Kynning á frumvarpi til fjárlaga 1995

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 13:58:27 (45)


[13:58]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð hv. 2. þm. Austurl. og ítreka það að staða og störf hv. fjárln. eru ólíðandi. Við minnihlutamenn höfum ekki fengið að berja augum innihald fjárlagafrv. þegar það er lagt fram hér á Alþingi og við urðum auðvitað öll fyrir því að fjölmiðlar fóru að hringja í okkur og óska eftir athugasemdum um fjárlagafrv. sem þeir voru komnir með í hendurnar en við höfðum ekki séð. Við þetta verður auðvitað ekki unað.
    Þá hefur það borið við fyrr en nú að nefndin er í raun og veru að verða óstarfhæf vegna þess að þeir sem henni eiga að stýra eru bundnir við störf annars staðar. Ég veit að þeir ráða ekki við það en það er sérkennileg samsetning að þeir sem eiga að vinna að afgreiðslu fjárlagafrv. skuli ekki vera á landinu til þess að annast það.
    Síðan berast okkur nú fréttir um að fjölmiðlar séu með lista yfir úthlutanir úr þeim sjóðum sem ráðherrar hafa sjálfir undir höndum. Við höfum ítrekað beðið um þessa lista en það virðist vera ráðið að fara í blaðamennsku til þess að afla sér upplýsinga um slíkar greiðslur og kennir þar nú margra kyndugra grasa.
    Þá óskaði ég eftir því fyrir allnokkru að fá upplýsingar um kostnað eða ágóða af hinum nýgerða EES-samningi. Svar við því hefur ekki borist enn frá fjmrn. og virðist sem ráðuneytið hundsi gersamlega allar fyrirspurnir nefndarinnar.
    Í þriðja lagi og ekki síst hefur legin tilbúið úr prentun síðan í vor niðurstaða svokallaðrar reikningsskilanefndar sem átti að reyna að samræma, svo læsilegt væri venjulegu fólki, reikninga hins íslenska ríkis og fjárlagafrv.
    Þetta er óþolandi og ólíkt öllu sem alls staðar annars staðar gerist. Ég óska því eftir því að forseti ræði við formann fjárln. og eitthvað verði gert í því að nefndin verði starfhæf.