Þinglausnir

109. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 21:08:41 (5243)


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Háttvirtir alþingismenn. Ég mun nú gefa yfirlit yfir störf 118. löggjafarþings.
    Þingið stóð yfir frá 1. okt. til 30. des. 1994 og frá 25. jan. til 25. feb. 1995. Þingfundardagar urðu alls 77. Þingfundir hafa verið 109.

     Þingmál og úrslit þeirra:

     Lagafrumvörp voru samtals 184. Stjórnarfrumvörp voru 116 og þingmannafrumvörp 68.
    81 stjórnarfrumvarp var afgreitt sem lög en óútrædd stjórnarfrumvörp eru 35.
    13 þingmannafrumvörp urðu að lögum en 53 þingmannafrumvörp eru óútrædd.
    Af 184 frumvörpum urðu alls 94 að lögum. Tvö frumvörp til stjórnarskipunarlaga voru afgreidd.

     Þingsályktunartillögur voru alls 80.
    Stjórnartillögur voru 14 og þingmannatillögur 66.
    17 tillögur voru samþykktar sem ályktanir Alþingis, átta var vísað til ríkisstjórnarinnar, einni var vísað frá með rökstuddri dagskrá og 54 eru óútræddar.

     Skýrslur voru samtals 22. Beiðnir um skýrslur frá ráðherrum voru fjórar og bárust skýrslur við tveimur. 20 aðrar skýrslur voru lagðar fram.

     Fyrirspurnir voru 173. Svör bárust við 166 fyrirspurnum. Munnlegar fyrirspurnir voru 87 og var þeim öllum svarað nema fimm. Beðið var um skrifleg svör við 86 fyrirspurnum og bárust svör við öllum nema tveimur.

    Alls voru til meðferðar í þinginu 463 mál. Þar af hlutu 292 þingmál afgreiðslu og tala prentaðra þingskjala var 957.

    Eins og sjá má af því yfirliti, sem ég hef lesið, hefur þetta þing staðið skemur en hin fyrri reglulegu þing á þessu kjörtímabili. Engu að síður hafa verið samþykkt á þinginu mörg merk mál auk þeirra mála sem þingið hefur á verksviði sínu árlega, svo sem fjárlög og aðrar ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    Það mál sem nýlega hefur verið samþykkt, frv. til stjórnarskipunarlaga, mun eflaust verða talið meðal merkustu mála þessa þings, ekki síst fyrir þá samstöðu sem um það hefur skapast og vegna þess að það felur í sér réttarbót fyrir landsmenn alla. Það er sérstaklega ánægjulegt að Alþingi skyldi þannig standa við þau fyrirheit sem gefin voru á Þingvöllum 17. júní í fyrra á hátíðarfundinum á Lögbergi sem verður okkur alþingismönnum minnisstæður.
    Í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins var haldin sýning í Alþingishúsinu, sú fyrsta sem Alþingi hefur staðið fyrir. Markmið hennar var að færa þingið og starfsemi þess nær fólkinu í landinu. Það tókst með afbrigðum vel því að alls komu 12 þús. gestir hingað í Alþingishúsið meðan á sýningunni stóð. Sýningin var þannig unnin að hún stendur til boða skólum og stofnunum sem vilja kynna sér sögu og starf Alþingis.
    Þessi fundur er síðasti fundur Alþingis á þessu kjörtímabili. Þetta kjörtímabil hefur verið óvenjulegt að mörgu leyti. Það er hið fyrsta eftir að skipan Alþingis var breytt og deildir lagðar niður og Alþingi tók að starfa í einni málstofu. Á þessu kjörtímabili hafa þingmenn, þingflokkar og stjórn þingsins verið að móta nýjar hefðir í þingstarfinu. Fyrir mig sjálfa sem forseta Alþingis hefur það verið áhugavert og krefjandi starf. Ég er þeirrar skoðunar að forseti Alþingis eigi að draga sig sem mest út úr flokkspólitískri baráttu og standa utan við hana. Ég tók ákvörðun um að starfa með þeim hætti í þessu embætti og tel að það styrki forseta í starfi. Þetta hefur hins vegar í för með sér að sá þingmaður sem forsetastarfi gegnir tekur pólitíska áhættu og nýtur ekki alltaf skilnings umbjóðenda sinna í þessu starfi og á því þarf að ráða bót.
    Ég tel að ekki leiki vafi á því að margt hafi færst til betri vegar á þessum tíma. Starfsaðstaða þingmanna hefur batnað og störf Alþingis orðið skilvirkari. Mér er þó ljóst að margt má enn bæta, bæði vinnuaðstöðu þingmanna og ekki síður störf Alþingis í þingnefndum, þingflokkum og hér á fundum þingsins. Það bíður þeirra fulltrúa sem kjörnir verða í næstu kosningum að halda því starfi áfram.
    Ég get þó ekki látið hjá líða að nefna það enn að mjög er þarft að breyta umræðuforminu á Alþingi. Það þarf að stytta umræður og gera þær hnitmiðaðri en þær eru núna. Það þarf einnig að verða breyting á samskiptum stjórnarmeirihluta og stjórnarandstöðu. Stjórnarandstaða hefur mikil völd við þinglok og úrslit mála mjög undir henni komin. Hún þarf að fara gætilega með þau og virða þann meiri hluta sem er í þinginu á hverjum tíma. Ríkisstjórn á hverjum tíma verður einnig að sýna sanngirni, virða rétt þingsins

til þess að fjalla um mál á þeim tíma sem það telur þurfa, knýja ekki á um afgreiðslu mála úr nefndum fyrr en þau hafa verið vel og gaumgæfilega unnin. Ég sé fyrir mér agaðri vinnubrögð hér í þingsalnum við afgreiðslu þingmála, afmarkaðan umræðutíma þar sem öll sjónarmið fá að koma fram, en síður að vegist sé á með orðum þegar mál eru komin til afgreiðslu í þingsalnum. En jafnframt þarf að skapa frjálslegan ramma utan um almenna pólitíska umræðu, bæði stutta og snarpa sem og yfirgripsmeiri umræður af því tagi.
    Það hefur vakið athygli mína að í þeim miklu önnum sem verið hafa síðustu daga hafa nánast undantekningarlaust öll nefndarálit verið samhljóða. Á því kann ég enga skýringu en ég vil af þessu tilefni segja það sem mína skoðun að æskilegt er að ágreiningur um mál verði í vaxandi mæli útkljáður í þingnefndum en síður í umræðum í þingsalnum.
    Konum á Alþingi hefur fjölgað á síðustu árum. Þær eru þó enn aðeins um fjórðungur þingheims og það hlutfall þurfum við að bæta. Hitt er ljóst að Alþingi er ekki vinnustaður sem hentar konum vel né öðrum sem meta þátt fjölskyldunnar í daglegu lífi. Þær gríðarlegu annir sem eru hér í desembermánuði og við þinglok að vori eru slíkar að erfitt er fyrir konur og raunar foreldra yfirleitt með börn að leggja slíka vinnu á sig. Það er trú mín að með fleiri konum á Alþingi breytist vinnulag þingsins þannig að álag í störfum þess verði jafnara en nú er. Ein leið til þess að ná þessu markmiði væri t.d. að skipta störfum Alþingis í nokkrar vinnulotur og að þingið fengi rýmri tíma til þess að fjalla um viðamikil mál en raun er á, bæði að þau mættu liggja lengur fyrir þinginu en nú er og ríkisstjórn kæmi fyrr fram með mál en venja hefur verið á undanförnum árum.
    Sagt er að Alþingi eigi að vera þjóðarspegill, þverskurður af þjóðinni. Því er ég samþykk og tel farsælast að í þessum sal sitji jafnan jafnt ungir með ferskar hugmyndir sem og þeir sem búa yfir þekkingu og reynslu, og endurnýjun þarf að eiga sér stað.
    Við lok þessa kjörtímabils munu margir alþingismenn hverfa af þingi. Nokkrir þingmenn, sem setið hafa hér lengi, hafa ákveðið að bjóða sig ekki fram við kosningarnar sem í hönd fara. Aðrir eiga ekki afturkvæmt hingað í þessa sali eins og gengur.
    Ég get ekki látið hjá líða að þakka aldursforseta Alþingis, hv. 1. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, fyrir störf hans í þinginu í þau 32 ár sem hann hefur átt hér sæti. Þá vil ég þakka tveimur varaforsetum þingsins sem ekki verða í framboði, þeim hv. 2. þm. Norðurl. v., Pálma Jónssyni, 6. varaforseta, sem setið hefur á þingi í 28 ár og hv. 10. þm. Reykv., Kristínu Einarsdóttur, 5. varaforseta, sem átt hefur sæti á Alþingi í 8 ár. Við þau hef ég átt gott samstarf í forsætisnefnd þingsins sem og við aðra forsætisnefndarmenn sem ég vil þakka öllum fyrir samstarfið og öll störf við stjórn þingsins.
    Þá vil ég færa sérstaklega þakkir fyrrv. forseta sameinaðs Alþingis, Jóni Helgasyni, hv. 2. þm. Suðurl., fyrir störf hans í þágu Alþingis.
    Nýrrar forsætisnefndar bíða mörg verkefni, bæði í starfsháttum þingsins og þá ekki síður við það að taka á húsnæðismálum Alþingis sem eru orðin mjög brýn úrlausnar. Að því máli hefur verið unnið skipulega á undanförnum mánuðum og þess er að vænta að fyrsta uppskera af því starfi komi í ljós í vor og sumar.
    Ég vil að lokum þakka alþingismönnum öllum samstarfið sem hefur verið ánægjulegt í hvívetna. Oft hefur þó hvinið í. En ég hverf úr þessum stóli sátt við alla og á góðar minningar um störf mín sem forseti Alþingis. Þar sem ég er ein af þeim sem nú láta af þingmennsku vil ég þakka þingmönnum, sem ég hef verið samtíða á Alþingi, þau rúmlega 15 ár sem ég hef setið á þingi. Ég hef nefnt það áður að hér er gott að starfa, hér er góður andi í þessari virðulegu stofnun og hér er stofnað til vinatengsla þvert á öll flokksbönd.
    Þá vil ég færa fréttamönnum þakkir fyrir samstarfið. Við höfum reynt að bæta aðstöðu þeirra í Alþingishúsinu. Það er afar þýðingarmikið fyrir Alþingi að almenningur í landinu eigi kost á því að fylgjast sem best með því sem hér er að gerast hverju sinni.
    Jafnframt þakka ég hæstv. ríkisstjórn fyrir samstarfið og forustumönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Ég þakka skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis umburðarlyndi í minn garð, ánægjulegt og mikið samstarf á þessu þingi og á undanförnum árum. Ég óska alþingismönnum góðrar heimferðar og heimkomu og árna ykkur öllum heilla. Þeim sem nú leggja út í kosningabaráttuna óska ég alls hins besta og bið þá að fara fimlega með vopn sín.
    Landsmönnum öllum óska ég árs og friðar.