Grunnskóli

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 19:40:58 (5219)


[19:40]
     Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa talað fagna því að náðst hefur samkomulag varðandi þá fyrirvara sem hér hafa verið til umræðu undanfarna daga við frv. um grunnskóla. Það hafa fallið þung og stór orð í umræðunni og við stjórnarandstæðingar vorum mjög ósátt við það hvernig að málum var staðið, en nú hefur náðst samkomulag. Það er einlæg von mín að það verði til þess að liðka fyrir kjarasamningum og ég held að sú óvissa sem kennarar sáu fram undan varðandi breytingu á grunnskólanum sé nú aðeins minni en hún var og þeir telji tryggt að þeir nái ásættanlegum samningum um sín réttindamál og þau lög sem sett verða á næstu árum verði þeim að skapi.
    Þó að þetta samkomulag hafi náðst og við munum að sjálfsögðu greiða atkvæði með því þá vil ég halda því til haga, sem hefur margsinnis komið fram í umræðunni, að það eru gallar á frv. og það er sá stóri galli að við höfum ekki heildarmynd af því hvað þetta frv. þýðir, hver kostnaðurinn verður fyrir sveitarfélögin og hver útkoman verður í réttindamálunum. Ég hefði talið rétt að þetta lægi allt saman fyrir þegar þessi mál væru afgreidd og ég hefði svo sannarlega kosið að öðruvísi væri staðið að málum.
    Þá vil ég einnig minna á að það eru ýmsir þættir í frv. sem hefði þurft að skoða mun betur og ég hef margnefnt í umræðunni. Það eru þættir eins og sérkennslan og sérkennslupólitíkin, hvað á að verða um fræðsluskrifstofurnar og þeirra verkefni, samsetning skólanefnda, áhrif kennara, eftirlitsskylda ráðuneytisins o.fl. sem er mjög óljóst í frv. Niðurstaðan af því er sú, hæstv. forseti, að við kvennalistakonur munum styðja einstakar greinar frv. og einstakar brtt., sem við teljum vera mjög til bóta í skólastarfi almennt, en að öðru leyti munum við sitja hjá við afgreiðslu málsins.