Vísitala neysluverðs

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 15:52:27 (5172)


[15:52]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég skrifa undir nál. efh.- og viðskn. á þskj. 893 með fyrirvara um afstöðu mína til málsins og þeirra frv. sem hér hafa verið til umræðu og tengjast nýlega gerðum kjarasamningum og vísa ég til þess sem áður hefur verið sagt.
    Fyrirvari minn lýtur að síðari mgr. 1. gr. og um þá málsgrein flyt ég brtt. á þskj. 903. Þar er fjallað um nefnd þá sem skuli vera Hagstofunni til ráðgjafar um gerð vísitölunnar, sambærileg þeirri nefnd sem borið hefur ábyrgð á útreikningi framfærsluvísitölunnar fram að þessu en hér er á ferðinni nýtt nafn á sama mælikvarðanum.
    Það kom fram á fundum efh.- og viðskn. að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur óskað eftir aðild að þessari nefnd og færir fyrir því þau rök að óeðlilegt sé að heildarsamtök opinberra starfsmanna skuli ekki eiga fullmynduga aðild að þessu starfi sem þarna fer fram. Frv. breytir að vísu nokkuð hlutverki þessarar nefndar og má segja að vissulega sé dregið úr vægi hennar því að hún var áður í reynd ábyrg fyrir útreikningi framfærsluvísitölunnar en skv. 1. gr. frv. sem hér er til umræðu þá er hlutverk nefndarinnar meira ráðgefandi og að fylgjast með þessum útreikningum. Engu að síður sýnast öll rök standa til þess að nefndin sé skipuð fulltrúum helstu samtaka launamanna og aðila vinnumarkaðarins og þess vegna legg ég til með brtt. á þskj. 903 að nefndin verði fimm manna í stað þriggja og skipuð eins og áður einum fulltrúa tilnefndum af Hæstarétti, einum af Alþýðusambandi Íslands, einum af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einum af Vinnuveitendasambandi Íslands og einum af Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Breytingin er sú að til viðbótar fulltrúum Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins koma fulltrúar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. Nefndin verður fimm manna í stað þriggja.
    Ég tel þetta sjálfsagt mál og ég vonast til að um það geti orðið samstaða að taka þessa brtt. til greina.