Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 12:12:37 (5118)


[12:12]
     Eggert Haukdal (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kem aðeins inn í andsvör af því að ég er að hverfa hér á braut. Erindi mitt inn í þessa umræðu er fyrst og fremst að vekja athygli á því að Suðurland fer illa út úr skiptum. Það hefði átt rétt á því, t.d. um Þingvallaveg sem er vegur þjóðarinnar fyrst og fremst, að þar væri komið til móts við Suðurlandskjördæmi að því leyti sem ekki er gert. Það er í öðru lagi vikurvegur sem er bráðaatriði á Suðurlandi að tryggja. Gífurleg útflutningsframleiðsla fer um þessa vegi, það eru 70--80 millj. sem koma

inn í þungaskatti á ári hverju. Þessi mál hafa legið á ríkisstjórnarborði og það er ekkert komið til móts við okkur í þessum efnum og verður þess vegna að leggja eingöngu til þessara vega af vegafé. Ég vildi mega vekja athygli á þessum hlutum.
    Því ber hins vegar að fagna að vel hefur gengið á ýmsan hátt í vegamálum að undanförnu. Það ber að fagna fjármagnsútvegun forsrh. sem m.a. kom til góða fyrir Suðurland en hæstv. samgrh. skar vegáætlun niður með því að taka ferjur og flóabáta þarna inn og leggja það eingöngu á vegafé. Það áttu að koma tekjur þar á móti. Það var hinn eðlilegi vettvangur og þar er niðurskurður um 600 millj. Hvernig stæði hæstv. samgrh. ef hæstv. forsrh. hefði ekki dregið hann að landi í þessum efnum?
    Þetta vildi ég láta hér koma fram. Ég fagna að sjálfsögðu því sem vel er gert. Það horfir ýmislegt vel en það þurfti miklu meira fjármagn á þá vegáætlun sem hér er verið að ganga frá til fjögurra ára og misskiptingin milli kjördæma er langt í frá viðunandi.