Vernd Breiðafjarðar

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 14:40:16 (5152)


[14:40]
     Frsm. umhvn. (Kristín Einarsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka þeim tveimur hv. þm. sem hér hafa þakkað mér sérstaklega fyrir en þeir verða að gera sér grein fyrir því að það er auðvitað ekki formaðurinn sem ræður öllu um það hvernig nefndarstarf gengur heldur ekki síður aðrir nefndarmenn. Nefndarmenn í umhvn. hafa lagt fram mjög mikla vinnu og ég vil nota tækifærið við afgreiðslu á þessu frv. til að þakka þeim fyrir starfið á öllu kjörtímabilinu. Við vorum að vinna fram á kvöld í gærkvöldi þannig að menn hlupu fram og til baka og hafði ég ekki tækifæri til þess að þakka nefndarmönnum starfið á síðasta fundi nefndarinnar og vil ég þá nota tækifærið og gera það nú. Sérstaklega vil ég þakka nefndarmönnum í umhvn. fyrir starfið síðustu tvö ár sem ég hef verið formaður nefndarinnar. Við höfum verið að afgreiða stór og mikil mál og það hefur oft og tíðum kostað mjög mikla vinnu og ekki síst vegna þess að þau hafa verið mjög illa undirbúin af hálfu umhvrn. og við höfum fengið þau þannig úr garði að við höfum þurft að gera á þeim miklar breytingar og laga þau mikið. Nefndarmenn hafa því oft þurft að mæta á fjölda funda og leggja á sig mikla vinnu. Ég tek fram þó að sjálfsagt bitni mikið á formanni eru það allir nefndarmenn sem taka þátt í slíkri vinnu og vil ég þakka nefndarmönnum fyrir samstarfið. Ég vil þó sérstaklega nota tækifærið og þakka nefndarritara okkar, Ragnhildi Arnljótsdóttur, sem hefur verið mér mjög mikil hjálp og okkur öllum. Það hefur oft mætt mjög mikið á henni einmitt vegna þess að hún hefur orðið að fara í gegnum frv. og laga það sem miður hefur farið og reyna að koma þessu öllu saman í sæmilegt horf. Menn hafa séð á því hve margar brtt. umhvn. hefur oft þurft að gera við frumvörp hversu mikil vinna hefur legið að baki. Því miður er það svo að ráðuneytið virðist ekki kunna að meta það hversu mikið þessi nefnd hefur þurft að leggja á sig í vinnu og hefur oft og tíðum frekar kastað hnútum í nefndina og þykir mér það mjög ómaklegt miðað við hvað nefndin hefur lagt á sig mikla vinnu.
    Þetta vildi ég segja, virðulegur forseti, þó að ég eigi eftir að koma aftur í ræðustólinn og mæla fyrir fleiri málum frá umhvn. þá finnst mér rétt að nota tækifærið við afgreiðslu á þessu frv. að þakka nefndarmönnum fyrir samstarfið og fyrir kjörtímabilið. Að öðru leyti lýsi ég því enn og aftur yfir að ég vona að þingið samþykki frv. eins og það liggur nú fyrir og að það verði til góðs í framtíðinni. Ég hef trú á því að þetta muni leiða til þess að lífríki Breiðafjarðar verði sýnd mikil virðing. Ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Vesturl. að ekki er verið að tala um að fólk eigi að flytja út af svæðinu og það eigi ekki lengur að nýta það á hefðbundinn hátt en það verður auðvitað að fara varlega í þeim efnum eins og öðrum.