Tilkynning um þingrof

109. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 21:07:11 (5242)

[21:07]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Forseti Íslands hefur ritað svofellt bréf:
    ,,Forseti Íslands gjörir kunnugt:
    Þar eð Alþingi, er nú situr, 118. löggjafarþing, hefur samþykkt tvö frumvörp til stjórnarskipunarlaga um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944, ber samkvæmt 79. gr. stjórnarskrárinnar að rjúfa Alþingi nú þegar og stofna til almennra kosninga að nýju, og samkvæmt 122. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 80 16. október 1987, að ákveða kjördag.
    Samkvæmt þessu veiti ég forsrh. hér með umboð til þess í mínu nafni að rjúfa Alþingi og boða til nýrra kosninga sem ákveðst að fram skuli fara laugardaginn 8. apríl 1995.
Gjört í Hafnarfirði, 25. febrúar 1995.

Vigdís Finnbogadóttir.

_____________
Davíð Oddsson.
Forsetabréf um þingrof og almennar kosningar til Alþingis.``
    Samkvæmt þessu umboði er Alþingi hér með rofið og ákveðið að almennar kosningar til Alþingis fari fram laugardaginn 8. apríl nk.