Kennaraverkfallið

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 13:55:38 (5137)


[13:55]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið hjá hv. öðrum þingmönnum sem hafa talað þá er þetta algjörlega óviðunandi ástand sem við búum nú við. Það er ekki heldur ásættanlegt að hæstv. ríkisstjórn hrósi sér af því að það sé vinnufriður í landinu meðan verkfall er með þeim afleiðingum sem verkfall kennara hefur fyrir bæði nemendur og fjölskyldur, fjölmargar barnafjölskyldur í landinu, meðan það ástand ríkir.

    Því miður er það svo og kannski oftast í vinnudeilum að þær bitna á þriðja aðila, nú á nemendum og heimilum, stundum á sjúklingum eða einhverjum enn öðrum. En ég tel að ríkisstjórnin verði að sýna meira frumkvæði í þessu máli og beita öðrum vinnubrögðum og ég harma yfirlýsingu hæstv. fjmrh. áðan, ef hún er altæk, um að hann ásamt hæstv. menntmrh. og samninganefnd ríkisins hefðu gert það sem í þeirra valdi stæði til þess að leysa þessa deilu. Þá er því miður ekki von á góðu ef svo er.
    Ég held að það verði að koma til meira frumkvæði. Ég tel með ólíkindum að eyða tíma Alþingis dögum saman í það að ræða þetta grunnskólafrv. sem hefur vissulega gert kjaradeiluna erfiðari. Hvað rök sem eru fyrir því í sjálfu sér þá er það staðreynd að grunnskólafrv. sætir andstöðu meðal samtaka kennara og þá herðir það auðvitað á deilunni. Réttindamálin eru í óvissu vegna þeirrar verkaskiptingar sem fram undan er milli ríkis og sveitarfélaga og þann pakka verður að opna. Það verður að ræða það mál tengt þessum kjarasamningum ef við eigum að ná lausn.
    Þjóðarsátt í kjaramálum hefur verið afar mikilvæg og hún hefur stuðlað að stöðugleika í þjóðfélaginu en þjóðarsátt á einum tíma getur ekki gilt til eilífðar og hún getur ekki heldur komið í veg fyrir það að tekið sé á leiðréttingum í kjaramálum og að réttindamál einstakra stétta séu tekin til endurskoðunar. Ríkisstjórnin verður því að sýna frumkvæði í þessu sambandi en kennarasamtökin verða auðvitað einnig að leggja sig fram um að ná lendingu í þessu erfiða og viðkvæma deilumáli sem svo brýnt er að leysa án tafar.