Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 04. október 1994, kl. 21:59:33 (24)


[21:59]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Þegar hlýtt er á stefnuræðu forsrh. leynir sér ekki að alþingiskosningar eru í nánd. Forsrh. keppist við að draga upp sem mesta glansmynd af stöðu efnahagsmála og gyllir árangur ríkisstjórnarinnar sem mest hann má. Svo mikið er kappið að honum ferst svipað og Þórólfi smjör forðum: Engu eru líkara en smjör drjúpi af hverju strái eða eins og segir í stefnuræðunni: Allt er hagstæðara en gert var ráð fyrir.
    Það er leitt til þess að vita að forsrh. skuli enn vera fastur í ýkjukenndum málflutningi sínum. Landsmenn muna sjálfsagt enn eftir því að fyrsta ár ríkisstjórnarinnar fór í það að hallmæla fyrri ríkisstjórn sem mest og draga að öllu leyti upp sem dekksta mynd af ástandi mála nánast hvar sem því varð við komið. Fortíðarvandaskýrslurnar voru framleiddar á færibandi. Það er óskandi að forsrh. og ríkisstjórn hans hætti sem fyrst sandkassapólitík af þessu tagi og taki upp málefnalegri umræðu og meira í takt við veruleikann en fram til þessa hefur verið. Auðvitað er svona ýkjukenndur málflutningur fráleitur. Það sér hvert mannsbarn að honum er einungis ætlað að beina athyglinni frá þeirri pólitísku stefnu sem ríkisstjórnin framfylgir og því sem af henni hefur leitt.
    Það er einmitt þetta sem stjórnarflokkarnir forðast að ræða. Aðgerðir í skatta- og kjaramálum sem þeir hafa staðið fyrir, staðreyndir um vaxandi ójöfnuð og misrétti í þjóðfélaginu, staðreyndir sem leiða í ljós að núverandi stjórn hefur markvisst þyngt klyfjarnar á sumum þjóðfélagshópum, þótt þeir hafi illa getað borið þær sem fyrir voru, en öðrum hópum verið hlíft þótt þar væru léttar byrðarnar fyrir. Síðast en ekki síst forðast þeir að ræða atvinnuleysið. Og víkjum fyrst að því og staðreyndum sem stefnuræðan þegir um.
    Í stefnuræðunni segir forsrh. það eitt um atvinnuleysið að það sé á þessu ári minna en spáð var. Staðreyndin er sú að það er áætlað að um 6.300 manns verði án atvinnu, þ.e. um 700 manns meira en á síðasta ári. Það má vel vera að fyrir ári hafi verið spáð meira atvinnuleysi en nú er. Það breytir því ekki að þeim 700 sem nú eru atvinnulausir en voru það ekki í fyrra þykir það vafalaust lítið fagnaðarefni og gefa lítið fyrir lyktina af svo jákvæðum fréttum, eins og forsrh. kemst að orði, um það að atvinnuleysi nú sé minna en spáð var. Mér þykir það ekki jákvæð frétt að atvinnulausum hafi fjölgað um 700 manns og það er heldur ekki jákvæð frétt að nú er spáð að atvinnulausir verði áfram á næsta ári 700 fleiri en í fyrra. Og jafnvel teikn á lofti um að atvinnuleysi kunni enn að aukast. Í mínum huga er það vond frétt að atvinnulausu fólki hafi fjölgað og muni fjölga á næsta ári en ekki fækka. En það er enn verri frétt að forsrh. hafi komið sér hjá því að nefna þessa staðreynd. Sú þögn segir væntanlega landsmönnum að ríkisstjórnin er á miklum villigötum.
    Stjórnvöld hafa aukið skatta og aðrar álögur verulega þrátt fyrir loforð um hið gagnstæða frá báðum stjórnarflokkum. En gerum það ekki að aðalatriði málsins, heldur hitt hvernig sköttunum var jafnað niður. Helstu álögur ríkisstjórnarinnar eru þessar:
    Persónuafsláttur hefur lækkað um tæp 10% eða tæplega 6 þús. kr. á mánuði í tíð núv. ríkisstjórnar. Það er bein skattahækkun og hún kemur þyngst niður á láglaunafólki. Sem dæmi má nefna að fyrir mann með 80 þús. kr. tekjur á mánuði þýðir lækkun persónuafsláttarins um 35% hækkun á staðgreiddum sköttum. Vaxtabætur hafa lækkað verulega, um 400--500 millj. kr. á ári. Tekjuskattur og útsvar hafa hækkað um 3 milljarða kr. á ári og vextir voru hækkaðir á lánum í Byggingarsjóði verkamanna um hvorki meira né minna en 140%. Þessar skattaálögur hafa verið sóttar fyrst og fremst af lágum tekjum. Þessar staðreyndir staðfesta að láglaunafólki hefur ekki verið hlíft við því að taka á sig auknar byrðar og barnafólk sem er að koma yfir sig þaki virðist hafa verið sérstakur markhópur ríkisstjórnarinnar. Þessi hópur hefur mátt þola hærri vexti, lægri vaxtabætur, lægri persónuafslátt og hærri skattprósentu. Hins vegar er haldið hlífiskildi yfir hátekjumönnum og þeim sem hafa tekjur af fjármagni.
    Það er furðulegt að enn skuli það vera þannig að eignamaður sem hefur milljón krónur í tekjur af verðbréfum skuli engan skatt greiða af þeim tekjum en launamaður með sömu tekjur greiði allt að ríflega 40% þeirra tekna í skatt. Það verður ekki á þessa ríkisstjórn borið að hún leggi sig eftir því að leggja skatta á menn eftir efnum og ástæðum. Þvert á móti. Með aðgerðum sínum hefur ríkisstjórnin aukið á misréttið og ójöfnuðinn sem aftur hefur leitt af sér jafnhliða minnkandi atvinnu, að æ stærri hluti landsmanna á í erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sínar og jafnvel hefur ekki ofan í sig og á.
    Um allt land verða menn varir við vaxandi neyð fólks en hvergi er hún eins greinileg og í Reykjavík, höfuðborg landsins. Samkvæmt upplýsingum frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar þá hefur fjárhagsaðstoð tvöfaldast frá 1992 og flest bendir til þess að um tíundi hver Reykvíkingur þurfi á aðstoð stofnunarinnar að halda á þessu ári. Fjölmennastir eru atvinnulausir, öryrkjar og einstæðir foreldrar. Þetta er afleiðing þess að ríkisstjórnin fylgir óheftri markaðshyggju og hefur unnið alvarleg spjöll á öryggisneti velferðarkerfisins. Upplýst er að stór hluti Reykvíkinga er kominn á þurfamannastig og samt kemur hér forsrh., 1. þm. Reykn., og leyfir sér að tala eins og þetta fólk sé ekki til. Hann sér það ekki í glansmyndakasti sínu og segir að framvindan í þjóðarbúskapnum hafi á öllum sviðum orðið jákvæðari en búist var við. Svona talar aðeins veruleikafirrt ríkisstjórn. Slíka ríkisstjórn er ekki á vetur setjandi. --- Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.