Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 18:34:06 (5209)


[18:34]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er óþarfi að bæta miklu við það sem fram hefur komið í umræðum af gagnrýni á hæstv. ríkisstjórn fyrir frammistöðu hennar í samgöngumálum. Það er satt best að segja þannig með þau mál farið að það er greinilega stefnt að því að sprengja í loft upp alla möguleika á því í framtíðinni að menn vinni að þeim sem ein heild eins og verið hefur fram til þessa.

    Þar vil ég fyrst og fremst vitna til þess vinnulags sem verið hefur á þessu kjörtímabili og ágerst eftir því sem á það hefur liðið, að taka ákvörðun um skiptingu vegafjár í kjördæmum í æ ríkari mæli úr höndum þingmanna kjördæmisins og færa yfir til þingmanna stjórnarliðsins og jafnvel inn á ráðherraborðið. Ef þessi þróun á að halda svipað áfram þá er stutt í að menn eyðileggi með öllu það vinnulag sem verið hefur á undanförnum árum og áratugum hvað þetta varðar og spilli algerlega þeirri samstöðu sem á endanum hefur ætíð náðst um þessi mál eftir því sem ég best veit. Ég hvet því ríkisstjórnarflokkana og reyndar aðra til þess að láta af þessum tilburðum og halda sig við þau vinnubrögð og þær reglur sem gilt hafa í þessu efni í meginatriðum.
    Annað sem hefur líka kveikt þá elda sem hér hafa logað dálítið glatt í dag í umræðum er sú ákvörðun ráðherra með stuðningi stjórnarliðsins að breyta skiptingu vegafjár, hverfa frá þeirri regu sem gilt hefur til annarrar heimasmíðaðrar aðferðar sem á að þjóna þrengri hagsmunum en æskilegt er í þessu tilviki.
    Ég vil taka undir gagnrýni á þessi atriði og mér finnst að hæstv. núv. samgrh. hafi með verkum sínum og framgöngu hvað þessi atriði varðar gert heldur slæm verk og hefði betur látið ógert að feta þessa slóð. En ég vil segja að ég hef skilning á stöðu hans við þau skilyrði sem hann hefur þurft að búa á undanförnum árum og sérstaklega æ minni skilnings af hálfu forustumanna síns flokks. Hann hefur verið að mörgu leyti í afar þröngri stöðu.
    Þriðja atriðið sem mér finnst hafa einkennt framgöngu núv. ríkisstjórnar og vonandi fráfarandi í þessum málaflokki er sú árátta að eyða fé áður en þess er aflað. Menn þekkja söguna bak við framkvæmdaátakið til þriggja ára sem fjármagnað var að verulegu leyti með lántöku. Enn er gripið til þess ráðs að ráðstafa peningum fyrir væntanlegt lánsfé. Þetta er heldur varhugaverð þróun því að með þessu eru menn ekki bara að eyða því fé sem þeir hafa til vegamála á þeim tíma sem menn eru að skipta upp heldur eru menn einnig að ráðstafa fé áranna þar á eftir, menn eru að eyða lengra fram í tímann en þeir ættu með réttu að gera. Það verður óleyst verkefni þeirra sem við þessum málum taka á næstu árum að greiða úr skuldunum sem búið er að safna upp og safnað verður upp ef þessi áform ná fram að ganga sem eru í núgildandi tillögum.
    Ég vil þá víkja örfáum orðum að einstökum ákvörðunum sem liggja fyrir í tillögu að endurskoðaðri vegáætlun. Ég fagna því auðvitað að á þessu tímabili mun ljúka framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum sem mun gerbreyta möguleikum Vestfirðinga til sóknar á næstu árum. Þó að það sé að sumu leyti hlálegt fyrir núv. ríkisstjórn þá er það engu að síður staðreynd að sú framkvæmd er sú allra stærsta sem í gangi hefur verið á yfirstandandi kjörtímabili og var tekin af ríkisstjórninni þar á undan.
    Þá hillir loks undir það að staðið verði við löngu gefið fyrirheit og jafnvel loforð um að ráðast í þverun Gilsfjarðar og hefur hæstv. samgrh. sagt að hann muni bjóða þá framkvæmd út á þessu ári og þá væntanlega fyrr en seinna ef það á að vera meðan hann helst í embætti. Ég skildi yfirlýsingu hans fyrir nokkrum dögum á þann veg að útboðs yrði að vænta innan fárra vikna.
    Þá vil ég víkja að þriðja málinu sem mér er hugleikið í þessari áætlun. Það eru tillögur um að hefjast loks handa við endurbyggingu vegarins um Ísafjarðardjúp. Ég vil láta það koma fram, sem ég hygg að mönnum eigi vera ljóst, að ég er eindreginn stuðningsmaður þess að ráðist verði í þá framvæmd og fagna því að samstaða hefur náðst um að í það verði ráðist þegar á þessu ári. Ég tel að það skipti gríðarlega miklu máli fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum að fyrir liggi ótvíræð yfirlýsing og vilji Alþingis um að í þetta verkefni verði ráðist myndarlega á næstu árum. Hitt eru auðvitað nokkur vonbrigði að ekki skuli vera séð fyrir endann á því verki og vanta verulega upp á að menn geri ráð fyrir fjármagni til að ljúka þeim miklu framkvæmdum. Þó vil ég minna á að framkvæmdin í heild er þó ekki meiri en svo að hún er nokkru minni en nemur kostnaði við Herjólf sem gegnir sams konar hlutverki fyrir íbúa í Vestmannaeyjum og þessi endurbyggði vegur mun gegna fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum.
    Hér hefur verið gert að umræðuefni ákvörðun ríkisstjórnarinnar, og ég endurtek að það var ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að tengja framkvæmdir í Ísafjarðardjúpi við framtíð ferjunnar Fagraness. Það er svo sem ekki miklu meira um það að segja en fram hefur komið í fjölmiðlum. Það voru ákveðnir kostir sem menn höfðu úr að velja og menn urðu auðvitað að velja það skásta fyrir hagsmuni þeirra sem menn standa fyrir. Hinu er hins vegar ekki að leyna að tímarnir hafa mjög breyst á síðustu tveimur áratugum og menn verða auðvitað að endurmeta rekstur og þörf fyrir Djúpferju í ljósi breyttra tíma. Ég tel að eftir atvikum sé sá kostur sem ríkisstjórnin valdi hvað þetta varðar ásættanlegur þó að ekki sé hægt að segja að hann sé ekki neinn kjörvalkostur. En mér þykir það laklegt þegar einstakir ráðherrar kjósa að fara fram með yfirlýsingar í þá veru að ætla megi að þeir standi utan við ábyrgð ríkisstjórnarinnar í þessu máli og muni heldur ekki eftir því að það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem hér hefur hvað harðast verið deilt á að taka upp skiptingu á hluta vegafjár eftir höfðatölureglu sem kemur afar illa fyrir Vestfjarðakjördæmi og munar þar um 110 millj. kr. Auðvitað verður hver og einn að gera upp við sig hvaða ákvörun hann tekur en hitt er ekki líðandi að menn hlaupist frá þeim ákvörðunum sem þeir hafa tekið og þykist ekki kannast við þær né vita af þeim og reyni að koma ábyrgðinni af sér yfir á herðar annarra þingmanna.
    Ég vil taka undir þau áminningarorð sem hv. þm. Stefán Guðmundsson setti fram til þingmanna Vestfirðinga í utandagskrárumræðu um framtíð Fagraness að það væri hlutskipti þingmanna að leiða menn saman, fylkja Vestfirðingum bak við sameiginlega niðurstöðu fremur en að sundra fylkingum.

    Virðulegi forseti. Að öðru leyti er auðvitað margt í þessari vegáætlun sem er öðruvísi en maður hefði kosið. Það vantar fé til verkefna sem ég hefði viljað sjá að við gætum ráðist í á næstu fjórum árum með sæmilega myndarlega. Sérstaklega finnst mér sárt til þess að vita að hafa ekki meira fé til þess að rjúfa samgöngulega einangrun íbúa í Árneshreppi sem er að verða hvað síðustu íbúar þessa lands sem búa við samgöngulega einangrun meiri hluta ársins á landi og ég veit að allir þingmenn Vestfirðinga hefðu gjarnan viljað hafa meira úr að spila til þess að leysa betur og myndarlegar úr vanda þeirra en við þó reynum að gera. En vonandi tekst okkur eða þeim sem eru að taka við af okkur að þoka þessu máli áfram þannig að viðunandi lausn fáist í þeim efnum áður en það verður um seinan.