Vísitala neysluverðs

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 15:50:01 (5171)

[15:50]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um vísitölu neysluverðs. Eins og fram kom við 1. umr. um þetta mál er verið að skipta út gömlu framfærsluvísitölunni og taka upp vísitölu neysluverðs. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að vísitalan breytir um nafn. Í stað þess að heita vísitala framfærslukostnaðar heitir hún eftirleiðis vísitala neysluverðs. Að öðru leyti er í frv. verið að auka hina formlegu ábyrgð Hagstofunnar á gerð vísitölunnar og kauplagsnefnd hefur einungis ráðgefandi hlutverk. Í rauninni er nafnið tekið af henni í frv. en eins og kunnugt er bar kauplagsnefnd áður ábyrgð á útreikningi vísitölunnar.
    Síðan er í frv. ákvæði um að Hagstofan skuli eigi sjaldnar en á fimm ára fresti að láta gera neyslukönnun sem verður þá til grundvallar vísitölunni en Hagstofan hefur á undanförnum árum gert slíka könnun á fimm ára fresti og þar með hefur verið settur nýr grunnur að framfærsluvísitölunni á fimm ára fresti.
    Efnislega eru því í sjálfu sér ekki miklar breytingar á ferðinni. Vísitalan mun mæla verðbreytingar með sambærilegum hætti og vísitala framfærslukostnaðar hefur gert hingað til. Nefndin leggur því til að frv. verði samþykkt óbreytt og allir nefndarmenn undirrita þetta án fyrirvara.