Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 04. október 1994, kl. 22:53:46 (29)


[22:53]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Allt hefur sinn tíma og öllu er afmörkuð stund. Ríkisstjórn, sem fáum lögmálum hefur lotið, rennur lokaskeið sitt. Þær breytingar sem orðið hafa á valdatíð hennar eru víðtækar og hafa komið harðast niður á þeim sem hlífa skyldi. Atvinnuleysið, sem hélt innreið sína fyrir alvöru með þessari ríkisstjórn, er sú vofa sem verst lyktar. Fnykurinn af henni finnst víða um land þótt það trufli ekki lyktarskyn hæstv. forsrh. Honum er tíðrætt um stöðugleika og frið á vinnumarkaðinum. Hver er raunveruleikinn? Það er ótti á vinnumarkaðinum. Fólk hefur fylgst með þeirri vá sem gjaldþrotum fylgja og fólk er einfaldlega dauðhrætt. Það er hræðsla en ekki friður sem ríkir þar.
    Hefði einhver hv. alþm. trúað því fyrir nokkrum árum að verkalýðsfélög létu það óátalið að kauptrygging fólks, sem barist var fyrir í áratugi, er víða horfin? Fólk er lausráðið í stórum stíl, kemur þegar vinnu er að fá og er kauplaust þess á milli. Þetta er því miður staðreynd sem verkalýðsfélögin hafa lítið getað gert við. Nú boðar hæstv. forsrh. betri tíð. En hverjum á þessi góða tíð að þjóna? Á hún að þjóna landsmönnum öllum? Ekkert bendir til að svo sé.
    Nýútkomið fjárlagafrv. vekur margar spurningar. Húsbréfakerfið er komið að fótum fram. 15 milljarðar eru í vanskilum. Skuldir heimilanna hafa stóraukist, framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna lækka um 50 millj., framlög til landbúnaðarins dragast saman um 12%. Fjármagn til rannsókna í sjávarútvegi lækkar um 11%. Stóraukin þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu eru boðuð og ekki er tekið á hallarekstri sjúkrahúsa.
    Öryrkjum hefur fjölgað um 16% á tveimur árum og hefur atvinnuleysi ýtt undir þá fjölgun. Samt á að skera niður framlög til þeirra. Lækka á útgjöld vegna sjúkratrygginga um 420 millj. en það vekur athygli að í staðinn fyrir sparnaðinn kemur nýr útgjaldaliður. Kaup á lóð á dýrasta stað í Berlín undir enn eitt nýtt monthús.
    Það er ánægjulegt að þjóðartekjur hafa aukist. Það er fyrst og fremst vegna þess að afkoma loðnuveiða er langtum betri en spáð var vegna aflabrests í Kanada og Noregi. Veiðar í Barentshafi og úthafsveiðar á Reykjaneshrygg hafa skilað verulegri veltuaukningu.
    Virðulegur forsrh. samdi kvikmyndahandrit fyrir fáum árum sem innihélt þann boðskap að allt gott komi frá guði. Þessi mynd rifjast upp fyrir mér þegar hæstv. forsrh. þakkar sér aflaaukningu umfram spár og líka rifjast upp fyrir mér að það var ekki baráttumál ríkisstjórnarinnar að þau öflugu skip voru keypt sem nú eru á veiðum í úthöfum. Enn fremur rifjast upp fyrir mér að þeir sem bölsótuðust mest yfir kaupunum á þessum skipum fyrir fáum árum eru orðnir aðaltalsmenn úthafsveiði sjómanna. Góð sinnaskipti þar.
    Hæstv. forsrh. er enn upptekinn af fortíðinni og hefur jafnvel farið fram í fortíðarfræðum. Hann segir eftirfarandi í stefnuræðu sinni, með leyfi forseta:
    ,,Við munum öll eftir því að þennan 1. júní eða hinn 1. september eða 1. desember væru öll mál í uppnámi og tilefni til þess að gripið yrði til smáskammtalækninga af efnahagslegu tagi til þess að bjarga í horn. Oftar en ekki var þá gripið til millifærslna, stundum í stórum stíl, til að bjarga því sem aflaga fór. Því miður var allt of oft tjaldað til einnar nætur.``
    Þetta segir hæstv. forsrh. með megnustu fyrirlitningu. En hvað hefur gerst í tíð núv. ríkisstjórnar? Útstrikanir á skuldum með gjaldþrotaleiðum úti um allt land. Það er aðferð sem ekki er hægt að kenna við stöðugleika heldur kollsteypu.
    Ég var á fundi stjórnar Byggðastofnunar í morgun og ekki vakti sá fundur neinar sérstakar vonir um að þessari gjaldþrotahrinu væri lokið. Sveitarsjóðir eru að verða aðalatvinnuveitendur á landsbyggðinni. Maður spyr sig: Er það stefna ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum?
    Það væri fróðlegt að gera úttekt á hvað margir einstaklingar hafa hætt atvinnurekstri á þessu kjörtímabili og hvað margir nýir hafa byrjað. Það er einnig verðugt rannsóknarefni hvers vegna það er ekki fýsilegur kostur að hefja atvinnurekstur á Íslandi.
    Þó atvinnulífið hafi ekki tekið fjörkipp í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar hefur hæstv. forsrh. tekið fjörkipp. Hann er afar bjartsýnn og það eru þeir einnig sem eiga milljónir í bönkum. Áformum um fjármagnstekjuskatt er frestað og þeir eru líka bjartsýnir sem hafa háar tekjur því hátekjuskatturinn verður felldur niður.
    Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Þrátt fyrir þessa miklu misskiptingu og mikla ranglæti sem stefna ríkisstjórnarinnar hefur leitt af sér getur verið bjart fram undan því afmörkuð stund þessarar ríkisstjórnar er senn á enda runnin. --- Góðar stundir.