Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 10:33:27 (5115)

[10:33]
     Frsm. meiri hluta samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Samgn. hefur á undanförnum vikum haft til athugunar till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1995--1998. Nefndin hefur ítrekað fengið á sinn fund starfsmenn Vegagerðarinnar þá Helga Hallgrímsson vegamálastjóra og Jón Rögnvaldsson aðstoðarvegamálastjóra og hafa þeir veitt nefndinni mikilvæga aðstoð við vinnslu málsins og athugun á því. Ég tel ástæðu til þess að flytja starfsmönnum Vegagerðarinnar og sérstaklega vegamálastjóra og hans starfsmönnum sérstakar þakkir fyrir þá lipurð í starfi og samstarfi sem þeir hafa sýnt samgn. að þessu sinni og er það ekkert nýtt. Svo hefur löngum verið um starfsmenn Vegagerðarinnar að þeir hafa veitt þingnefndum mikla aðstoð og við þá hefur verið hverju sinni hægt að hafa gott samstarf og ævinlega auðvelt til þeirra að leita. Ég vil að þessu sinni flytja þeim ágætu mönnum sem þar eru nú í forsvari þakkir fyrir þeirra starf í því að aðstoða nefndina við að athuga þetta mál og vinna það í hvívetna.
    Á síðasta Alþingi voru samþykkt ný vegalög og er sú vegáætlun sem hér er til meðferðar sú hin fyrsta sem tekur mið af hinum nýju lögum. Lögin hafa m.a. áhrif á það hvaða vegir teljast þjóðvegir og annað er lýtur að flokkun þjóðvega. Þetta veldur talsverðum breytingum á uppsetningu vegáætlunar, þ.e. á gjaldahlið hennar. Starfshættir við afgreiðslu tillögunnar af hálfu samgn. hafa verið með nokkuð hefðbundnu sniði. Starf nefndarinnar er í fyrsta lagi fólgið í því að kanna alla liði þeirrar tillögu sem til meðferðar er, bæði tekjuhlið og gjaldahlið. Síðan er það starf nefndarinnar að afgreiða og taka ákvörðun um tillögur nefndarinnar eða meiri hluta hennar um skiptingu á fjárveitingum til stórverkefna og brúa, svo og skiptingu á fé milli kjördæma. Undir þennan sama lið má nefna að samgn. þarf að taka ákvörðun um t.d. skiptingu á fé til höfuðborgarsvæðisins eða móta tillögur um það hversu mikið það fé á að vera til þess að hægt sé að vinna málið áfram með sambærilegum hætti og gert hefur verið jafnan, þ.e. að þingmenn hvers kjördæmis fyrir sig fá málið í sínar hendur og skipta eða gera tillögur um skiptingu á fé innan hvers kjördæmis.
    Að þessu sinni var slíkt starf með hefðbundnum hætti. Þingmenn kjördæma skiptu eða gerðu tillögur um skiptingu á fé innan hvers kjördæmis fyrir sig. Á þessu var þó ein undantekning, að þingmenn stjórnarandstöðunnar í Austurlandskjördæmi standa ekki að þeim tillögum um skiptingu fjár sem þar var til ráðstöfunar á einstök verkefni. Meiri hluti samgn. hefur tekið upp þær tillögur sem hv. þm. stjórnarflokkanna á Austurlandi, hv. 3. þm. Austurl. og hv. 5. þm. Austurl., hafa skilað til nefndarinnar og fellir þær tillögur inn í sínar brtt.
    Í meðferð þessa máls hafa ekki verið gerðar aðrar breytingar á tekjuhlið áætlunarinnar en þær er lúta að verðlagshækkunum milli áranna 1995 og 1996. Er þar gerð tillaga um að áætla verðlagshækkun milli þessara ára og gildir verðlagshækkunin út tímabilið til loka, en að þessu sinni var tekin ákvörðun um að styðjast við að verðlag gæti hækkað um 3% milli þessara ára og tekjuöflun áranna 1996--1998 hækkuð sem þessu nemur. Sömu verðlagsforsendur gilda að sjálfsögðu fyrir gjaldahlið tillögunnar.
    Í nóvembermánuði sl. ákvað ríkisstjórnin að gera tillögur til Alþingis um að verja 3.500 millj. kr. til svokallaðs framkvæmdaátaks í vegamálum. Þess fjármagns er áætlað að afla á fimm árum en ráðstafa því á fjórum árum, þ.e. á því áætlunartímabili sem vegáætlunin tekur til og er stærsta hlutanum af þessu fjármagni ráðstafað á fyrsta ári. Helmingi þessa fjármagns er aflað með hækkun markaðra tekjustofna en hinn helmingurinn er framlag úr ríkissjóði. Til að brúa bilið milli fjáröflunar ráðstöfunar fjárins verður aflað lánsfjár árin 1995, 1996 og 1997, en það lánsfé síðan endurgreitt á árunum 1998 og 1999.
    Samkvæmt tillögum hæstv. ríkisstjórnar fól þetta einnig í sér að þessu fjármagni skyldi skipt milli kjördæma að meginhluta til eftir íbúatölu og höfuðborgarsvæðið meðhöndlað sem eitt kjördæmi við þá skiptingu. Á þessa skiptingu fjármagnsins hefur komið fram nokkur gagnrýni af hálfu hv. minni hluta í samgn., þ.e. frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar, en sú gagnrýni styðst að mínum dómi ekki við sérstaklega sterkar röksemdir. Það er ekkert nýtt að fjármagni, sem aflað er til viðbótar við almenna vegaféð, sem rennur til vegaframkvæmda samkvæmt sérmerktum tekjustofnum Vegagerðarinnar, sé ráðstafað með öðrum hætti heldur en hinu venjubundna vegafé. Raunar má segja að það sé regla fremur en hitt að því sé ráðstafað með afbrigðilegum hætti
    Það fyrsta sem ég man eftir um ráðstöfun fjármagns af þessu tagi er raunar frá því áður en ég kom

hingað á Alþingi eða fyrir um 30 árum. Það var þegar aflað var sérstaks fjármagns úr svokölluðum flóttamannasjóði Evrópu sem varið var til framkvæmda á Vestfjörðum samkvæmt svokallaðri Vestfjarðaáætlun sem hv. þm. og fyrrv. forseti sameinaðs Alþingis átti stóran hlut að að komst til framkvæmda. Síðan tóku við ýmsar landshlutaáætlanir í vegamálum. Má þar nefna bæði Norðurlandsáætlun og Austurlandsáætlun. Aflað var sérstaks fjármagns til þess að leggja í slitlagsframkvæmdir eða varanlega vegagerð á Reykjanesbraut og á Austurvegi. Það var tekið frá sérstakt fjármagn utan skiptingar til þess að leggja að hluta til í Borgarfjarðarbrú og aflað var sérstaks fjármagns utan við Vegasjóð en til vegagerðar á svokölluðum hafísvegi á norðausturhorni landsins, sem ég hygg að hafi náð allt frá Raufarhöfn til Vopnafjarðar.
    Öll þessi dæmi eru rakin til þess að sýna að það er ekkert sérstakt við það að því fé, sem ríkisstjórn á hverjum tíma aflar til þess að auka vegaframkvæmdir í landinu umfram það sem sérmerktir tekjustofnar Vegagerðarinnar hafa bolmagn til að standa undir, er gjarnan ráðstafað með öðrum hætti en þeim sem hefðbundnar skiptitölur á milli kjördæma gefa tilefni til. Fleiri dæmi mætti nefna um þessi efni á síðari árum sem ég hirði ekki upp að telja. Þetta sem ég hef rakið sýnir fram á það að þessi gagnrýni er í hæsta máta máttlaus af hálfu þeirra sem hafa kosið að skipa sér í minni hluta hv. samgn. og skila séráliti.
    Í þessari tillögu er gert ráð fyrir því að fé til stórverkefna byggist á endurskoðaðri skilgreiningu um þann vegaflokk sem nefndin hefur fjallað um. Skilgreiningin sem rakin er í nál. meiri hluta nefndarinnar á þskj. 755 er þannig að ég held að það sé tilefni til þess að rekja það hér.
    Það eru í fyrsta lagi jarðgöng og þar er greitt af óskiptu vegafé, framkvæmdafé Vegagerðarinnar, 80% kostnaðar, en af fé hlutaðeigandi kjördæmis eða kjördæma 20%.
    Í öðru lagi er um að ræða stórbrýr og vegi þvert á firði. Þar er greitt af óskiptu vegafé 62,5%, en af fé hlutaðeigandi kjördæmis 37,5%. Lágmarkskostnaður framkvæmda til þess að ná því að vera tekinn í þennan flokk stórverkefna er samkvæmt áætlun 130 millj. kr.
    Í þriðja lagi er um að ræða áfanga á hringvegi milli kjördæma. Þar er greitt af óskiptu vegafé 70% kostnaðar, en af fé hlutaðeigandi kjördæmis eða kjördæma 30%. Lágmarksframkvæmdakostnaður samkvæmt áætlun skal vera 800 millj. kr. til þess að tekið sé inn í þennan flokk stórverkefna.
    Í fjórða lagi er um að ræða tengingu þéttbýlisstaða í eitt atvinnu- og þjónustusvæði og greiðist þá af óskiptu 70%, en af fé kjördæma 30%. Lágmarksframkvæmdakostnaður samkvæmt áætlun við þennan vegaflokk er 400 millj. kr.
    Í fimmta lagi er áfangi til að tengja byggðasvæði, sem er með meira en 5.000 íbúa, við meginvegakerfi landsins. Þá er sama regla eins og tíðast er um skiptingu milli hins almenna vegafjár og kjördæmisfjár, þ.e. 70% af óskiptu en 30% af fé hlutaðeigandi kjördæmis. Lágmarksframkvæmdakostnaður samkvæmt þessari áætlun er 600 millj.
    Þessi fimmti liður sem hér hefur verið upp talinn er nýr og var tekin ákvörðun um það af meiri hluta samgn. að gera tillögu um að honum sé bætt í stórverkefnalið að þessu sinni. Undir þessa skilgreiningu fellur Djúpvegur úr mynni Lágadals út í Hestfjörð og er lagt til að veitt verði nokkru fjármagni, um 250 millj. kr., til framkvæmda á þessari leið á áætlunartímabilinu. Er þá jafnframt áætlað fyrir mótframlagi frá hlutaðeigandi kjördæmi, þ.e. Vestfjarðakjördæmi, til þess að unnt verði að endurbyggja allt að 50 km af þeim vegi.
    Af þeim mannvirkjum sem undir þessa stórverkefnaflokka falla eru Vestfjarðagöng langstærst. Áætlað er að því verki verði svo langt komið að unnt verði að taka göngin öll í notkun á komandi hausti og að gerð þeirra ljúki að fullu á árinu 1996. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að fjárveitingar til verksins dreifist á árin 1995--1997 auk lítillar fjárveitingar á árinu 1998 og verður því nauðsynlegt að afla tiltekins lánsfjár til verksins á milli áranna 1996 og 1997.
    Þá er lagt til að á áætlunartímabilinu verði varið 510 millj. kr. af stórverkefnaflokki til framkvæmda í Gilsfirði við Gilsfjarðarbrú. Áætlað er að þessi fjárhæð, að viðbættum mótframlögum frá Vesturlands- og Vestfjarðakjördæmi, nægi til þess að ljúka verkinu á áætlunartímabilinu. Gerð verður framkvæmdaáætlun í samræmi við þessar fjárveitingar sem hér er lagt til að teknar verði upp og verður þar að taka tillit til takmarkana vegna arnarvarps og ýmissa annarra umhverfissjónarmiða.
    Fjárveitingar til tengingar á milli Norður- og Austurlands miðast við að því verkefni geti lokið um aldamót og er þá reiknað með að fjárveitingar haldist svipaðar. Fjárveitingar til Jökulsár á Dal eru til að greiða kostnað við að ljúka því verki sem nú stendur yfir og þá er lagt til að á árunum 1996--1998 verði varið nokkrum fjármunum til að halda áfram rannsókn vegna hugsanlegra jarðganga á Austurlandi. Loks er lagt til að á árinu 1998 verði veitt byrjunarfjárveiting til að hefja framkvæmdir við endurbyggingu vegarins um Búlandshöfða á Snæfellsnesi.
    Rétt er að víkja að einni vegaframkvæmd sem ekki er í þessari vegáætlun, en það snertir mál sem við vorum að fjalla um á hv. Alþingi í gær og það er tenging um Hvalfjörð. Með samningi frá 1991 við þáv. hæstv. ríkisstjórn öðlaðist Spölur hf. rétt til að annast gerð jarðganga undir fjörðinn. Spölur hf. hefur síðan unnið að undirbúningi framkvæmda og fjármögnun þeirra. Tilboð í verkið liggur fyrir en samningurinn um fjármögnun er ekki enn tilbúinn. Ekki er að fullu vitað hvenær framkvæmd við jarðgangagerðina muni hefjast.
    Nauðsynleg vegagerð til tengingar göngunum sunnan og norðan fjarðar er á verksviði Vegagerðar ríkisins. þetta eru dýrar framkvæmdir, kostnaður metinn á 700--800 millj. kr. og eru stórverkefni samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu um jarðgöng. Vegna áðurnefndrar óvissu um framkvæmdatíma ganganna er ekki tekin afstaða til fjármögnunar vegtenginga í þeim tillögum sem hér eru gerðar um skiptingu fjár samkvæmt þessari vegáætlun. Taka þarf til sérstakrar afgreiðslu þegar framkvæmdaáform Spalar hf. liggja ljós fyrir og ákvörðun er tekin um að hefja verkið, að afla þá sérstaks fjár til þessara framkvæmda.
    Við afgreiðslu vegáætlunar fyrir árin 1993--1996 var kostnaður vegna rekstrar flóabáta tekinn inn í vegáætlun í fyrsta sinn. Jafnframt voru þá skilgreindar þær ferjuleiðir sem starfrækja skyldi og hvert væri meginmarkmið með ferjurekstrinum. Þar var miðað við að ferjuleiðir yrðu hinar sömu og notið höfðu styrks undanfarin ár og reksturinn með sama sniði og verið hafði. Ferjurekstur á Ísafjarðardjúpi var þá einnig óbreyttur samkvæmt vegáætluninni, þ.e. þjónusta við þau byggðarlög sem ekki höfðu aðrar samgöngur.
    Í fjárlögum 1994 var veitt fé til smíði ferjubryggja við Ísafjarðardjúp, 19 millj. kr. Þegar sú fjárveiting lá fyrir samþykkti samgn. fyrir sitt leyti á sl. vetri að hafinn yrði undirbúningur að framkvæmdum og stefnt að rekstri bílferju á Djúpinu. Samþykkt nefndarinnar var ekki lögð fyrir Alþingi, enda ekki sérstök þörf þar eð augljóst var að rekstur bílferju mundi ekki hefjast fyrr en að lokinni þeirri endurskoðun vegáætlunar sem hér er komin á lokastig og því tækifæri til að breyta skilgreiningu á ferjurekstri á Ísafjarðardjúpi áður en afgreiðslu þessarar áætlunar lyki.
    Í fjárlögum 1995 var aftur veitt fé til ferjubryggja við Ísafjarðardjúp. Heildarkostnaður við gerð ferjubryggja og nauðsynlegrar aðstöðu við þær var áætlaður 75--80 millj. kr. Þegar samþykkt samgn. var gerð lágu ekki fyrir neinar fjárveitingar til vegaframkvæmda við Ísafjarðardjúp eða í Ísafjarðardjúpi. Með auknu fjármagni til vegaframkvæmda samkvæmt ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar á sl. hausti opnuðust á hinn bóginn möguleikar til þess að veita fé til Djúpvegar með endurskoðun þessarar áætlunar. Það er skoðun meiri hluta samgn. að gott vegasamband sé, þegar til lengri tíma er litið a.m.k., farsælli lausn á samgöngumálum Vestfirðinga við Djúp en rekstur á bílferju. Hvarvetna í nálægum löndum er verið að færa samgöngur af sjó yfir á vegi á landi ef slíks er kostur og stendur í rauninni til boða. Hefur sú þróun staðið lengi og ekki annað sjáanlegt en hún muni halda áfram. Í ljósi þessa leggur meiri hluti samgn. nú til að bætt verði nýrri skilgreiningu við stórverkefni sem áður er vikið að, þ.e. þeirri er vegurinn um Djúp fellur undir. Samkvæmt tillögum nefndarinnar er veitt 250 millj. kr. af liðnum stórverkefni á árunum 1995--1998 til vegarins og til viðbótar kemur og framlag Vestfjarðakjördæmis sem er um 80 millj. kr.
    Með ákvörðunum um að fella Djúpveg undir stórverkefni og þeim fjárveitingum sem hér er gert ráð fyrir til þess verkefnis telur meiri hluti samgn. að rök fyrir rekstri á bílferju á Ísafjarðardjúpi af hálfu hins opinbera séu á brott fallin. Í samræmi við þetta er skilgreining ferjurekstrar á Ísafjarðardjúpi ekki breytt frá því sem var í síðustu vegáætlun, þ.e. að einungis verði gert ráð fyrir að fluttir verði farþegar og fragt til þeirra byggðarlaga sem ekki hafa aðrar samgöngur.
    Þess má geta í þessu sambandi, þó ekki snerti þá áætlun sem hér er verið að fjalla um, að að mati Vegagerðarinnar er talið að Fagranesið sem nú annast ferjusiglingar á Djúpinu henti ekki jafn vel til smærri flutninga eins og minna skip. Minna skip mundi henta betur og yrði ódýrara í rekstri og er áætlað af hálfu Vegagerðarinnar að spara megi 10--12 millj. kr. á ári ef ódýrara skip eða minna skip væri notað til þeirra flutninga.
    Eins og kunnugt er standa yfir samningar af hálfu Slysavarnafélags Íslands fyrir hönd Slysavarnaskóla Íslands og Djúpbátsins hf., sem er eigandi Fagranessins, um hugsanlega leigu á Fagranesinu til Slysavarnaskólans. Hér verður ekkert um það mál sagt, enda ekki á verksviði samgn. né Alþingis að annast slíka samninga við einkaaðila, en verði af þeim samningum þá er gert ráð fyrir því að skipið verði staðsett að meginhluta á Ísafirði. Þar verði heimahöfn þess, þar verði það meginhluta vetrar og til taks hverju sinni sem þarf að mæta erfiðleikum í samgöngum eða neyðartilvikum eins og títt hefur verið að þurft hefur að gera nú á þessum harða vetri og jafnframt að skipið verði til taks í Djúpi til siglinga að sumarlagi um 5--8 vikur til þess að mæta þeim þörfum sem þar eru á mesta ferðamannatíma ársins.
    Frá þessu er einungis sagt hér, ekki þannig að það snerti afgreiðslu nefndarinnar eða að það sé á verksviði nefndarinnar, heldur hefur þetta verið í umræðu á síðustu vikum og meiri hluti nefndarinnar gerir sér vonir um það að þau mál öll leysist farsællega.
    Ég tel ástæðu til þess að vekja á því athygli að þær tillögur sem hér liggja fyrir og skýrðar eru í nál. meiri hluta samgn. og koma fram í brtt. meiri hlutans fela í sér mikið átak í samgöngumálum landsmanna. Í fskj. sem birt er með nál. meiri hlutans kemur fram að á þessu áætlunartímabili er verið að verja til samgöngumála, þ.e. til ráðstöfunar til vegaframkvæmda, brúargerða, til viðhalds og annarra rekstrarliða Vegagerðarinnar um 27,5 milljörðum kr. Þar kemur til viðbótar um 1.800 millj. kr. sem ætlað er til að styrkja ferjurekstur landsmanna.
    Þetta eru stórar fjárhæðir. Þetta er meira fé en varið hefur verið á nokkru áætlunartímabili á síðari árum. Ég verð að segja það sem mína skoðun að þetta er afar mikilvægt til þess að geta komið áfram þeim miklu stórframkvæmdum sem verið er að vinna og til þess að geta ráðist að verkefnum sem eru brýn og ekki hefur verið sinnt sem skyldi á undanförnum árum. Meðal þeirra sem þar má nefna eru stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu sem orðnar voru ákaflega brýnar en eins og öllum hv. alþingismönnum er kunnugt þá hefur umferðarþungi á höfuðborgarsvæðinu vaxið miklu örar en gert hafði verið ráð fyrir samkvæmt áætlunum. Umferðarhraði hefur vaxið. Slysahætta hefur einnig farið vaxandi og því miður eru slys

allt of tíð.
    Ég lýsi því yfir sem skoðun meiri hlutans að það hafi verið óhjákvæmilegt að ráðast í verulegar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu til þess að mæta þessum vanda því ef sá vandi væri látinn halda áfram að hlaðast upp þá væru það miklir erfiðleikar að ráða bót á honum á næsta áætlunartímabili og þeir erfiðleikar í umferð á þessu svæði ófyrirsjáanlegir sem mundu verða á þessu tímabili ef ekki væri svo myndarlega hætti brugðist við þessu máli eins og hér er gert.
    Ég tek eftir því að þessu er í rauninni ekki mótmælt í nál. hv. minni hluta. Með nál. meiri hlutans eru birt fleiri fskj. Þar eru birt fskj. sem sýna skiptingu fjármagns milli kjördæma. Í fyrsta lagi samkvæmt hinni almennu skiptireglu Vegagerðarinnar, sem einnig er birt með fskj., á hvern hátt er byggð upp, og í annan stað þeirri skiptireglu sem stuðst er við samkvæmt átaksverkefninu og sækir að meginhluta grunn sinn í höfðatölureglu.
    Ég tel að þessi gögn eigi að auðvelda hv. alþingismönnum og almenningi skilning á því hvernig þessu fé er skipt og hvaða undirstöðugögn er stuðst við til þess að ná þeim niðurstöðum sem hér eru gerðar tillögur um.
    Ég tel ekki ástæðu til að rekja í þessum ræðustól hvaða helstu aðrar stóru framkvæmdir er gert ráð fyrir að vinna á þessu áætlunartímabili samkvæmt tillögum meiri hluta nefndarinnar en ég vek athygli á því að þar er víðast hvar um gríðarlega þýðingarmikil verkefni að ræða og sannast sagna verður seint í okkar stóra, strjálbyggða og að ýmsu leyti torfæra landi unnt að fullnægja þeim þörfum sem menn sjá hvarvetna blasa við augum til samgöngubóta því verkefnin eru þar svo gríðarlega mikil. Ég vil þó láta það koma fram að ég tel að við Íslendingar höfum unnið stórvirki á þessum sviðum á undanförnum árum og sú áætlun sem hér liggur fyrir og þær tillögur sem hún hefur inni að halda bæta um betur í þessum verkefnum vegna þess að hér er verið að verja meira fé en tíðkast hefur á síðari árum til þess að mæta þessum vanda, mæta þessum þörfum og ráðast að þessum þýðingarmiklu verkefnum.
    Ég tel það heldur miður, ég segi það hreint út, að ekki skyldi takast að hv. samgn. stæði sameiginlega að þeim brtt. sem hér liggja fyrir og stæði sameiginlega að einu nál. Það er óvenjulegt. Venjan hefur verið sú að samgn., áður fjárveitinganefnd eða fjárln., hefur staðið sameiginlega að því að gera tillögur til Alþingis um ráðstöfun á því fé sem hverju sinni er varið til vegaframkvæmda í landinu. Að þessu sinni tókst það ekki og ég leyfi mér að segja því miður. Það er e.t.v. því undarlegra sem hér er verið að fjalla um tillögur sem fela í sér meira fjármagn til vegaframkvæmda heldur en löngum hefur tíðkast.
    Ég hef nokkuð undrast það að hv. minni hluti samgn. hafi tekið sér ærinn tíma til þess að semja sitt nál. því ég hafði eigi barið það augum fyrr en um leið og ég gekk upp í ræðustólinn og er ekki búinn að lesa það vandlega en er það þó ekki nema ein síða og tveimur línum betur.
    Hv. minni hluti hefur tekið sér eina þrjá daga til þess að semja þetta viðamikla nál. og eftir því sem ég best fæ séð er niðurstaðan engin. Hv. minni hluti leggur ekki til að vegáætlun sé samþykkt, hv. minni hluti leggur ekki til að tillögunni um vegáætlun sé vísað frá, hv. minni hluti gerir engar tillögur um það að vegáætlun sé felld og hv. minni hluti tekur ekki fram að hann ætli sér að sitja hjá. Það kemur ekkert fram í nál. um það hver afstaða minni hlutans er utan það að þeir flytja eina brtt. Að öðru leyti kemur ekkert fram um það hver vilji hv. minni hluta er.
    Ég tel að eftir að hafa haft svo langan meðgöngutíma að þessu nál. þá hefði mátt ætla að hv. minni hluti hefði komist að einhverri niðurstöðu í áliti sínu. Það er óvenjulegt, eins og ég sagði áður, að nefnd geti eigi staðið saman að áliti og tillögum um framkvæmdir í vegamálum en það er því óvenjulegra að hv. minni hluti skuli skila séráliti þegar niðurstaða hans er engin.
    Þrátt fyrir það að hv. minni hluti hefði kosið að flytja þá brtt. sem hér er á þskj. 896 þá hefði verið í lófa lagið að skila sameiginlegu nál. Það hefði verið í lófa lagið fyrir hv. minni hluta að skrifa undir nál. með fyrirvara og hefði hann haft fulla heimild til þess að flytja þá brtt. sem er á þskj. 896. Ég tel því að þetta vinnulag sé í hæsta máta óvenjulegt og óeðlilegt og ekki til eftirbreytni.
    Ég tel, hæstv. forseti, ekki ástæðu til að fjalla um þetta mikilvæga mál í lengra máli. Ég vil í lok máls míns, þrátt fyrir að leiðir hafi skilið í hv. samgn. um afstöðu til þessa máls, eða um afgreiðslu þess, ekki um afstöðu, því eins og ég sagði áður kemur afstaða hv. minni hluta ekki fram í nál. þessu. En þrátt fyrir að leiðir hafi skilið að þessu leyti þá vil ég hér, þar sem þessu hv. Alþingi er að ljúka, flytja samstarfsmönnum mínum í samgn. þakkir fyrir ágætt samstarf, mikið umburðarlyndi við mig sem formann oft á tíðum í starfi nefndarinnar og mikið og árangursríkt starf á því þingi sem nú er senn að ljúka. Ég vil jafnframt láta þess getið að ég vil flytja starfsmanni nefndarinnar þakkir sem hefur ræktað starfið af mikilli samviskusemi og af mikilli skarpskyggni við þau mál sem honum hafa verið falin til þess að taka til athugunar fyrir nefndina.
    Að þessum orðum mæltum leyfi ég mér, hæstv. forseti, að leggja til að þessi tillaga verði samþykkt með þeim breytingum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til.