Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 04. október 1994, kl. 22:28:04 (27)


[22:28]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Það er athyglisvert að líta á siðvæðingu stjórnmálanna út frá öðrum sjónarhóli en verið hefur í umræðunni. Hvaða umhverfi höfum við stjórnmálamenn og aðrir sem ábyrgð bera í valdastöðum þjóðlífsins búið fólkinu í landinu? Er það umhverfi siðvædds lýðræðislegs þjóðfélags sem byggir á jafnrétti fólksins og eðlilegri og réttlátri skiptingu þjóðarkökunnar? Nei, hér býr ekki ein þjóð í einu landi. Auður og völd safnast æ meir á fárra manna hendur. Misréttið í tekju- og eignaskiptingunni er gífurlegt og bilið breikkar jafnt og þétt milli hálauna- og láglaunahópanna og stéttaskipting er staðreynd í íslensku þjóðfélagi. Samhjálp, jöfnuður og samstaða með alþýðu fólks, sem nú er skilgreind sem gamaldags jafnaðarmennska, er æ meira vikið til hliðar fyrir eins konar tæknimennsku og frjálshyggju markaðsbúskaparins, þar sem mannleg verðmæti eru á undanhaldi. Stjórnmál tæknihyggjunnar, hinnar köldu gróðahyggju, hefur nánast ýtt hinum siðferðilegu mælikvörðum hugsjónanna út af borðinu. Heilbrigðis- og félagsþjónusta eða menntakerfið eru ekki einungis stærð í fjárlögum eða atvinnuleysi bara prósentur. Virðingin fyrir manninum, rétti hans til viðunandi lífskjara og að geta með fullri reisn fætt, klætt og menntað börnin sín og skapað þeim sómasamleg lífsskilyrði skipta líka máli.
    Ljóst er að fyrirgreiðslan og ábyrgðarleysið í þjóðfélaginu hefur leitt þjóðina í mikla skuldasöfnun og fært hér niður lífskjörin sem mest hefur auðvitað bitnað á láglaunafólki. Á þessu ástandi berum við mikla ábyrgð sem treyst hefur verið fyrir stjórn landsmálanna á umliðnum árum og áratugum Ég ber vissulega minn hlut þar sem ráðherra sl. 7 ár. Þar skorast ég hvergi undan ábyrgð og hef einungis mér til málsbóta að hafa reynt að berjast gegn misskiptingunni þegar of langt hefur verið gengið sem síðan leiddi til afsagnar minnar sem ráðherra.
    Sem þingmaður utan flokka, engum háður nema minni eigin sannfæringu og loforðum mínum við kjósendur, mun ég áfram berjast fyrir breyttu og réttlátara samfélagi. Við þurfum nýtt afl, nýja jafnaðarmannahreyfingu hér á landi sem er tilbúin til að breyta skiptingu þjóðarkökunnar og ráðast gegn spillingu, forréttindum og auðsöfnun á fárra manna hendur. Í undirbúningi er stofnun nýrrar stjórnmálahreyfingar jafnaðarmanna sem hefur það að markmiði að mynda breiðan samstarfsvettvang fyrir alla þá sem aðhyllast framsækna jafnaðarstefnu, þar sem megináherslan verður lögð á atvinnuöryggi, jafnrétti, ábyrgð, samhjálp, valddreifingu og siðvætt samfélag.
    Við þurfum nýtt afl í þjóðfélaginu fyrir fólkið þar sem gefið verður upp á nýtt, þar sem meginverkefnið verður að breyta skiptingu þjóðarkökunnar og því siðlausa umhverfi sem hér þrífst víða og ég mun greina frá.
    Við þurfum að hefja til vegs og virðingar breytt gildismat í þjóðfélaginu þar sem ábyrgð og jöfnuður siðvædds samfélags er sett í öndvegi þannig að allir geti lifað lífinu með reisn. Við þurfum nýjar leikreglur, leikreglur siðvædds samfélags. Það þarf að opna myrkruð skúmaskot þjóðfélagsins og neðanjarðarspillingarinnar og hreinsa til í íslensku þjóðfélagi. Græðgi verður að víkja fyrir réttsýni og jöfnuði. Fyrst þá getum við stjórnmálamenn staðið upp frá okkar verki með fullri reisn og sagt að hér búi ein þjóð í einu landi.
    Við getum spurt: Gengur það í siðvæddu samfélagi að hálaunamaðurinn sé einn mánuð að vinna fyrir tveggja ára launum láglaunamannsins? Nei, hér gilda engar sanngjarnar leikreglur heldur frumskógarlögmálið þar sem hinir sterku klifra upp eftir bakinu á þeim veikari og hrifsa til sín alla kökuna nema molana þannig að láglaunafólkið á ekki fyrir brýnustu nauðþurftum.
    Mikil misskipting lífskjara í þjóðfélaginu endurspeglast líka í eignaskiptingunni. Samkvæmt framtölum sl. árs eru 9.800 hjón og einstaklingar með að meðaltali nálægt 3 millj. kr. í skuldir umfram eignir. Á sama tíma sýna skattframtölin að nokkur hundruð hjón og einstaklingar eiga hvert um sig að meðaltali 103 millj. kr. í eignir umfram skuldir. Af því eiga þau um 43 millj. að meðaltali hvert um sig í skattfrjálsum peningalegum eignum sem kerfið er að velkjast með árum saman hvernig eigi að skattleggja. Við finnum enga peninga til að létta skattbyrðina hjá láglaunafólki, t.d. með hækkun skattfrelsismarka sem ætti að vera 71 þús. kr. í stað 57 þús. kr. ef þau hefðu haldið í við framfærsluvísitöluna. Síðan vefst það árum saman fyrir kerfinu á tímum tækninnar hvernig koma eigi á fjármagnstekjuskatti á 160 milljarða skattfrjálsar peningalegar eignir stóreignamanna. Forgangsverkefnið er að koma á slíkum skatti og nýta það fjármagn til að lækka skattbyrði láglaunafólks.
    Og þá er komið að hinu siðvædda atvinnulífi íslensku þjóðarinnar. Á sjö árum, frá 1987 til 1993, hafa nærri 45 milljarðar verið metnir sem afskrifaðir hjá bönkum og fjárfestingarlánasjóðum. Þessu ábyrgðarleysi í sjóða- og bankakerfinu er síðan velt yfir á fólkið í formi meiri vaxtamunar eða nýrra þjónustugjalda og enginn er ábyrgur.
    Það er til önnur hlið á þessu máli. Lítum á fortíðarvanda fyrirtækjanna upp á 86 milljarða kr. sem væntanlega verður framtíðarvandi skattgreiðenda og sem dregur niður lífskjörin í þjóðfélaginu. Hér á ég við ónotuð rekstrartöp sem samkvæmt álagningu 1994 eru hvorki meira né minna en 86 milljarðar kr. og hafa hækkað um 20 milljarða kr. á sl. tveimur árum. Þessi rekstrartöp eru m.a. nýtt af velstæðum fyrirtækjum sem kaupa raunverulega inn til sín illa stödd eða gjaldþrota fyrirtæki fyrir óverulegar fjárhæðir. Síðan nýta þau þessi rekstrartöp til að draga frá sínum hagnaði og minnka sínar skattgreiðslur til samfélagsins. Meira að segja er svo langt gengið að þessi töp eru auglýst til sölu.
    Ég tel því ljóst að það þurfi að endurskoða frá grunni skattaívilnanir, hlunnindagreiðslur og meðferð ónotaðra rekstrartapa og meta upp á nýtt réttmæti þeirra. Sama gildir um gjaldþrota fyrirtæki þar sem eigendur þeirra komast upp með aftur og aftur að hafa af ríkissjóði fjármuni og senda honum reikninginn en stofna jafnharðan til annars eða sams konar reksturs á rústum gjaldþrotsins.
    Hér verður að setja lög, eins og víða tíðkast, þar sem eigendur slíkra fyrirtækja þurfa að sæta atvinnuleyfissviptingu og er einnig bannað eftir slík ,,hvítflibbagjaldþrot`` að vera í forsvari eða í stjórn annars fyrirtækis um tiltekinn tíma.
    Lítum síðan á sjávarútveginn, sægreifana svokölluðu sem eru smám saman að eignast fiskimiðin. Tíu kvótahæstu fyrirtækin eru með 25% af heildarkvótanum. Þegar litið er á 40 stærstu kvótahafana fyrir fiskveiðiárið 1994--1995 þá eru þeir með yfir 50% af öllum úthlutuðum veiðiheimildum. Þannig eru 4% kvótahafa með á sinni hendi meira en helming af öllum úthlutuðum veiðiheimildum. Á sama tíma er verið að þrengja verulega að smábátaútgerðinni og rekstrargrundvellinum verið kippt undan mörgum tugum smábáta sem þó hefur verið meginstoð heilu byggðarlaganna. Endurskoðun á kvótakerfinu er því hvergi nærri lokið. Snúa þarf við þeirri þróun að þessi sameign þjóðarinnar verði smám saman eign fámenns hóps kvótakónga. Aðrir verða einungis leiguliðar að kvótanum þannig að þar siglum við hraðbyr inn í lénsskipulag miðaldanna.
    Síðan er það hið íhaldssama smákóngaveldi lífeyrissjóðanna 80 sem tekur til sín árlega nálægt 700 millj. kr. í laun og rekstrarkostnað. Þar geta topparnir í þjóðfélaginu hirt til sín á einum til tveimur mánuðum í lífeyrisgreiðslu sömu fjárhæðir og almennt launafólk fær úr sínum lífeyrissjóði á fimm árum. Forgangsverkefni í íslenskum stjórnmálum er að endurskoða lífeyriskerfið frá grunni sem komið er í hreint öngstræti og koma hér á réttlátu og sanngjörnu lífeyriskerfi.
    Og þá komum við að skattsvikurunum. 11 milljörðum verður ríkissjóður af vegna þeirra sem er svipuð fjárhæð og kostar ríkissjóð að reka allt skólakerfið.
    Á Alþingi hef ég lagt fram nokkur þingmál sem öll miða að róttækum aðgerðum til að stemma stigu við skattsvikum. M.a. er lagt til að stofnaður verði sérstakur skattadómstóll, sektir við skattsvikum verði stórhækkaðar og að tekið verði á sviksamlegri háttsemi manna við að fá virðisaukaskatt ranglega greiddan út úr ríkissjóði. Við eigum að hefja hér markvissa herferð gegn skattsvikurum en hætta að taka á þeim málum með einhverjum silkihönskum.
    Það þarf líka að endurskoða frá grunni öll hlunnindi og fríðindi sem viðgengist hafa hjá hinu opinbera og í bankakerfinu. Ég nefni bílafríðindin, laxveiðileyfin, risnuna, ferðahvetjandi dagpeningakerfið, himinhá launakjör og lífeyrisfríðindi manna í æðstu stöðum stjórnsýslunnar. Það er með ólíkindum að eyða þurfi í þetta 2--3 milljörðum á ári á sama tíma og sífellt er verið að þrengja að hópum sem höllustum fæti standa í þjóðfélaginu.
    Við þurfum einnig að opna hér alla starfsemi stjórnmálaflokka og setja löggjöf um fjárreiður þeirra og upplýsingaskyldu og þak á greiðslur sem þeir geta þegið af einkaaðilum til sinnar starfsemi. Í því efni má aldrei leika vafi á að hagsmunatengsl við aðila sem þeir eru háðir fjárhagslega hafi áhrif á störf stjórnmálaflokkanna.
    Varðandi bætt siðferði í opinberum rekstri vil ég segja þetta: Þegar svo er komið að djúpstæður og langvarandi trúnaðarbrestur hefur orðið með þjóðinni og opinberum stjórnvöldum þá er nauðsynlegt að huga að því hvernig bæta megi siðferði í opinberri stjórnsýslu. Að öðrum kosti getur þetta ástand haft alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðarhagsmuni og skapað tortryggni almennt í störfum í stjórnsýslunni. Það hlýtur því að koma til álita að Alþingi álykti um það að skipuð verði nefnd sem hafi það verkefni að kanna þær skráðu og óskráðu reglur sem í reynd ríkja um embættisfærslur í opinberri stjórnsýslu og ráðstöfun opinberra fjármuna sem og að kanna hvernig draga megi úr stjórnmálalegum afskiptum í sjóða- og bankakerfinu. Einnig að skoða hvort rétt sé að breyta fyrirkomulagi við ráðningar í æðstu stöður opinberra stofnana.
    Ég hef hér lýst hvernig hægt er að setja ábyrgð og jöfnuð í öndvegi í íslenskum stjórnmálum. Brýnt úrlausnarefni vil ég einnig nefna sem er að jafna atkvæðavægi kjósenda og ráðast í breytta kjördæmaskipan. Ég tel það vænlegan kost að fækka þingmönnum og gera landið að einu kjördæmi ásamt því að skoða vandlega hvort ekki sé hægt að auka valfrelsi kjósenda með því að sameina kosti persónukjörs og listakjörs.
    Góðir Íslendingar. Það er rétt sem fram kemur í stefnuræðu forsrh. að mikilsverður árangur hefur víða náðst í stjórn efnahagsmála í tíð þessarar ríkisstjórnar og ég dreg ekki í efa að batamerki eru fram undan í efnahagslífinu. En eitt augnablik skulum við ekki gleyma því að það er láglaunafólkið í landinu sem helst hefur borið hitann og þungann af því að ná þjóðinni upp úr þeirri djúpu efnahagslægð sem við höfum verið í undanfarin sjö ár. Jafnsannfærð er ég líka um það að það er stór hluti þjóðarinnar sem ekki getur tekið undir þá fullyrðingu sem fram kemur í orðum forsrh. að nú sé svo komið að þjóðin öll skynji efnahagsbatann. Láglaunafólkið gerir ekki stórar kröfur til þjóðfélagsins. Það biður um atvinnuöryggi og að kjör þess dugi fyrir brýnustu framfærslunni. Þetta er fólkið sem stritar myrkranna á milli, vinnur 60--70 stunda vinnuviku og launin hrökkva ekki fyrir matnum eða reikningunum í gluggaumslögunum frá hinu opinbera og víða á landsbyggðinni hrökkva launin varla fyrir húshitunar- og matarkostnaði. Uppskeran er kannski 15.000 kr. á viku eftir skatt. Þessi sultarkjör eru þjóðarskömm í siðvæddu samfélagi sem ekki hefur getu né burði til að taka af hörku á skattsvikum, forréttindum eða auðsöfnun á fárra manna hendur í þjóðfélaginu. Engan þarf að undra þótt skuldir fólks aukist og það eigi í erfiðleikum með að standa í skilum enda kemur í ljós í húsnæðiskerfinu að 3 / 4 vanskilanna má rekja til atvinnuleysis, verulegs samdráttar í tekjum og minnkandi yfirvinnu eða veikinda.
    Ég sakna þess í þessari bjartsýnisræðu forsrh. þegar kreppan er blásin af og bati er boðaður fram undan að engar hugmyndir séu settar fram um hvaða leiðir á að fara til að rétta hlut láglaunafólksins.
    Í fjárlögum sýnist mér, þrátt fyrir batann sem boðaður er, að áfram sé höggvið í sama knérunn að skerða þjónustu í heilbrigðis- og félagsmálum og að skerða réttindi atvinnulausra og námsmanna á sama tíma og skattur á hátekjufólk er afnuminn.
    Ég fullyrði að samhugur og samheldni mun ekki ríkja hér á landi ef áfram á að halda á þeirri braut að skipta þjóðinni upp í tvær þjóðir. Slíkt leiðir til upplausnar, ekki samstöðu. Slíkt leiðir til stéttaskiptingar og sundrungar meðal þjóðarinnar. Það er ekki það siðvædda, lýðræðislega samfélag sem við viljum sjá hér á landi. Orð forsrh. hér áðan um mikilvægi þess að lífsins gæðum sé af sanngirni deilt eru marklaus meðan hann þegir þunnu hljóði um það hvernig það skuli gert og hann segir ekki þjóð sinni hvernig batinn eigi að skila sér til þess hluta þjóðarinnar sem harðast hefur orðið úti í efnahagskreppunni.
    Góðir Íslendingar. Við þurfum nýtt afl jafnaðarmanna til valda í íslensku þjóðfélagi þar sem ábyrgð og jöfnuður í þjóðfélaginu verða í öndvegi. Það afl verður upphaf nýrra tíma í íslenskum stjórnmálum.