Þinglausnir

109. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 21:21:27 (5244)


[21:21]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Hæstv. forseti. Fyrir hönd okkar alþingismanna þakka ég hæstv. forseta fyrir hennar hlýju orð og góðar óskir okkur til handa. Við erum nú að ljúka störfum á þessu kjörtímabili. Fyrir mig hefur þetta verið afar lærdómsríkt tímabil í lífi mínu og trúlega má segja það um fleiri sem tóku sæti á Alþingi í fyrsta skipti árið 1991.
    Margir þeir sem hér eru inni ganga nú til kosningabaráttu og leita eftir endurkjöri. Um aðra er vitað að þeir hyggjast nú hætta hér störfum og þannig standa mál með hæstv. forseta sem nú lýkur hér farsælu starfi til margra ára sem þingmaður Reyknesinga.
    Ég vil sérstaklega þakka hæstv. forseta, frú Salome Þorkelsdóttur, fyrir störf hennar sem forseti þingsins sl. fjögur ár. Hún hefur sinnt því starfi af mikilli reisn og trúmennsku og sýnt það svo að ekki verður um villst að á það ber að líta sem eitt merkasta og viðamesta embætti þjóðarinnar. Jafnframt hefur glæsileiki hennar og persónutöfrar ásamt virðulegri framkomu notið sín vel í embætti forseta Alþingis.
    Við alþingismenn erum stoltir af því að hafa átt þess kost að njóta starfskrafta hennar og það verður sjónarsviptir af brotthvarfi hennar úr þingsölum. Ég er þess fullviss að hún á eftir, þó í öðru formi verði, að sinna mikilvægum störfum í þágu lands og þjóðar þar sem reynsla hennar og þekking á landsmálum fær notið sín.
    Það reynir mikið á þingmenn þessa dagana en ekki síður á starfsfólkið sem er óþreytandi að leysa öll þau mál sem upp koma hverju sinni í störfum þingsins. Því vil ég færa öllu starfsfólki þingsins innilegar þakkir okkar þingmanna fyrir frábærlega vel unnin störf í þágu þingsins í vetur og þolinmæði við okkur þingmenn. Hvar sem starfsvettvangur þingmanna verður í framtíðinni óska ég þeim velfarnaðar og fjölskyldum þeirra og þakka þeim fyrir góða samvinnu.
    Að lokum óska ég hæstv. forseta og fjölskyldu hennar allra heilla í framtíðinni. Ég vil biðja hv. þingmenn að taka undir þessi orð mín með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]