Sjónvarpsútsendingar frá Alþingi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 13:38:04 (36)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Í tilefni orða hv. 4. þm. Austurl. vill forseti taka fram eftirfarandi:
    Eins og fram kom í orðum forseta við þinglok, og hv. 4. þm. Austurl. nefndi, var ætlunin að eiga viðræður við forsvarsmenn Íslenska útvarpsfélagsins og Sýnar um að staðið yrði við fyrirheit í samningi milli Alþingis og þessara aðila frá því í apríl 1992 um að unnið yrði að stækkun á útsendingarsvæði Sýnarrásarinnar. Svo fór sl. sumar, eins og flestum er nú kunnugt, m.a. vegna allmikilla hræringa innan hlutafélaganna sem um er að tefla, að grundvöllur var ekki fyrir umræðum um þetta atriði. Hins vegar var forseta, mjög óvænt, tilkynnt með bréfi 6. september að Íslenska útvarpsfélagið og Sýn gætu ekki staðið við ákvæði fyrrnefnds samnings að útsendingar af þingfundum væru órofnar og var það vegna myndlyklaskipta hjá Stöð 2. Útsendingar yrði að rjúfa laust fyrir klukkan fimm en þá hefst dagskrá stöðvarinnar á báðum rásum, rás Stöðvar 2 og rás Sýnar. Hér væri um tímabundnar ráðstafanir að ræða og búast mætti við að þetta frávik frá samningi stæði fram í marsmánuð nk. eða seinni partinn í febrúar.
    Forseti hafði þegar samband við framkvæmdastjóra stöðvarinnar og hann kom á fund forseta. Niðurstaða þeirra samtala varð sú að stöðin var tilbúin til að sjónvarpa frá þingfundum órofið á einni rás Fjölvarpsins, sem hefur reyndar takmarkaða útbreiðslu, og á útvarpsrás, FM 102,2, meðan á þessu stæði. Jafnframt að sjónvarpsútsendingar frá Alþingi yrðu á báðum rásum stöðvarinnar, þ.e. á rás Stöðvar 2, sem sagt er að nái til 96% landsmanna, og Sýnarrásinni. En þó ekki lengur en til þessa áðurgreinda tíma, þ.e. fimm mínútur fyrir kl. 5 á daginn.
    Málið var síðan kynnt þingflokksformönnum og rætt ítarlega í forsn. Skoðanir hafa verið skiptar um viðbrögð við þessum aðstæðum en niðurstaða forsn. var sú að eins og mál stæðu skyldi fallist á beiðni Íslenska útvarpsfélagsins og Sýnar. Jafnframt samþykkti forsn. á fundi sínum 28. sept sl. að kanna enn á ný hvort Ríkisútvarpið gæti hafið útsendingar héðan annaðhvort útvarpssendingar eða sjónvarpssendingar sem næðu til landsins alls. Forseti hefur áður rætt við útvarpsstjóra og tæknimenn útvarpsins um möguleika á útsendingum héðan. Fyrir liggur að möguleikar til útvarpssendinga til allra landsmanna eru ekki fyrir hendi nema byggt verði upp dreifikerfi fyrir nýja rás og er kostnaður áætlaður um 400 millj. kr. Þá liggur enn fremur fyrir að ríkissjónvarpið hefur ekki aðra möguleika en að senda út héðan fram að reglulegri dagskrá sem nú í vetur mun hefjast klukkan fimm. Órofin útsending héðan kallar því á nýja sjónvarpsrás á vegum ríkissjónvarpsins og er talið að hún muni kosta um 1.000 millj. kr. ef hún á að ná til allra landsmanna.
    Forseti átti á ný fund með útvarpsstjóra í framhaldi af samþykkt forsn. til að kanna enn frekar hug útvarpsins til sjónvarpsútsendinga. Á þeim fundi kom fram fullur vilji ríkissjónvarpsins til að hefja sjónvarpsútsendingar frá þingfundum ef samkomulag næst um framkvæmdaratriði. En þó með þessum annmarka að útsendingum lyki laust fyrir klukkan fimm. Þetta mál er í frekari athugun þessa dagana og þess vænst að niðurstaða fáist mjög fljótlega, m.a. um með hvaða skilyrðum þessar útsendingar yrðu.
    Hins vegar er öllum ljóst að ef til þess kæmi að Ríkisútvarpið hæfi útsendingar frá þingfundum fram til klukkan fimm síðdegis hlýtur það að raska nokkuð fundarstörfum. Þess vegna er að dómi forseta fullt tilefni til þess að Alþingi taki til athugunar fundatíma sinn og fleira í þessu sambandi. Að breytingum á fundatíma Alþingis þurfa þó margir að koma. Það er sjónarmið forseta að í því efni eigi ekki að hrapa að neinu og e.t.v. má líta svo á að fyrirkomulag þessara mála sé til reynslu í vetur, á þessu þingi, en að málið yrði þá tekið upp í heild við upphaf nýs kjörtímabils.

    Loks má í þessu efni hafa í huga að tækni í fjarskiptum fleygir mjög fram. Sá tími er e.t.v. ekki svo langt undan að landsmenn allir eigi kost á því að fylgjast með störfum Alþingis jafnharðan og án teljandi fyrirhafnar. Þess vegna er m.a. eðlilegt að menn hiki við að stofna til mikilla fjárfestinga í þessu skyni.
    Forseti vill að lokum þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir að vekja athygli á málinu. Vafalaust deila flestir alþingismenn þeirri skoðun með honum að það væri bæði Alþingi og þjóðinni til heilla að landsmenn gætu fylgst með störfum þingsins í útvarpi eða sjónvarpi. Kostnaðurinn er hins vegar svo mikill að ráðlegt er að doka við og athuga málið betur, umfram það sem hér liggur fyrir.