Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 12:51:52 (5124)


[12:51]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég fæ auðvitað engu breytt um það að hv. 3. þm. Austurl. er ánægður og stoltur yfir því verki sem hann ber ábyrgð á með öðrum stjórnarliðum og alveg sérstaklega með hv. 5. þm. Austurl., Gunnlaugi Stefánssyni, í sambandi við mótun þessa máls. Það er dálítið sérkennilegt að hv. þm. skuli vera eins harðánægður og hér kom fram þegar það blasir við að í samanburði á skiptingu fjár milli kjördæma samkvæmt þeirri reglu sem hv. þm. stendur að með ríkisstjórninni að leiða yfir okkur þá skortir um 140 millj. kr. á að Austurland haldi sínum hlut eftir að búið er að færa upp að ákveðnu lágmarki miðað við verkefnið samkvæmt vegáætlun. Þetta blasir við hverjum manni. En ég veit að hv. þm. verður ekki skotaskuld úr því síðar í umræðunni að reyna að sveipa þetta mál þoku, enda hefur hann mikla þörf á því ætli hann sér ekki að reyna að leggja okkur lið sem erum að reyna að fá leiðréttingu á þessu ójöfnuði. En það ætti að vera verkefni hv. þm. ásamt öðrum talsmönnum kjördæmisins og leita liðsinnis við þá sem þurfa að koma til, þar á meðal sá sem hefur forustu fyrir þessu máli, hv. 2. þm. Norðurl. v., sem ég hef verið að beina áskorunum til að liðsinna okkur til þess að láta það nú verða sitt síðasta verk á þingi að draga úr því misrétti sem hér er verið að leiða yfir þrjú kjördæmi sérstaklega.