Vernd Breiðafjarðar

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 14:24:27 (5149)


[14:24]
     Frsm. umhvn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti umhvn. á þskj. 856 og breytingartillögum þskj. 857 við frv. til laga um vernd Breiðafjarðar.
    Nefndin fékk þetta frv. til umfjöllunar í lok nóvember og hef fjallað um það síðan, aðallega núna síðustu daga þingsins þar sem nefndin var upptekin við ýmis önnur störf og átti ekki mikinn tíma til að sinna þessu fyrr en núna síðustu tvær vikur.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar við frv. og er gerð grein fyrir þeim á þskj. 856. Í því þskj. er einnig gerð grein fyrir þeim sem komu til fundar við nefndina og þeir sem fengu frv. til umsagnar og leggur nefndin til að frv. verði samþykkt með breytingartillögum.
    Breytingartillögurnar eru nokkrar. Sumar eru eingöngu orðalagsbreytingar til þess að gera ákvæðin skýrari, en við 2. gr. er efnisleg breytingartillaga þar sem við leggjum til að svæðið sem verndað er við Breiðafjörð verði stækkað örlítið. Við leggjum til greinin orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði laganna taki til allra eyja, hólma og skerja á Breiðafirði ásamt grunnsævi, fjörum og strandlónum í innfjörðum og innri hluta fjarðarins sem markast af línu dreginni frá Ytranesi á Barðaströnd við fjörðinn norðanverðan í Hagadrápssker um Oddbjarnarsker, Stagley og Höskuldsey í Vallabjarg að sunnanverðu.``
    Þetta er örlítil stækkun til vesturs bæði að norðanverðu og sunnanverðu við fjörðinn. Með þessu móti koma inn að norðanverðu tvö sjávarlón, Hagavaðall og Haukabergsvaðall og að sunnanverðu Tunguós við Mávahlíð og Hálsvaðall sem einnig munu þá teljast til svæðisins. Einnig mun Kaldrani teljast til svæðisins, sem þegar er á náttúruminjaskrá. Nefndin kannaði tillögu sem barst frá Náttúruverndarráði og eftir nokkra athugun og umræður við staðkunnuga menn féllst nefndin á að leggja til að þetta svæði yrði stækkað með þessum hætti.
    Í 4. gr. er lögð til breyting að því er varðar fjölda manna í Breiðafjarðarnefnd. Gert er ráð fyrir í greininni að sex menn séu í nefndinni sem er ráðherra til ráðgjafar um málefni er lúta að framkvæmd laganna en við leggjum til að það verði fjölgað í nefndinni um einn og að fulltrúi Vestur-Barðastrandarsýslu bætist þar við en það hafði ekki verið gert ráð fyrir því samkvæmt frv. Okkur þykir eðlilegt að fulltrúi Vestur-Barðastrandarsýslu eigi einnig aðild að nefndinni, ekki síst eftir að búið er að stækka svæðið enn þá lengra inn í þá sýslu.
    Einnig leggjum við til að Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur á Vestfjörðum og Vesturlandi, sem munu væntanlega koma þó síðar verði, tilnefni sameiginlega einn aðila í stjórn í staðinn fyrir að reiknað var með að Náttúrufræðistofnun Íslands tilnefndi einn í stjórn. Sameiginlega munu þannig þessir þrír aðilar tilnefna saman einn aðila, en eins og þingmenn vita er eingöngu búið að stofna náttúrustofur á Vestfjörðum en ekki á Vesturlandi þannig að til að byrja með verða það Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofa á Vestfjörðum sem tilnefna sameiginlega einn mann í þessa stjórn.
    Síðan leggjum við til að brott falli úr 4. gr. reglugerðarheimild og það verði ein reglugerðarheimild í lögunum í 5. gr. Þetta er ekki efnislegt heldur eingöngu orðalag og til að gera ákvæðin gleggri.
    Við leggjum einnig til að í stað orðsins ,,vörsluáætlun`` í frv. komi: verndaráætlun, sem einnig er orðalagsbreyting en skýrara og betra orð að því er við teljum.
    Aðrar breytingar sem við gerum tillögu um að því er 5. og 6. gr. varða eru orðalagsbreytingar, en efnisbreyting er síðan í 7. gr.
    Eins og fram kemur í frv. er gert ráð fyrir að heimilt verði að starfrækja náttúrurannsóknastöð með ríkisaðild á Breiðafirði. Þarna var gert ráð fyrir sérstakri heimild sem ekki féll að því skipulagi sem nú þegar er til staðar í landinu að því er varðar náttúrurannsóknir samkvæmt lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992. Við teljum miklu eðlilegra að þetta falli inn í það kerfi sem fyrir er og leggjum þess vegna til að 7. gr. orðist eins og segir í 7. lið á þskj. 857, með leyfi forseta:
    ,,Með rannsóknum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofu Vestfjarða og náttúrustofu á Vesturlandi, sbr. lög nr. 60/1992, skal markvisst unnið að því að auka þekkingu á náttúru Breiðafjarðarsvæðisins til að tryggja sem best verndun þess. Breiðafjarðarnefnd skal í samráði við þessa aðila láta gera áætlun um æskilegar rannsóknir á svæðinu og endurskoða hana reglulega.
    Ráðherra getur með reglugerð heimilað framangreindum stofnunum að standa sameiginlega að starfrækslu náttúrurannsóknastöðvar á svæðinu á grundvelli laga nr. 60/1992. Rannsóknastöðin getur leitað eftir fjárstuðningi innlendra og erlendra aðila við starfsemi sína og einstök verkefni.``
    Ég get skýrt frá því hér að hæstv. umhvrh. hefur upplýst nefndina um að það sé mikill áhugi fyrir rannsóknum á þessu svæði og hafa m.a. komið um það fyrirspurnir frá erlendum rannsóknastöðum að fá aðstöðu til þess að rannsaka þetta svæði þannig að það má jafnvel búast við því að þarna geti farið fram miklar rannsóknir í framtíðinni ef vel tekst til.
    Við umfjöllun nefndarinnar vöknuðu ýmsar spurningar um stjórnsýsluskil milli umhvrn. og annarra ráðuneyta, svo sem sjútvrn., landbrn. og samgrn. Nefndin tekur fram að með frv. er ekki verið að leggja til breytingar á lögboðinni umsýslu einstakra ráðuneyta.
    Nefndin telur að framkvæmd á grundvelli frv. velti á því að vel takist til um gerð verndaráætlunar sem gert er ráð fyrir og er grunnurinn að þessum lögum, eins og kveðið er á um í 4. gr. frv. Umhvn. leggur áherslu á að sem fyrst verði hafin vinna við gerð slíkrar áætlunar þannig að taka megi tillit til hennar við skipulagsvinnu í framtíðinni. Í því sambandi vill nefndin benda á að æskilegt er að hafist verði handa við gerð svæðaskipulags fyrir Breiðafjörð og aðliggjandi byggðir.
    Undir nefndarálit umhvn. skrifa allir níu nefndarmenn umhvn. Ég legg til að þetta frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem umhvn. leggur til á þskj. 857.