Lok þingsetu Matthíasar Bjarnasonar

109. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 20:57:34 (5238)


[20:57]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Í tilefni þess að hv. 1. þm. Vestf. og aldursforseti þessa þings lætur af störfum ætla ég að segja hér örfá orð.
    Það eru tímamót þegar þingmaður sem starfað hefur í 32 ár á löggjafarsamkomu þessarar þjóðar leggur frá sér hin pólitísku vopn. Ég hef kynnst hv. þm. sem allt of skæðum pólitískum andstæðingi í sókn og vörn og játa það hér, en ég hef líka kynnst honum sem samherja í breiðfylkingu vestfirskra þingmanna þegar við þurftum að vinna að málum fyrir Vestfirði og það samstarf var oftast nær gott. Ég ætla fyrir hönd Vestfirðinga að þakka honum fyrir hans störf og minnast á ljóðlínur í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar sem eru á þessa leið:
        Allir miklir menn oss kenna,
        mestu tign er fært að ná.
        Eigum þegar aldir renna
        einhver spor við tímans sjá.
    Hv. þm. skilur eftir sig spor í stjórnmálasögu þessa lands, en hann skilur eftir sig mörg spor í stjórnmálasögu Vestfirðinga og fyrir það vil ég sérstaklega þakka honum aftur eins og ég hóf mál mitt í upphafi. Hann hefur aðeins átt við eitt vandamál að glíma á seinni árum í sinni pólitísku baráttu og af því að hann glettist nú stundum leyfi ég mér að gera það líka.
    Ákveðinn hópur --- ekki úr þingliði Sjálfstfl. --- ákveðinn hópur sjálfstæðismanna, hefur tekið upp á því að kalla hann framsóknarmann. Við höfum ekki tekið því illa og hann hefur ekki alltaf borið hönd fyrir höfuð sér. En ég endurtek þakkir mínar.