Húsnæðisstofnun ríkisins

106. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 03:08:27 (5098)


[03:08]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóns Kristjánssonar. Þótt nokkur þrýstingur sé á störfum þingsins nú þá hefur nefndin reynt að vinna af kostgæfni í þessu máli. Við lítum svo á, bæði ég og aðrir nefndarmenn, að þessi tillaga sé í heildina til þó nokkuð mikilla bóta. Það er aðeins í 25. gr., sú breyting sem þar er á, að við teljum, ég er sammála fyrri ræðumanni um það, að þar er þess ekki nógu vel gætt að fólk sem komið er í hærri tekjumörk og greiðir vexti samkvæmt því, ef tekjur lækka aftur þá er þess of langt að bíða að það geti fengið lækkun, þ.e. það getur þurft að bíða í þrjú ár eftir því. Þetta er galli sem ekki hefur tekist að finna lausn á, en það eru líkur til að það séu ekki svo margir sem lendi í þessum hremmingum að vera allt í einu hækkaðir upp í efri mörk og missa svo tekjurnar strax aftur eftir það. Því álít ég að það sé vel þess virði að styðja þetta frv. í heild, en aðeins með þessum eina litla fyrirvara --- kannski er ekki rétt að segja litlum --- eina fyrirvara, að þarna hefi mátt setja undir lekann með því að fólk gæti snúið sér til Húsnæðisstofnunar og fengið endurmat fyrr. Að öðru leyti styð ég þetta frv. heils hugar.