Sjónvarpsútsendingar frá Alþingi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 13:49:03 (39)



[13:49]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Satt að segja hefur ekki verið haldið að öllu leyti nægilega vel á þessu máli, hvorki af okkur hér í þessari virðulegu stofnun né heldur af Ríkisútvarpinu og ekki heldur af ríkisstjórninni. Ég held að kominn sé tími til að menn reki af sér slyðruorðið og að reynt verði að koma saman einhverri framkvæmdaáætlun í þessu máli þannig að héðan geti hafist a.m.k. útvarpssendingar hið allra fyrsta eða jafnóðum og burðugt dreifikerfi í því sambandi verður til. Ég tel að aðalatriðið hljóti að vera það á þessari stundu að tekin sé um það ákvörðun að fundum Alþingis verði útvarpað og að það sem þarf verði gert í þeim efnum enda þótt það geti tekið einhvern tíma eins og gengur. En að það verði tekin alveg skýlaus ákvörðun um það af forsn. Alþingis að stefna á þetta, af menntmrn. að styðja það og af Ríkisútvarpinu að framkvæma það. Ég er sammála hv. 1. þm. Norðurl. v. um það að undanfærslur Ríkisútvarpsins duga ekki í þessu máli enda á Ríkisútvarpið auðvitað ekkert að ráða ákvörðunum af þessu tagi miðað við eðli málsins. Það hlýtur að vera verkefni Alþingis og ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma og fjármálayfirvalda. Ég hvet því til þess að menn taki stefnumótandi ákvarðanir og dragi það ekki stundinni lengur og þær stefnumótandi ákvarðanir er hægt að taka, í fyrsta lagi forsn. Alþingis.