Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 02:54:50 (5093)


[02:54]
     Jón Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Ég á sæti í hv. félmn. og vann að skoðun þessa frv. Ég var ekki viðstaddur lokaafgreiðslu málsins en ég vil láta það koma fram við þessa umræðu að ég styð þetta mál og tel ýmis ákvæði sem í frv. eru til bóta og taka á mikilvægum þáttum í þessum vandasama málaflokki.
    Það hefur einkum verið rætt við 2. umr. málsins um ákvæðin, sem getið er í greinargerð, um uppkaup eigna og ákvörðun um varnarvirki sem er langerfiðasti þáttur þessa máls. Ég get tekið undir það sem kom fram í ræðu hv. 4. þm. Austurl. fyrr í kvöld um að þörf sé á því að setja heimild til reglugerðar í frv. fyrir lokaafgreiðslu þess því að ég get tekið undir það að orðalag í greinargerðinni er kannski ekki alveg nógu skýrt varðandi greiðslur fyrir húseignir ef t.d. hagar þannig til að fólk vill flytja í annað sveitarfélag. Það hefur verið vitnað til laga um brunatryggingar en jafnframt er vitnað til þess að það eigi að greiða eftir fasteignamati, en hvenær er greitt eftir fasteignamati og hvenær eftir markaðsverði kemur ekki nógu skýrt fram í þeirri greinargerð sem hér liggur fyrir. Ég styð þess vegna að það verði skoðað milli umræðna hvort ekki er til bóta að taka heimildarákvæði um reglugerð inn í frv.
    Auðvitað tekur þetta frv. ekki á öllum vanda varðandi þessi mál og stjórnsýsla þessara mála þarfnast að sjálfsögðu frekari skoðunar. Skipulagsþáttur frv. er, eins og komið hefur fram, undir félmrn. en skipulagsmál heyra undir umhvrn. Það þarf því að halda áfram vinnu að þessum málum þó að þessi ákvæði í frv., sem eru mjög til bóta, verði samþykkt, sem þau vonandi verða, á Alþingi.
    Ég vil ljúka máli mínu með því að taka undir orð hv. 4. þm. Austurl. varðandi það að vissulega er alltaf áhætta í því fólgin að búa í þessu landi, en engu að síður verður að koma til móts við það fólk sem býr við mesta hættuástandið í þessum efnum. Þetta frv. er spor í þá átt en auðvitað þarf að halda áfram á þeirri braut og reyna að búa sem best um í þessum málum.