Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 18:22:47 (5203)


[18:22]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hv. 3. þm. Austurl. veitti mér andsvar en talaði um efni ræðu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar og ég ætla þess vegna ekki að fjalla um það í þeim tíma sem ég hef til andsvars heldur gera það sem ég gleymdi áðan, að nefna eitt til viðbótar sem er full ástæða til að menn taki eftir. Það er að í þeim plöggum sem liggja fyrir um vegáætlun er talað um að enn þá sé í gangi fyrra átakið í samgöngumálum og þar eru nefndar 450 millj. sem í það fari á þessu ári. En það er óvart þannig gert að það er tekið af almennu vegafé en það var samið um þetta átak við verkalýðshreyfinguna á sínum tíma. Þessi tala er greinilega sett í vegáætlun til að slá ryki í augu þeirra manna sem skrifuðu undir þá samninga því að þessir peningar eru ekki til. Þeir eru teknir af almennu vegafé. Þannig hafa menn verið að leika sér í gerð þessarar áætlunar sem við höfum í höndunum og allt er með líkum formerkjum og þetta.
    Ég verð að segja það alveg eins og er og ég ætla að hafa það mín lokaorð hér að það verður eitt af aðalverkefnum næsta hæstv. samgrh. sem tekur við af þessum að fara yfir öll þessi mál og reyna að koma þeim í eitthvert vitrænt horf þar sem tekið verði eðlilega á málum og hentistefna verði ekki látin ráða í öllu eins og hefur verið gert á undanförnu kjörtímabili.