ekki lengur hvað þeir heita allir, en þannig hefur verið gengið á gerða kjarasamninga við sveitarfélögin svo ég er ekkert hissa á því þó að þau vilji ná þessu fram með ákveðnari hætti. ( Gripið fram í: Treysta ekki ríkisstjórninni.) Þau þurfa í sjálfu sér ekki að treysta þessari ríkisstjórn lengi enn. Hún er á förum innan skamms. Hún á ekki eftir að starfa nema í um það bil sex til sjö vikur þannig að hennar tími er búinn og ég er sannfærður um það að þjóðin hlýtur að velja sér aðra flokka til að stjórna landinu eftir 8. apríl. Það á ekki bara við um hvernig farið hefur verið með málefni skólans eða skólanna og námsfólksins, heldur á svo mörgum öðrum sviðum.
    Það er nú svo, hæstv. menntmrh., að það er bullandi ágreiningur um þetta mál hvað sem menn segja. Það snýst í sjálfu sér ekkert um þau góðu markmið sem sett eru fram í frv. hæstv. ráðherra. Það er framtíðin. En það verður að fylla víxilinn út áður en málið fer í gegnum þingið. Það verður að ganga klárt frá því hvernig fer með málefni kennaranna, hvernig fer með þeirra lífeyrisréttindi og þeirra laun, hvernig fer með tekjustofnana sem eiga að koma til sveitarfélaganna, hvernig geta þau staðið jafnfætis um allt land, litlu og stóru sveitarfélögin í þessu þunga verkefni og hvernig það verður tryggt að þroskaheftir sitji við það borð sem þeir gera nú og náðst hefur mikill árangur í landinu. Það eru þessi atriði sem ráða því, hæstv. menntmrh., að þetta frv. getur ekki gengið öllu lengra á þessu þingi.
    Það má segja sem svo að menn hafa engu tapað þó það stoppi því þeir eiga ekkert að fá fyrr en eftir rúmt ár eða tvö. Þeir eiga ekkert að fá fyrr þannig að menn hafa engu tapað. Því er rétt að nota þetta ár til að fullkomna þetta verk. Ég býst við því og vona það að þó að hér komi nýir herrar að þeir muni ekki fleygja þessu ágæta frv. hæstv. menntmrh. því að margt er ágætt í því. Ég hygg að þetta frv. muni halda nafni hans uppi meðan landið er byggt. Hans verður minnst fyrir þetta frv. en hann á að láta sér það nægja ( Gripið fram í: Já, sem frv.) því hann klúðrar hinu öllu ef hann ætlar að ryðja því í gegnum þingið. (Gripið fram í.) Þá klúðrar hann samningum við kennara, þá klúðrar hann sáttinni við sveitarfélögin o.s.frv. Ég held að hæstv. menntmrh. hafi sýnt það í verki að hann vill fyrirgefa öll vondu verkin sl. fjögur ár með því að hafa þó getið af sér gott afkvæmi undir þessum átján manna hópi í frumvarpsformi. ( ÓRG: Hvað heldur þingmaðurinn að land verði lengi byggt?) Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson spyr hversu lengi þingmaðurinn haldi að landið verði byggt. Ég verð að játa það að ég hef þá trú að Ísland búi yfir þeim auðæfum að það verði byggt að eilífu. ( ÓRG: þannig að ráðherrans verður minnst að eilífu.) Það kann að vera að ráðherrans verði minnst að eilífu í fyrsta lagi fyrir tvennt, annars vegar fyrir að hafa verið ráðherra á þessum fjóru, mögru árum þegar skólarnir voru skornir niður, þegar jafnrétti til náms var ekki lengur fyrir hendi, að hæstv. ráðherra verði minnst fyrir það og svo fyrir hitt að hafa þó í lok tímans iðrast, þvegið hendur sínar og lagt fram þokkalegt frv. Því það er sannarlega mikils virði í pólitík að menn viðurkenni mistök sín og iðrist. Það hefur kannski ekki verið hin sterka staða hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar að kunna svo mjög að iðrast ( GJH: O, jú, hann hefur séð eftir mörgu.) þó hann hafi kannski með sjálfu sér séð eftir ýmsu. ( KHG: Ráðherrann má ekki mikið iðrast í dag.)
    Ég ætla að hlífa þingmönnum við því að fara út í einstakar greinar þessa frv. Ég tel að við ræðum fyrst og fremst um málið út frá þessu atriði: Getum við afgreitt það eins og það stendur vegna ástandsins í skólunum í dag? Ég tel svo ekki vera og skora því á hæstv. menntmrh. að lýsa því yfir að hann falli frá því að afgreiða þetta mál og því verði frestað til vorþingsins.