Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 04. október 1994, kl. 23:11:09 (31)


[23:11]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Þeir hafast ólíkt að, ráðherrarnir hér í kvöld. Hæstv. menntmrh. kom og talaði eingöngu um skólamál, en síðast heyrðum við hæstv. umhvrh. koma og minnast ekki einu einasta orði á umhverfismál frekar en reyndar því miður aðrir ræðumenn hér í kvöld og minnist ég þess ekki í annan tíma að hafa heyrt ráðherra hundsa sinn eigin málaflokk svo gersamlega eins og hæstv. umhvrh. gerði. Hann virtist eitthvað skorta upp á málflutning forsrh. Hann var að reyna að rökstyðja enn frekar glæsimyndina sem hæstv. forsrh. eyddi ræðutíma sínum hér, heilum 30 mínútum, í að reyna að draga upp.
    Það á víst að heita svo að hér sé flutt stefnuræða forsrh. Samkvæmt fundarsköpum og því sem þjóðinni var sagt í fjölmiðlum, þá yrði hér í kvöld umræða um stefnuræðu forsrh. Hún hefur ekki komið fram enn. Þetta var engin stefnuræða í venjulegum skilningi þess orðs. Þetta var harðsoðin áróðursræða, hápólitísk kosningaræða þar sem í raun og veru hvergi var minnst á stefnu ríkisstjórnar. Þetta var ekki útskýring á efnahagsstefnu eða atvinnumálastefnu þessarar ríkisstjórnar, ekki rökstuðningur fyrir henni. Þetta var svart/hvít áróðursræða dregin upp í þeirri svart/hvítu söguskoðun sem hæstv. forsrh. hefur verið að búa

sér til. Staðreyndin er sú að hæstv. forsrh. eyðileggur eigin málflutning með þessari svart/hvítu röksemdafærslu. Hefði nú til að mynda hæstv. forsrh. þó ekki væri nema viðurkennt að það var í tíð fyrri ríkisstjórnar sem stöðugleikinn hélt innreið sína og ráðin voru niðurlög verðbólgunnar, þá hefði það strax gert málflutning hans trúverðugri. En sú staðreynd að hæstv. forsrh. þagði um þetta í glansmyndaræðu sinni en miklaðist svo af því að hans ríkisstjórn hefði viðhaldið hér og varðveitt mikinn stöðugleika gerir auðvitað hans málflutning ótrúverðugan. Löngun hæstv. forsrh. til að skrifa stjórnmálasöguna eftir eigin höfði en ekki samkvæmt staðreyndunum ber hann ofurliði. Hæstv. forsrh. getur sem rithöfundur þegar hann er að semja skemmtisögur um tyggjó af himnum ofan eða annað því um líkt farið með söguþráðinn af vild. En hann getur ekki meðhöndlað stjórnmálasöguna svona.
    Það er auðvitað rétt að viðurkenna að fyrri ríkisstjórn glímdi við ýmis erfið verkefni og henni tókst ekki allt sem hún ætlaði sér. Og viðskilnaður hennar var að sjálfsögðu ekki fullkominn. En minnumst þess að hún tók við einhverju versta búi sem nokkur ríkisstjórn hefur fengið, þrotabúi ríkisstjórnar Sjálfstfl. sem hrökklaðist frá völdum haustið 1988 og yfirvofandi var allsherjarhrun í íslensku atvinnulífi. Það tókst að afstýra því hruni. Það tókst að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Og það tókst að halda uppi fullri atvinnu allt síðasta kjörtímabil. Það mætti hæstv. forsrh. muna ef hann ætlar sér að komast á blað sem sagnfræðingur í íslenskri stjórnmálasögu.
    Þetta, hæstv. forseti, gerir auðvitað málflutning hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar ótrúverðugan sem og sú einhliða glansmynd sem hann reynir að draga hér upp. Nú er allt gott, allt fullkomið. En viðskilnaður fyrri ríkisstjórna og reyndar allt sem aðrir stjórnmálamenn hafa á fyrri tíð gert er alvont. Þetta er röksemdafærsla sem dugar ekki, hæstv. forsrh. Og hæstv. forsrh. gengur svo langt að segja í þessu plaggi einhvers staðar: ,,En nú er svo komið að þjóðin öll skynjar efnahagsbatann en stjórnarandstaðan hefur allt til þessa dags haldið dauðahaldi í kreppuna.`` Ja, það er bara það.
    Er þetta svona einfalt? Er þetta svona? Skynjar öll þjóðin nema við, nokkrir nöldurseggir í stjórnarandstöðunni, efnahagsbatann? Hvað með þessa 6.300 Íslendinga sem að jafnaði ganga atvinnulausir allt þetta ár? Skynja þeir efnahagsbatann, hæstv. fjarverandi forsrh.? Hvað með 3.500 viðskiptamenn Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar sem fá 540 millj. kr. í fjárhagsaðstoð á þessu ári til að framfleyta sér, draga fram lífið? Skynja þessir íbúar í þinni eigin borg, þínu eigin kjördæmi, hæstv. forsrh., efnahagsbatann? Hefur hæstv. forsrh. heimsótt athvörf atvinnulausra í Reykjavík eða á Akureyri og rætt við það fólk sem þangað mætir um efnahagbatann? Hefur hann fengið undirtektir þar? Hefur hæstv. forsrh. rætt við þær þúsundir íslenskra fjölskyldna, sem berjast núna við að halda þaki yfir höfuðið á sér, um efnahagsbatann? Hefur hæstv. forsrh. rætt við það fólk, sem er með fjórða hvert húsbréfalán í vanskilum, um efnahagsbatann? Nei, hæstv. forsrh. Þetta er ekki trúverðugur málflutningur. Við viðurkennum það, stjórnarandstæðingar, að vissulega eru ýmis batamerki í okkar ytra efnahagsumhverfi, það er rétt, enda hefur hagur atvinnuveganna batnað, enda hefur gengið verið fellt og 5 þúsund millj. kr. verið létt af atvinnulífinu í sköttum og færðar yfir á herðar launafólks. Það munar um minna.
    Aðstöðugjald á einu bretti sem nú mundi skila samkvæmt álagningu eins og það var 5 milljörðum í álagningu og væntanlega um 4,2 milljörðum í innheimtu var flutt á einu bretti yfir á herðar almennra launamanna í þessu landi. Það er búið að lækka tekjuskattsprósentu fyrirtækja þannig að þau borga núna 500 millj. kr. minna í tekjuskatt. Sú byrði var líka flutt yfir á launamenn. Auðvitað skilar þetta bættri afkomu.
    Íslenskur sjávarútvegur hefur enn einu sinni sýnt hvað í honum býr. Með stóraukinni verðmætasköpun, aukinni úrvinnslu, metloðnuvertíð og veiðum í Smugunni, sem ríkisstjórnin vel að merkja vildi banna, hefur auðvitað íslenskur sjávarútvegur fyrst og fremst rétt okkur þau batamerki sem við nú sjáum.
    Batnandi efnahagsástand í okkar helstu viðskiptalöndum, fleiri ferðamenn o.s.frv., allt eru þetta þættir sem við viðurkennum. En þá kemur líka að því hvað ætlum við að gera með þennan bata að svo miklu leyti sem hann er raunverulegur og verður varanlegur. Á það minntist hæstv. forsrh. ekki í þeim skilningi sem ég hefði viljað heyra, sem sagt þeim að bæta þeim nú upp það sem mestar hafa fært fórnirnar og eiga í raun og veru heiðurinn af því að ástandið er þó ekki verra en það er á Íslandi í dag, almennum launamönnum sem hafa tekið á sig skert lífskjör, minni vinnu og þrengt sinn kost á ýmsan veg, sérstaklega vegna aukinna skattbyrða ríkisstjórnarinnar. Það er auðvitað mergurinn málsins, hvað ætla menn að gera við þennan bata, og ég endurtek, að svo miklu leyti sem hann reynist raunverulegur og verður varanlegur.
    Hæstv. forsrh. fór ekki yfir það hér að þrátt fyrir alla bjartsýnina er spáð 4,9% atvinnuleysi á næsta ári. 6.500 manns munu þá ganga án atvinnu. Atvinnuleysi í mínu kjördæmi er 8--10% meðal kvenna. Atvinnuleysi meðal kvenna hér í höfuðborginni, kjördæmi forsrh., er 6%. Skuldir heimilanna hafa margfaldast. Skattpíning almennings hefur aukist. Það er uppgjöf í ríkisfjármálum. Friðrik Sophusson fjmrh. slær Íslandsmet í hallarekstri ríkissjóðs á einu kjörtímabili. Skattastefna ríkisstjórnarinnar segir í raun og veru allt sem segja þarf um eðli þessarar stjórnarstefnu. Sú staðreynd að það er einn hópur, einn hópur sem fær góðar fréttir í þessu fjárlagafrv., það er hátekjufólkið í landinu, segir allt sem segja þarf um inntak þessarar stjórnarstefnu. Það er sá hópur sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar taldi sérstaka ástæðu til að ívilna nú um þessar mundir. Í 5% atvinnuleysi og bullandi hallarekstri ríkissjóðs getur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, fjmrh. Friðrik Sophusson og leifarnar af Alþfl., ef svo má að orði komast, séð af 300--400 millj. kr. Handa

hverjum? Handa atvinnuleysingjum? Öldruðum? Fötluðum? Nei. Hátekjufólkinu á Íslandi. Þar ber ríkisstjórnin niður. Þar hefur hún væntanlega talið þörfina vera mesta. Það þarf í raun og veru, hæstv. forseti, ekki að fara mörgum orðum um þetta ástand.
    Við alþýðubandalagsmenn höfum á öllu þessu kjörtímabili barist hart gegn þessari frjálshyggjustefnu. Við vöruðum við afleiðingum hennar. Við spáðum því að hún mundi innleiða atvinnuleysi og lífskjörin mundu versna, að hér yrði stöðnun í atvinnu- og efnahagsmálum og það hefur orðið raunin. Því miður. Það þarf að koma þessari ríkisstjórn frá. Hún er ekki starfhæf. Annar stjórnarflokkurinn er í tætlum. Alþfl. er rjúkandi rúst og finnur sér helst huggun í því að jafnaðarmenn í Svíþjóð hafi komið vel út úr kosningum. Eyddu stórum hluta af ræðutíma sínum hér í kvöld, kratar, í að gleðjast yfir því að krataflokkurinn í Svíþjóð hefði komið vel út. Ja, það er von að þeir tali ekki mikið um stöðuna í eigin flokki. Alþfl. klofinn. Við heyrðum fyrrv. varaformann hans hér tala utan flokka áðan og ég verð að segja það alveg eins og er að ef ég á einhver ein ráð handa Alþfl. núna, þá eru þau að hugleiða vandlega að bjóða ekki fram í næstu kosningum, velta því fyrir sér hvort það sé ekki hyggilegt fyrir Alþfl. að stefna frekar á framboð í kosningunum 1999, hvíla þjóðina á sér í eins og eitt kjörtímabil og fara í góða endurhæfingu á meðan. Þetta væru mín ráð til þeirra leifa, sem hægt er að kalla svo, Alþfl.
    En alvarlegastur, hæstv. forseti, er þó auðvitað sá algeri trúnaðarbrestur sem orðinn er milli forustumanna stjórnarflokkanna. Forsrh. hefur opinberlega lýst vantrausti á utanrrh. Gengur það í lýðræðisríki og í þingbundinni ríkisstjórn að utanrrh. sem hefur fengið á sig vantrauststillögu frá forsrh. sitji áfram eins og ekkert hafi í skorist? Ætlar hæstv. forsrh. virkilega að bjóða þjóðinni upp á það að sitja uppi með ríkisstjórnina svona á sig komna í allan vetur? Það er hreint ábyrgðarleysi á viðkvæmum tímum, þegar m.a. allir kjarasamningar eru lausir, að standa þannig að málum.
    Góðir Íslendingar. Vonandi losnum við við þessa ríkisstjórn fyrir jól. Ef ekki, þá verðum við að vísu að þreyja þorrann og góuna líka en sem betur fer ekki lengur. Þá, í síðasta lagi þá mun vora í tvennum skilningi á Íslandi, bæði stjórnarfarslega og hvað veðráttuna snertir. --- Góðar stundir.