Staðfesting ákvörðunar EES-nefndarinnar

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 14:53:57 (5161)


[14:53]
     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Álit nefndarinnar liggur fyrir á þskj. 800 og leggur hún samhljóða til að tillagan verði samþykkt.
    Þetta mun vera síðasta tillagan sem utanrmn. fjallar um og kemur fyrir þingið. Ég nota tækifærið og þakka samnefndarmönnum mínum í utanrmn. fyrir samstarfið á kjörtímabilinu sem er að líða. Um miðbik þess áttum við marga og tíða fundi um mikilvægt málefni, aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Eftir miklar deilur innan nefndarinnar tókst okkur að lokum að ná góðu samkomulagi sem endurspeglast m.a. í þessari tillögu sem við stöndum að, að vísu ekki sameinuð því það er meiri hluti nefndarinnar sem stendur að þessu, en engin deila er um það í nefndinni að þetta mál nái fram að ganga og samstarf innan nefndarinnar hefur verið mjög gott og ánægjulegt og gagnlegt.
    Ég vil láta þess getið, hæstv. forseti, að nefndin hefur látið vinna á sínum vegum hugmyndir um framtíðarskipulag á starfi utanrmn. Greinargerðir liggja fyrir frá ritara nefndarinnar um þau mál, bæði innri störf nefndarinnar, samskipti nefndarinnar við hv. utanrrn. og einnig almennt um alþjóðastarf á vegum Alþingis. Þessar greinargerðir hafa verið lagðar fram í nefndinni og ræddar þar lauslega og einnig greinargerð um meðferð trúnaðarmála í hv. utanrmn. og ég vona að sú vinna, sem unnin hefur verið á vegum nefndarinnar, verði til þess að á nýju kjörtímabili skapist nýjar reglur um starf nefndarinnar. Það er nauðsynlegt því að þetta er fyrsta kjörtímabilið þar sem hv. utanrmn. hefur starfað sem venjuleg þingnefnd, ef svo má að orði komast, og það er brýnt að koma á ákveðnum reglum, t.d. um samskipti hennar við utanrrn., viðveru utanrrh. á fundum nefndarinnar, meðferð skjala og gagnasöfnun og sjálfstæði nefndarinnar við starfsemi og stefnumótun á sviði utanríkismála.
    Ég ítreka þakkir mínar til samnefndarmanna fyrir samstarfið og einnig sérstaklega til ritara nefndarinnar, en sú breyting varð á þessu kjörtímabili að Alþingi sjálft tók að sér að annast ritarastörf fyrir utanrmn. eins og aðrar þingnefndir og ráðuneytisstjóri utanrrn. hætti að starfa sem ritari nefndarinnar. Þetta hefur í senn verið samstarf um mikilvæg málefni á vettvangi Alþingis en einnig verið að nokkru leyti brautryðjendastarf í störfum utanrmn. við nýjar aðstæður og ég tel að við nefndarmenn skilum af okkur gögnum um það hvernig við teljum að þessu starfi verði vel haldið áfram og þróist áfram í þá átt að Alþingi verði í aðstöðu til að verða sem virkastur þátttakandi, bæði í mótun utanríkisstefnunnar og einnig að því er varðar alþjóðasamstarf þingmanna sem er sívaxandi eins og við vitum.