Áhafnir íslenskra kaupskipa

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 14:08:25 (5142)


[14:08]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég óskaði eftir fresti á afgreiðslu þessa máls í gærkvöldi til þess að ég gæti skoðað það ögn betur því af nógu var að taka í gær. Ég hef nú gert það og rætt við nokkra forustumenn íslenskra sjómanna sem telja að óhætt sé að hleypa þessu máli í gegn. Ég er hins vegar jafnóánægð með það og ég var fyrir ýmsar sakir. Ég tel að hér sé allt miðað við að mönnunarnefnd eigi að tryggja lágmarksmönnun, lágmarksöryggi og annað slíkt. Með því sem verið hefur að gerast með íslenska kaupskipaflotann, þ.e. það eru örfáir aðilar sem ráða honum eingöngu, ég treysti því fólki ekki til þess að tryggja öryggi og velferð íslenskra sjómanna en úr því að forustumenn sjómannasamtakanna hafa ekki miklar áhyggjur af þróun þeirra mála, þá ætti ég kannski ekki að hafa það þannig að ég hef tekið þá ákvörðun um að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls, hæstv. forseti.