Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 17:59:10 (5192)


[17:59]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hafði lofað því að flytja ekki frekari ræður um þessa vegáætlun því að mér skilst að það standi til að ljúka þingi og það á við um þingmenn míns flokks. En hæstv. samgrh. vill greinilega halda áfram umræðu um þessi mál. Auðvitað verður hann að fá að skýra sín sjónarmið, en hann þarf líka einstaka sinnum að hlusta á rök annarra, sem honum er ekki mjög lagið.
    Ég vil segja það við hæstv. samgrh. að það sem í vegáætlun stendur skiptir máli. Yfirlýsingar núna um eitthvað sem á að gerast við endurskoðun næstu vegáætlunar er góðra gjalda vert. En hæstv. samgrh. verður að átta sig á því að það er það sem í vegáætlun stendur sem skiptir máli. Það er ekki heimilt að flytja til fjármagn nema það sé gert innan ramma laga og með samþykki þingmanna. Þess vegna finnst mér það vera dálítið skrýtið af hæstv. samgrh. að vera að lýsa yfir ákveðnum vilja að því er varðar endurskoðun næstu vegáætlunar. Það má vel vera að hann trúi því að hann verði samgrh. þá. Ég skal ekkert neita því að það geti ekki komið fyrir. En hann hefur verið með ýmsar aðrar yfirlýsingar hér á Alþingi, t.d. þá yfirlýsingu að það komi náttúrulega ekki annað til greina en að ljúka hringveginum fyrir aldamót. Ég vona að hæstv. samgrh. geti staðið við það, en núgildandi vegáætlun gerir ekki ráð fyrir því að svo verði. Ég er hins vegar sammála hæstv. ráðherra um það að mörk þessa stórverkefnis verði færð vegna þess að það er eðlilegt og alla tíð verið óeðlilegt að það nái eingöngu að heiðarbrúninni. Þannig að ég vil lýsa yfir ánægju minni með hans afstöðu, en það er ekki hún sem ræður heldur samþykkt Alþingis.