Stjórnarskipunarlög

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 16:07:46 (5178)


[16:07]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki fallist á þá skoðun síðasta ræðumanns að þetta samræmist ekki að samþykkja slíka tillögu um stjórnlagaþing þó að hér sé verið að fjalla um ákvæði í stjórnarskránni sem lúta að kosningalögum og mannréttindaákvæðum. Þetta stjórnlagaþing hefur miklu víðtækari verkefni eins og ég skilgreindi og ég held að það sé alveg ljóst að það hefur verið stigið mjög stutt skref að því er varðar breytingar á kosningareglunum nú. Ég held því að stjórnlagaþing sé miklu betur til þess fallið að fjalla um þessi mál, ekki síst breytingar á kosningareglunum og ég tel að það gangi alveg saman og sé alls ekki ankannalegt, eins og hv. þm. sagði hér áðan, að setja á laggirnar slíkt stjórnlagaþing jafnvel þó að við séum að fjalla um önnur ákvæði í stjórnskránni á þessu þingi.