Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 02:29:30 (5091)


[02:29]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að flytja langt mál um það frv. sem hér liggur fyrir eða þær brtt. sem hv. félmn. leggur fram við 2. umr. vegna þess að við 1. umr. ræddi ég allnokkuð um þetta þingmál. Ég vildi aðeins byrja þó á þeim þætti sem hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, vék að áðan þegar hann vakti athygli á því að að mörgu þyrfti að hyggja varðandi skipulagsmálin á snjóflóðavörnunum. Og ég er sammála hv. þm. um það að ég held að þau mál séu alls ekki í þeim farvegi sem þau ættu að vera og alls ekki í jafngóðu ástandi og þau ættu að vera og mjög margt af því sem við uppgötvuðum núna í vetur hefur fært manni heim sanninn um að það þyrfti að breyta mjög mörgum þáttum. Það var hins vegar niðurstaða félmn. Alþingis að það væri ekki tóm til þess núna að fara í þá nauðsynlegu vinnu. Það er að mjög mörgu að hyggja, þetta er ekki einfalt mál, og þess vegna hefði ekki verið skynsamlegt allra hluta vegna að reyna að fara ofan í skipulagsmálin og það varð því niðurstaða félmn. að einbeita sér að öðrum hlutum.
    Það atriði sem að sjálfsögðu hefur orðið hvað mest til umfjöllunar er sú nýbreytni sem kemur fram í frv. að þar er skýrt frekar frá núgildandi lögum að sá valkostur sé fyrir hendi að húseignir verði keyptar í staðinn fyrir að reisa varnarvirki fyrir þær. Þessi mál hafa verið talsvert mikið rædd og hlutu mjög mikla umfjöllun í hv. félmn. Niðurstaða nefndarinnar varð sú sem birtist í brtt. nefndarinnar og hefur þegar verið gerð grein fyrir af hv. frsm., hv. formanni félmn., Gísla S. Einarssyni.
    Það má auðvitað segja sem svo að það sé dálítið álitamál hversu langt eigi að ganga í sjálfri lagasetningunni og hversu langt eigi að ganga í því að setja niður reglur frá upphafi til enda um hvernig eigi að fara með þetta mál. Það er auðvitað ljóst að þetta er býsna viðkvæmt og enginn vafi á því að í framkvæmdinni munu koma upp álitaefni og hugsanlega einhver deiluefni. Engu að síður varð það niðurstaða nefndarinnar að gera þetta eins og hér er gert að setja fram almennar en þó skýrar meginreglur til þess að styðjast við en fjalla síðan frekar um málið í því nál. sem hér fylgir. Það er að sjálfsögðu ekki tilviljun að nál. hvað þetta mál áhrærir er býsna ítarlegt einfaldlega vegna þess að þarna þarf að skoða málin frá víðu sjónarhorni vegna þess að tilvikin geta verið svo margvísleg. Þess vegna held ég að það hafi verið rétt niðurstaða nefndarinnar að hafa reglurnar í senn almennar en skýrar, hafa meginlínurnar skýrar til þess að vinna eftir en reyna síðan að kveða nánar á um, eins konar leiðsögn fyrir þá sem eiga að framkvæma lögin, í sjálfu nefndarálitinu. Eins og ég segi kann það að vera álitamál hversu mikinn hluta af sjálfri framkvæmdinni ætti að binda í lög en þetta varð sem sagt niðurstaða nefndarinnar.
    Ég vil líka benda á að það munu koma upp tilvik sem erfitt er að sjá fyrir núna þegar við erum að setja þessi lög og ég efast ekki um að þegar að framkvæmdinni kemur munu koma upp tilvik þar sem ekki getur verið um annað að ræða en eins konar einstaklingsbundið mat. Hins vegar get ég vel tekið undir það sem fram kom í máli, að ég hygg, hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, sem ég er farinn að vitna allmikið í, að það kunni að vera rétt að skerpa þetta mál með einhvers konar reglugerðarheimild ef þess gerist sérstaklega þörf. Mér er ekki alveg ljóst hvort þá þurfi að setja þessa reglugerðarheimild í lögin eða hvort það leiði af eðli þessarar lagasetningar að hægt sé að skýra hana betur með reglugerð.
    Ég vek líka athygli á því að hér erum við að tala um síðasta úrræðið. Meginreglan er sú að leita allra annarra lausna áður en farið er út í uppkaup. Þessi uppkaup eru í sjálfu sér gífurlega stór ákvörðun og menn skulu ekki ætla það að með þessu sé félmn. Alþingis að opna allar gáttir. Menn eru einfaldlega að segja: Ef ekki er hægt að leysa málin með öruggum og ódýrari hætti þá er það síðasta úrræðið að sveitarfélagið geri tillögu til stjórnar ofanflóðasjóðs um uppkaup á fasteignum. Þetta er sem sagt síðasta úrræðið þegar ekki eru aðrir kostir til staðar.
    Ég vil líka vekja athygli á því að gert er ráð fyrir því í brtt. að hægt sé að beita eignarnámsheimildum og eignarnámsheimildirnar styðjist við mjög skýr lög. Þar gildir að til staðar er sérstök matsnefnd sem skipuð er þar til kvöddum mönnum undir forustu löglærðs manns með dómararéttindi, að ég hygg, sem á að vinna þetta mál. Ég held því að á vissan hátt sé séð fyrir réttaröryggi þess fólks sem hér um ræðir.
    Aðalatriðið finnst mér þó að það hefur komið fram mjög skýrt, bæði í nál. sjálfu en einnig í þessum umræðum sem hafa átt sér stað, að vilji bæði nefndarinnar og alþingismanna sem hafa talað er mjög skýr. Hann er skýr að því leytinu að allir hafa tekið undir það sem er efnisatriði nál. og hlýtur þess vegna að teljast mjög ákveðin leiðsögn fyrir þá sem munu annast þessa framkvæmd. Ég held að hvernig sem á málin er litið, jafnvel þó að við bættum einhverjum atriðum í lagatextann sjálfan, þá hlýtur samt sem áður framkvæmdin að verða með þeim hætti, vegna þess að tilvikin verða svo mörg og margvísleg, að nál. hlýtur alltaf að skoðast sem mjög mikilvægt gagn þegar menn fara að koma að framkvæmdinni sjálfri.
    Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekkert að fjölyrða mjög mikið um þetta mál, ég tel ekki ástæðu til þess. Ég tel að það liggi nokkuð skýrt fyrir og tel raunar að um það sé býsna góð samstaða í þinginu og það hefur verið mikill vilji til þess að reyna að ná sem bestri samstöðu um þetta mál vegna þess að það er í sjálfu sér ekki pólitísks eðlis á þann hátt að það þurfi að skapast um það einhver pólitískur ágreiningur milli stjórnmálaflokka. Ég vil segja að með þessu máli er gríðarlega mikið fylgst og það er knýjandi hjá býsna mörgum sem búa við þessar aðstæður. Mér er t.d. kunnugt um það að í kvöld var haldinn fundur íbúa Hnífsdals, þ.e. þeirra íbúa Hnífsdals sem búa við þær aðstæður að ekki virðist vera hægt að verja byggðina með neinum skynsamlegum hætti með hefðbundnum varnarvirkjum. Þar verður, að því er best verður séð, ekki hægt að leysa málin öðruvísi en hreinlega með uppkaupum á eignum og ég álít að það mál muni verða auðvitað eitt af því fyrsta sem komi til álita þegar þessi lög verða samþykkt.
    Sú staða er komin upp í því hverfi að fólk býr við svo mikið óöryggi að það hreinlega óttast að búa í húsum sínum. Þessi ótti fer því miður vaxandi og ég get ekki séð að til sé nein önnur lausn á því máli en sú að skapa þessu fólki öryggi að nýju. Ég hef þær fréttir af þessum fundi Hnífsdælinganna í kvöld að þar hafi hugur allra sem töluðu staðið til þess að búa áfram í sínu sveitarfélagi á Ísafirði og langflestir töldu að lagaákvæði í þeim dúr sem við erum hér að fjalla um mundi verða til þess að þeir kysu fremur að byggja sér hús á Ísafirði en að kaupa fasteignir innan eða utan sveitarfélagsins ef þetta verður niðurstaða Alþingis. Ég held þess vegna að þessi litlu viðbrögð sem ég er hér að greina frá, sem eru frásagnir annarra sem á þessum fundi voru, gefi til kynna hvernig fólk muni bregðast við ef lög af þessu taginu yrðu samþykkt.
    Ég vil ítreka, vegna þess að ég tel nauðsynlegt að það komi skýrt fram, að það er vilji löggjafans að hér sé um að ræða síðasta úrræðið þegar ekki er hægt með öðrum skynsamlegum hætti að tryggja öryggi fólksins. Þetta verður auðvitað matsatriði hverju sinni. Það er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin hafi þarna ákveðna frumkvæðisskyldu, að sjálfsögðu á grundvelli mats hinna fróðustu manna, en endanleg ákvörðun verði hins vegar í höndum stjórnar ofanflóðasjóðs.
    Virðulegi forseti. Það væri hægt að fjalla um þetta mál nokkru ítarlegar en ég hef gert. Ég hef hins vegar kosið að einbeita eingöngu mér að því atriði sem mest var rætt í félmn. og lýsa því að innan nefndarinnar var mjög góð eining. Menn voru mjög sammála þar. Það var einungis meiningarmunur um það hve langt ætti að ganga í sjálfri lagasetningunni, en ég tel það þó ekki vera aðalatriði. Mér finnst aðalatriðið vera sú hugsun sem bæði kemur fram í lagatextanum, sem menn eru sammála um, sem kemur fram í nál., sem menn eru sammála um, og sem hefur komið fram í umræðunum í kvöld. Þess vegna held ég það að þegar við brjótum þetta mál til mergjar að lokum, þá sé það niðurstaðan að þingið sé sammála um hvernig þessum málum eigi að skipa og sé sammála um það hvernig framkvæmdin eigi að vera og þess vegna sé það alveg óhákvæmilegt að þeir sem um málin munu fjalla að lokum og þeir sem munu taka þessar ákvarðanir að lokum hljóti að styðjast fyrst og fremst og nær eingöngu við þá leiðsögn sem kemur fram í nál. Þess vegna er ég ekki svo kvíðinn fyrir því þó að ekki hafi verið gengið lengra í því að lögfesta nál. Ég tel sem sagt að fyrir þessu sé séð og ég tel raunar að það þurfi líka að vera ákveðið svigrúm fyrir einstaklingsbundið mat vegna þess að tilvikin sem upp koma eru svo margvísleg. Ég vil hins vegar varpa því fram hvort þarna eigi með beinum lagafyrirmælum að opna á reglugerðarheimild eða hvort þessi lagatexti nægi eins og hann er í dag. Mér er það ekki alveg ljóst, en ég vil fyrir mína parta lýsa því yfir að ég er tilbúinn til þess ef menn kjósa og telja nauðsynlegt að slík reglugerðarheimild sé fest nánar í lögin, en það er mér sem sagt ekki fullkomlega ljóst.