Stjórnarskipunarlög

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 16:08:51 (5179)


[16:08]
     Frsm. stjórnarskrárnefndar (Geir H. Haarde) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að hefði leið hv. þm. verið valin hefðum við ekki verið að afgreiða í dag breytinguna um VII. kafla stjórnarskrárinnar. Við hefðum heldur ekki verið að afgreiða það frv. sem hún er nú að gera brtt. við, þ.e. frv. um að leggja niður embætti yfirskoðunarmanna og um að lengja kjörtímabilið um einn mánuð fram til 1999. Við erum að gera þessar breytingar núna á grundvelli gildandi laga. Hefði hennar leið verið valin hefði þessi árangur ekkert náðst. Það er mjög mikilvægt og þá er að sjálfsögðu alger óvissa um það hvað þetta stjórnlagaþing hefði hugsanlega getað gert í því efni og náttúrlega alveg óvíst hvað slík stofnun mundi kosta þjóðina í öðru lagi eða hver árangur af starfi slíks þings yrði yfir höfuð.