Kennaraverkfallið

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 13:43:42 (5132)


[13:43]
     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að ræða hér í stuttri utandagskrárumræðu þá alvarlegu launadeilu sem stendur yfir og það verkfall sem þjóðin stendur frammi fyrir þessa dagana.
    Það er svo að þetta verkfall snertir hvert einasta heimili í landinu með einum eða öðrum hætti. Það bætir okkur hins vegar ekki og lægir ekki þær deilur sem hér eru að snúa málinu upp í pólitískar deilur eins og hv. síðasti ræðumaður gerði.
    Hv. þm. Páll Pétursson hóf þessa umræðu og talaði af sanngirni að mínu mati. Hann bað deiluaðila að stíga skref í þá veru að samningar mættu nást. Á því er mikil þörf. Í morgun kom lítið barn og gekk að hæstv. félmrh. á götu fyrir utan þinghúsið og sagði: Ráðherra, þessa deilu verður að setja niður, það verður að leysa verkfallið. Ég vona að þessi litla stúlka gangi einnig til kennara og forustumanna þeirra og biðji um að þessi deila verði sett niður. Vegna þess að það þarf tvo til og við eigum öll, hvert fyrir sig, að leggjast á sveif til að þessi deila leysist. Við þurfum ekki endilega að blanda umræðum um grunnskólafrv. þar inn í. En það er hægt að ná sáttum í þessari deilu og það verða allir að leggjast á eitt með það.