Kennaraverkfallið

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 13:42:01 (5131)
[13:42]
     Kristín Einarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. 1. þm. Norðurl. v. fyrir að hefja þessa umræðu hér. Nú þegar hefur verkfall kennara haft veruleg áhrif í þjóðfélaginu og mun auðvitað hafa miklu meiri áhrif ef það stendur mikið lengur. Það er aðeins búið að standa í eina viku en veruleg áhrif hefur það þó haft. Það hefur ekki aðeins áhrif á skólastarf og nemendur heldur hefur það mjög víðtæk áhrif út um allt þjóðfélagið og ríkisstjórninni virðist vera alveg sama. Það var ekki hægt að heyra annað í máli hæstv. fjmrh. áðan en að honum væri nákvæmlega sama líka. Hann las upp tilboð sem við erum löngu búin að heyra og það virðist bara eiga að koma með það enn þá einu sinni. Síðan hjakka þeir hérna áfram með grunnskólafrv. sem er ekkert annað en að hella olíu á eld.
    Það er því alveg með ólíkindum hvernig ríkisstjórnin hefur hagað sér í þessu máli og alveg furðulegt ef hún ætlar sér að halda áfram með þessum hætti. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni á því í hvers konar hnút þetta verkfall er komið. Það hlýtur að vera þeirra skylda gagnvart fólkinu í landinu, gagnvart nemendum og foreldrum að gera eitthvað raunhæft í málinu þannig að þetta mál leysist hið fyrsta.