Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 04. október 1994, kl. 21:15:25 (20)


[21:15]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Góðir Íslendingar. Mér virðist sem hæstv. forsrh. hafi samið stefnuræðu sína í þetta skipti með einhvers konar bjartsýnisgleraugu á nefinu. Raunar var ræða hans ekki stefnuræða í venjulegri merkingu þess orðs heldur fyrst og fremst og fremur ómerkileg kosningaræða. Hæstv. forsrh. leit yfir farinn veg og sú mynd sem hann dró upp fyrir þing og þjóð á lítið skylt við raunveruleikann. Hann reynir að gylla það sem hann vill sýna okkur en nefnir ekki hitt sem hann vill fela. Stefnumörkun til framtíðar er litla að finna í þessari stefnuræðu.
    Þegar hæstv. forsrh. lítur yfir farinn veg ríkisstjórnar sinnar, þá hlýtur hann að sjá að það sem einkennir stjórnartímabilið öðru fremur er hin gífurlega eignatilfærsla sem orðið hefur í þjóðfélaginu. Þjóðarauðurinn er að safnast á örfáar hendur. Þeir ríku eru orðnir miklu ríkari, þeir fátæku miklu fátækari. Það hefur orðið grundvallarbreyting í þjóðfélagi okkar undir ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. E.t.v. var ríkisstjórn

Davíðs Oddssonar mynduð til þess að koma þessari grundvallarbreytingu á og þá er við hæfi að hæstv. forsrh. tíundi þau afrek sín á mannamáli.
    Byrðum sem fyrirtækin tóku þátt í að bera áður hefur verið velt af fullkominni hörku yfir á almenning og ekki þá sem hafa breiðu bökin, nei, heldur hina. Vaxtahækkunin sem ríkisstjórnin stóð fyrir í upphafi ferils síns var liður í hernaðaráætluninni gegn fólkinu í landinu og hún skilaði sannarlega árangri. Skuldir heimilanna hafa vaxið geigvænlega og nú er svo komið að fjórðungur húsbréfa er í vanskilum. Atvinnuleysi hefur haldið innreið sína í samfélag okkar, atvinnuleysi sem kostar 10 milljarða á ári. Hæstv. forsrh. gortar að vísu yfir því að það sé ekki orðið eins mikið og hjá Evrópusambandinu. En ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur notað atvinnuleysið sem hagstjórnartæki.
    Hæstv. forsrh. hælir sér af því að vinnufriður hafi ríkt. En hvernig er sá vinnufriður fenginn? Hann er fenginn með atvinnuleysi og greiðslukortum.
    Ríkisstjórnin hefur lagt fram mjög óraunhæft fjárlagafrv. Rauntölur ársins 1995 verða auðsjáanlega allt aðrar en standa í frv. Þetta frv. sýnir þó hvert ríkisstjórnin er að stefna. Fjárfestingarnar eru skornar niður um 25% í því skyni að viðhalda atvinnuleysi væntanlega, en hátekjuskatturinn er afnuminn til þess að létta byrðum af hátekjufólki og gæðingum og kostunaraðilum ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma er Lánasjóður ísl. námsmanna enn skertur um 50 millj. og framlög til landbúnaðarmála enn lækkuð um 12%. Þá er enn einu sinni frestað að skattleggja fjármagnstekjur þvert ofan í fyrri margendurteknar yfirlýsingar. Peningarnir virðast nefnilega vera heilagir, vinnutekjur fólksins ekki.
    Auðvitað eru nokkur sjáanleg batamerki í efnahagslífinu en þau eru ekki ríkisstjórninni að þakka. Sjómenn hófu veiðar í Smugunni þrátt fyrir andmæli og aðvaranir ríkisstjórnarinnar. Við stöndum í þakkarskuld við þá brautryðjendur. Það er fyrst og fremst vegna framtaks sjómanna og útgerðarmanna sem batamerki sjást í efnahagslífinu.
    Frú forseti. Hæstv. forsrh. gerði samning um Evrópskt efnahagssvæði að umtalsefni. Ég var andvígur þeim samningi og skoðun mín hefur ekki breyst. Hann var of dýru verði keyptur. Að sjálfsögðu getum við ekki stigið þetta skref til baka og verðum að búa við orðinn hlut. Sá efnahagslegi ábati sem talsmenn samningsins fjösuðu um hefur nú heldur betur látið á sér standa. En þær skyldur sem við höfum undirgengist höfum við hins vegar orðið að uppfylla og Alþingi gengur að vissu leyti með bundnar hendur til löggjafarstarfa.
    Alþingi fól ríkisstjórninni 5. maí 1993 að undirbúa gerð tvíhliða samnings við Evrópusambandið. Þessari skyldu hefur ríkisstjórnin ekki sinnt með viðunandi hætti. Hvers vegna ekki? Það er vegna þess að ríkisstjórnin er sjálfri sér sundurþykk í þessu máli. Hæstv. utanrrh. veður um heiminn og segir okkur stefna að aðild að Evrópusambandinu en það gengur þvert á yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar. En með þessum málflutningi kemur hann í veg fyrir það að Evrópusambandið nenni að tala við okkur í alvöru um tvíhliða samning. Að sjálfsögðu dæmir hæstv. utanrrh. sig vanhæfan með þessum málflutningi og það hefur hæstv. forsrh. einnig gert mjög skilmerkilega þegar hann sagði að þeim mönnum sem teldu sjávarútvegssamning norsku ríkisstjórnarinnar góðan væri ekki treystandi til að semja fyrir Íslands hönd. Hæstv. utanrrh. hefur sem kunnugt er talið norska samninginn góðan og norska ríkisstjórnin vitnar óspart til þeirra ummæla hans.
    Það er undarleg ríkisstjórn sem við höfum. Hæstv. forsrh. segir hæstv. utanrrh. réttilega vanhæfan til að semja fyrir Íslands hönd um mikilvægustu hagsmunamál okkar en biðst samt hvorki lausnar fyrir utanrrh. né ríkisstjórnina. Þetta getur auðvitað ekki gengið svona. Hæstv. forsrh. á bara tveggja sómasamlegra kosta völ: Annar er að reka hæstv. utanrrh., hinn er að biðjast lausnar fyrir ríkisstjórnina, rjúfa þing og efna til kosninga. Aðrir sómasamlegir kostir eru bara ekki í stöðunni.
    Framtíð Íslands veltur á afstöðunni til Evrópusambandsins. Alþingi hefur markað stefnuna. Tvíhliða samningur, ekki aðild. Þessari stefnu megum við ekki breyta. Það er margyfirlýst stefna Framsfl. að aðild að Evrópusambandinu komi ekki til greina. Hæstv. forsrh. hefur sagt margt skynsamlegt um það mál nú síðari hluta sumars og í haust þó að mér finnist hann dragi nokkuð í land í stefnuræðunni. Aðild að Evrópusambandinu mundi þýða að við afsöluðum okkur hinu dýrmæta stjórnarfarslega sjálfstæði og yfirráðum yfir auðlindum okkar. Við sjáum hvernig fór fyrir Nýfundnalandi þegar þeir misstu yfirráðin yfir auðlindum sínum og glötuðu stjórnarfarslegu sjálfstæði. Talsmenn aðildar fjölyrða um hættuna á einangrun Íslands ef við stöndum utan Evrópusambandsins. Þetta er fjarstæða. Hættan er sú að við lokumst inni í Evrópusambandinu og einangrumst frá öðrum hlutum veraldarinnar og getum ekki heldur látið fullmektuga rödd Íslands heyrast á alþjóðavettvangi.
    Einkennileg var sú ákvörðun hæstv. forsrh. að fara að óska eftir úttekt háskólans á kostum og göllum aðildar. Auðvitað vissi hæstv. forsrh. fyrir fram hvaða álit háskóladeildirnar mundu gefa miðað við þann söng sem hefur borist frá háskólanum undanfarið. Þar eru í fararbroddi menn sem eru ákveðnir í að sjá bara kostina en neita að gallarnir séu fyrir hendi. Talsmenn aðildar tala um hvað það sé mikilvægt fyrir okkur að mega segja já í stofnunum Evrópusambandsins. Þetta er nú ekkert nema innantóm mannalæti að ímynda sér það að við hefðum þar einhver veruleg áhrif. Það er hverju orði sannara að við megum aldrei selja yfirráð yfir auðlindum okkar fyrir þýðingarlítinn atkvæðisrétt í Brussel.
    Frú forseti. Nú er Alþfl. farinn að siðvæða íslensk stjórnmál. Að sjá hæstv. utanrrh. og hæstv. félmrh. prédika siðbót í stjórnmálum er svona álíka og þeir hefðu verið skipaðir í tannverndarráð, þeir félagar Karíus og Baktus. Auðvitað eru stjórnarhættir ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar spilltir í mörgum greinum og það er óþolandi. Menn hafa undanfarið verið að gagnrýna hæstv. félmrh. sérstaklega fyrir spillingu. Ég tel að hæstv. félmrh. hafi það sér til málsbóta að hann hafi haldið þegar hann sem óreyndur en stórhuga ungur maður kom í ráðherrastól, að þetta væru eðlilegir stjórnarhættir í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Hann hafði orðið vitni að einkavinavæðingu hæstv. forsrh., t.d. í Hrafnsmálinu, horft upp á aðfarir formanns Alþfl. við embættaveitingar og ýmislegt hjá öðrum ráðherrum. Aðhlynningarstörf hæstv. félmrh. og einkavinavæðing er ekki hótinu verri heldur en margt af því sem hinir hæstv. ráðherrar hafa gert.
    Frú forseti. Það er þjóðinni dýrt að setja þessa ríkisstjórn á vetur. Hún ætti að fara frá sem fyrst og efna til kosninga þar sem þjóðin gæti valið sér fulltrúa sem mynduðu ríkisstjórn sem líklegri væru til farsælli verka en ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur reynst. Ríkisstjórn sem hefði það að leiðarljósi að standa vörð um stjórnarfarslegt sjálfstæði Íslands, eflingu atvinnulífsins og jöfnun á lífskjörum og lífsaðstöðu þegnanna í landinu.
    Ég hef lokið máli mínu.