Kynning á frumvarpi til fjárlaga 1995

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 13:55:50 (43)

    [13:55]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil beina orðum til forseta varðandi þá kynningu sem fram fór á fjárlagafrv. sem var lagt hér fram í upphafi þings.
    Ég tel að þar hafi minni hluti fjárln. sem á að fjalla um þetta mál og sitja fyrir svörum um það, verið sniðgenginn með þeim hætti að ekki verður við unað áfram. Ég hef upplýsingar um það að á föstudaginn var, degi áður en þingsetningin var, var Morgunblaðinu og ljósvakafjölmiðlum kynnt þetta frv. en við þingmenn fengum það í hendur sólarhring síðar og almennur fréttamannafundur um málið var haldinn kl. 11 á laugardag og þar var málið kynnt.
    Ég hef ekkert á móti því að fjölmiðlum sé kynnt málið á frumstigi. En það ætti að vera lágmark að sýna okkur minnihlutamönnum fjárln., sem ekki höfum komið neitt að málinu en verðum að svara fjölmiðlum um þetta mál, þann trúnað að leggja frv. fyrir okkur jafnframt og að við fáum frv. í hendur jafnsnemma a.m.k., ég fer ekki fram á meira, og Morgunblaðið og ljósvakamiðlarnir sem fengu málið í hendur næstum því sólarhring á undan öðrum fjölmiðlum að þessu sinni. Það var að vísu til að gæta allrar sanngirni vegna þess að þeir höfðu aðstöðu til þess að fjalla um málið um helgina, en því meiri ástæða er til þess að fjárlaganefndarmenn fái að sjá málið.
    Þetta verður auðvitað ekki aftur tekið nú en ég vil beina því til hæstv. forseta að um þetta verði settar reglur hliðstæðar því sem Ríkisendurskoðun hefur um sínar skýrslur, að kynna það þingheimi áður en það er sent fjöðlmiðlum eða jafnframt.