Kennaraverkfallið

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 13:50:25 (5135)


[13:50]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Skólarnir í landinu, grunnskólinn, er einhver stærsta stofnun og sennilega fjölmennasta þegar nemendur eru meðtaldir í öllu landinu og það skiptir miklu fyrir framtíð þjóðarinnar og framtíð okkar barna að starfsemi þar geti farið fram með reglubundnum og góðum hætti. Hluti af því er að búa því fólki sem vinnur á þessum stað þannig kjör og umhverfi að það geti rækt störf sín þokkalega og finni að það njóti sæmilegrar sanngirni frá vinnuveitanda sínum. Ég held að það hafi verið um langa hríð svo að kennarastéttin í landinu, jafnt í grunnskólum sem í framhaldsskólum, hafi ekki notið þeirra réttinda í samskiptum við vinnuveitandann sem skyldi. Ég held að börnin okkar eigi það inni hjá stjórnvöldum í landinu að þau ráði bót á þessu. Það verkfall sem nú stendur yfir er auðvitað hneisa, að það skuli hafa verið látið skella á, að það skyldi ekki vera leyst áður en til þess kom. Verkfallsrétturinn og umbúnaðurinn um hann að því er varðar kennarastéttina er meingallaður og það bitnar á samtökum kennara.
    Það frv. sem hér hefur verið til umræðu daga og nætur um hríð á Alþingi Íslendinga er ekki þannig í stakk búið að það sé líklegt til þess að leiða til lausnar á þessu máli. Það er því hluti af lausn þessa máls að hæstv. menntmrh. og ríkisstjórnin öll sjái að sér í þessum efnum. Það er ekki réttmætt að setja kennara undir lög þar sem óljóst er í mörgum grundvallaratriðum hvernig að þeim verði búið í framhaldinu. Ríkisstjórnin ber ábyrgðina, við þingmenn hljótum að knýja á um það að þingið verði ekki sent heim með þetta mál í þeirri kyrrstöðu og við þær aðstæður sem nú ríkja í skólum landsins.