Kennaraverkfallið

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 13:34:42 (5129)


[13:34]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Á fundi samningsaðila 8. feb. lagði samninganefnd ríkisins fram tillögu um kjarasamning og fleira. Tillagan fól í sér að auk þess að semja um launabreytingar hliðstæðar þeim sem almennt verða á vinnumarkaði geri aðilar samkomulag um sérmál kennara, vinnutíma o.fl. Á fundi samningsaðila 11. feb. gerði samninganefndin nánari grein fyrir tillögum sínum, bæði hvað varðar áhrif á starfsemi skólanna og kjör kennara. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að unnt verði að fjölga dögum í virkt starf nemenda, kennslu, próf o.fl., um allt að 2--12 daga á ári, mismunandi eftir skólastigum og núverandi ástandi. Lenging þessi næðist með því að færa starfsdag í grunnskólanum að hluta til út fyrir kennslutímabilið og nýta að öðru leyti til þessara starfa frídaga nemenda svo sem 1. des., öskudag, þriðjudag eftir páska o.s.frv. Í framhaldsskólanum næðist fjölgun daga með því að afnema núverandi samningsákvæði sem takmarka skólastarf við 34 vikur á ári. Í samræmi við framangreindar breytingar lagði samninganefndin til að viðverudögum kennara fjölgaði um 8--10 daga þar af 5--8 daga utan árlega starfstímans.
    Meta mætti breytingar þessar til hækkunar á launafjárhæð grunn- og framhaldsskóla um 500 millj.

kr. en launakostnaður þess er nú 7 milljarðar kr. SNR, samninganefnd ríkisins, gerði einnig tillögu að breyttu starfsskipulagi og fleira samkvæmt framangreindu sem ég hef minnst á og að það verði bætt með breytingu á grunnlaunum og það gæti verið u.þ.b. 7% að jafnaði. Tillögur þessar voru ræddar við samninganefnd kennara. Mat þeirra var að til þess að komið yrði á breytingum þeim sem SNR miðaði við þyrftu kjarabreytingar kennara að vera langtum meiri en rúmast gæti innan 500 milljónanna.
    Það var í framhaldi af þessu sem breytt var tilboði ríkisins í framhaldi af fundi ráðherra með forustumönnum kennara. Síðan var reynt, laugardag og sunnudag, 19. og 20. febr., að breyta tilboði ríkisins og koma til móts við hugmyndir kennara og á sunnudaginn síðasta var lögð fram útfærsla á tillögunni og þar með var upphæðin orðin 740 millj. kr. sem hefði verið 10,6% hækkun launaútgjalda umfram það sem gerist á almennum vinnumarkaði en eins og allir vita hefur þegar verið samið þar þannig að það kemur ekki í veg fyrir að hægt sé að semja við kennara.
    Samninganefnd kennara hafnaði þessum tillögum einnig og mér sýnist nú, virðulegur forseti, að staða málsins sé þessi: Á borði kennarafélaganna liggja nú tillögur að nýjum kjarasamningi sem ganga út frá því að unnt verði að breyta starfsskipulagi skóla í samræmi við eindregnar óskir skólayfirvalda og foreldra. Breytingar þessar mundu fela í sér bætta nýtingu á skólaárinu og tíma nemenda og kennara til hagsbóta fyrir skólastarfið, nemendur og aðstandendur þeirra.
    Tillögur þessar fela í sér verulegar kjarabætur til kennara umfram það sem samið hefur verið um á vinnumarkaði en eru réttlætanlegar vegna þessara breytinga sem fela í sér aukið vinnuframlag kennara og þær auknu kröfur sem gerðar hafa verið til starfs þeirra á undanförnum árum. Sýnt hefur verið fram á að kjarabreytingar þessar eru meiri en rakið verði beint til aukins vinnutíma kennara.
    Tillögur þessar mundu fyrst og fremst hækka grunnlaun kennara. Að gerðum þessum breytingum verða launakjör fyllilega sambærileg við launakjör annarra hópa ríkisstarfsmanna í störfum þar sem gerðar eru svipaðar kröfur um menntun. Meðaldagvinnulaun háskólamenntaðra kennara innan BHMR yrðu svipuð eða hærri en meðaldagvinnulaun annarra í bandalaginu og meðaldagvinnulaun félaga í KÍ í eðlilegu samræmi við þau með tilliti til mismunandi krafna um menntun.
    Tillögur þær sem SFR hefur lagt fram fyrir hönd fjmrh. í nánu samráði við menntmrh. fela í sér verulega aukningu á útgjöldum til skólamála á næstu árum. Þær eru til marks um vilja stjórnvalda til þess að á næstu árum verði varið auknu fé til að bæta skólastarf hér á landi.
    Við þetta má svo bæta að nýlega var lagt fram á Alþingi í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði frumvörp um skattamál, verðtryggingamál og fleiri mál, eins og húsnæðismál, sem auðvitað koma kennurum til góða eins og öðrum í þjóðfélaginu. Því miður get ég, virðulegur forseti, ekki sagt hér og nú hvenær samið verður. En ég tel að samninganefnd ríkisins, menntmrh. og sá sem hér stendur höfum gert það sem í okkar valdi stendur til þess að leysa þessa deilu og það er sannarlega von mín að hún leysist sem fyrst enda bitnar þetta ótímabæra verkfall fyrst og fremst á skólabörnum, unglingum og aðstandendum þeirra.