Jarðhitaréttindi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 14:07:11 (51)

[14:07]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég á hér tvö dagskrármál sem eru efnislega mjög skyld, varða bæði orkulindir, eignar- og umráðarétt orkulinda og ég óska eftir því að mega mæla fyrir báðum þessum frumvörpum í framsöguræðu ef ekki er gerð athugasemd við það.
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti gerir ekki athugasemdir við það og ef ekki koma fram athugasemdir frá öðrum, þá er það í lagi.)
    Ég þakka. Þau mál sem hér um ræðir eru frv. til laga um jarðhitaréttindi á þskj. 6, sem flutt er af mér og öðrum þingmönnum Alþb., og frv. til laga á þskj. 7 um orku fallvatna og nýtingu hennar og um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923, og flm. eru hinir sömu. Bæði þessi mál hafa komið nokkrum sinnum og raunar alloft fyrir hv. Alþingi, upphaflega flutt í neðri deild Alþingis 1983, síðan lögð fram nokkrum sinnum í neðri deild og eftir að þingið var sameinað í einni málstofu voru þessi mál flutt á síðasta þingi t.d. og ætíð verið vísað til hv. iðnn. þingsins.
    Þessi mál varða eignar- og umráðarétt yfir orkulindum landsmanna, vatnsafli og jarðhita. Í frv. um

jarðhitaréttindi er kveðið svo á í 1. gr. að landareign hverri sem háð er einkaeignarrétti fylgi réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita á og undir yfirborði hennar í allt að 100 metra dýpi og landeiganda sé rétt að bora eftir og hagnýta sér jarðhita með þeim takmörkunum sem lög þessi tilgreina, en hins vegar í 6. gr. tekið fram:
    ,,Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur dýpra en 100 metra undir yfirborði landareigna skv. 1. mgr. 1. gr.``
    Í öðrum greinum og köflum frv. er þessi stefna nánar útfærð og m.a. leyfisveitingar, bæði til rannsókna og hagnýtingar og sérstaða sveitarfélaga í þessum efnum afmörkuð.
    Í frv. um orku fallvatna og nýtingu hennar er því með ekki ósvipuðum hætti slegið föstu skv. 1. gr.:
    ,,Orka fallvatna landsins er eign íslenska ríkisins sem eitt hefur heimild til nýtingar hennar, sbr. þó 2. gr.``
    En í 2. gr. eru undanþáguheimildir frá þeirri stefnu að því er varðar smávirkjanir, virkjanir sem þegar hafa verið reistar, sem og aðlögunartíma í tíu ár gagnvart þeim sem hefja framkvæmdir á þeim tíma. Í öðrum greinum þessa frv. er málið nánar útfært, m.a. með tilliti til umhverfismála og umhverfismats sem þarf að fara fram samkvæmt sérlögum ef í framkvæmdir er ráðist.
    Við umfjöllun þessara þingmála, sem ég mæli fyrir, hefur spurningin um stöðu þeirra gagnvart eignarréttarákvæðum skv. 67. gr. stjórnarskrárinnar m.a. verið álitaefni. Í greinargerð með frv. kemur fram það mat að lagasetning af því tagi sem hér um ræðir standist eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, brjóti ekki gegn þeim, og þar eru leidd fram mörg veigamikil rök til að styðja þá skoðun og ummæli og athuganir virtra fræðimanna, þar á meðal þingskörunga, sem nú eru horfnir af sjónarsviðinu, eins og prófessoranna Ólafs Jóhannessonar og Bjarna Benediktssonar. En báðir þessir fræðimenn og alþingismenn voru þeirrar skoðunar að unnt væri að setja löggjöf með svipuðum hætti og hér er að stefnt. Þetta er mjög þýðingarmikið atriði. Einnig er vísað til hæstaréttardóma, sem fallið hafa, m.a. varðandi botn Mývatns og til dómsins varðandi Landmannaafrétt frá árinu 1981 þar sem því er beinlínis vísað til þingsins að skera úr um stöðu mála að því er eignar- og yfirráð varðar með löggjöf.
    Mér og öðrum flutningsmönnum þessa máls hafa verið mikil vonbrigði að ekki skuli hafa tekist á þeim tíma sem þessi þingmál hafa verið til umfjöllunar á hv. Alþingi, að setja löggjöf um þessi efni. Hér er um að ræða stefnumarkandi mál sem hljóta að teljast stórmál og varða þjóðarhagsmuni. Eftir því sem tíminn hefur liðið hefur það orðið æ brýnna að Alþingi Íslendinga tæki á þessum málum. Eftir að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði var samþykktur á Alþingi Íslendinga ætti það að vera öllum háttvirtum þingmönnum enn ljósara en áður hvílík nauðsyn það er fyrir þjóðina að því verði slegið föstu með löggjöf hver umráðarétturinn er og hvert eignarhaldið er á þessum náttúruauðæfum sem væntanlega geta að hluta til orðið auðlindir og staðið undir efnahags- og atvinnulífi í meira mæli en orðið er.
    Ég batt við það vonir, virðulegi forseti, að núverandi ríkisstjórn tæki á í þessu máli, ekki síst í ljósi stjórnarsáttmála núverandi háttvirtrar ríkisstjórnar, sem ber heitið ,,Velferð á varanlegum grunni``, og gefinn var út í október 1991 og nánari útfærsla á þeim yfirlýsingum sem gengu fram fyrst eftir valdatöku ríkisstjórnarinnar. Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að vitna til þessara ákvæða í samningi stjórnarflokkanna. Þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Skipan orkurannsókna verður endurskoðuð. Gerð verður áætlun um rannsóknir og nýtingu orkulinda landsins og landgrunnsins. Lagt verður fram frumvarp um eignarhald á orkulindum og afréttum og almenningum á 115. löggjafarþinginu.`` --- En nú er hafið það 118. --- ,,Þar verður skilgreint hvaða réttur til náttúruauðæfa landsins skuli fylgja bújörðum og öðrum landareignum og hvað skuli teljast almannaeign. Í framhaldi af starfi nefndar, sem hefur það hlutverk að skýra og skilgreina mörk eignarlands og almenninga, verður einnig sett löggjöf um það efni.``
    Hér er, virðulegur forseti, talað mjög skýrt í þessum stjórnarsáttmála. En jafnframt hefur komið fram á starfstíma núverandi hv. ríkisstjórnar, þegar þessi mál hafa verið rædd hér og spurst hefur verið fyrir um framgang þessara ákvæða stjórnarsáttmálans, að stjórnarflokkarnir virðast ekki hafa náð saman um málið. Ég gæti vitnað til ummæla iðnaðarráðherra liðinna ára, hv. fyrrv. þm. og hæstv. ráðherra, Jóns Sigurðssonar, sem svaraði fyrir um þetta mál um skeið. Þá var frumvarpið alltaf að koma. Það var væntanlegt fyrir jólin, það var væntanlegt í þingbyrjun og hæstv. þáv. iðnrh. endurtók með nákvæmlega sama hætti með árs millibili, orðin: ,,Það skal vanda sem vel á að standa.`` Nákvæmlega sömu orðin þegar hann var að afsaka þann drátt sem orðið hefði á framlagningu þessara mála.
    Ég vænti þess, virðulegur forseti, að við umræðuna komi fram frá hæstv. ráðherrum, frá hæstv. starfandi iðnrh. og einnig frá hæstv. forsrh., sem hefur verið svo vinsamlegur að vera við umræðu málsins, hvernig þessum málum er varið hjá ríkisstjórnarflokkunum. Það hefur legið fyrir af hálfu flutningsmanna þessara mála að við höfum verið reiðubúnir til að leita samstarfs við ríkisstjórn varðandi málatilbúnað af hennar hálfu til þess að reyna að ná samkomulagi og sáttum í þessum stórmálum. Iðnn. þingsins hefur fyrr og síðar verið reiðubúin til þess að leggja sitt af mörkum í þessum málum. Því er þörf á að tekið verði á þessu máli nú á þinginu. Ég vísa jafnframt til þess, virðulegur forseti, að undanþáguákvæði EES-samningsins varðandi eignarhald á landi, varðandi sölu jarðeigna, renna út frá og með næstkomandi áramótum. Þá er sú staða uppi í ljósi ákvæða EES-samningsins að hver og einn á þessu svæði getur keppt

við Íslendinga um kaup á jarðnæði, auðvitað með þeim hlunnindum sem landareignum fylgja. Þetta er auðvitað gersamlega óviðunandi staða og ég vænti að hv. alþingismenn séu almennt sammála um það. Við svo búið má ekki standa. Það getur ekki gengið að vera að vísa til hugsanlegrar óvissu um stöðu gagnvart 67. gr. íslensku stjórnarskrárinnar, þegar málið er komið út á miklu víðari völl og farið er að varða þjóðarhagsmuni með þeim hætti sem ég hef hér reynt að rekja. Þess vegna vil ég vænta þess að hæstv. ríkisstjórn, þrátt fyrir þær yfirlýsingar sem fram komu hjá hæstv. núv. iðnrh. sl. vor, þess efnis að ekki hefði gengið saman með stjórnarflokkunum, taki sig á og leggist á sveif með okkur flutningsmönnum þessa máls og öðrum hv. þingmönnum í stjórnarandstöðu til að vinna sig fram úr þeim vanda sem hér blasir við varðandi svo þýðingarmikla hagsmuni Íslendinga.
    Það ætti að vera hvatning núv. hæstv. forsrh. að taka á í þessu máli þegar litið er til viðhorfa fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, í þessu máli, þar sem hann tjáði sig með skýrum hætti sem fræðimaður.
    Ég legg til, virðulegur forseti, og ætla ekki að lengja mál mitt af því að það hefur vissulega oft verið mælt fyrir þessum málum hér á Alþingi Íslendinga, að þessum þingmálum báðum verði vísað að lokinni umræðu til iðnn. Alþingis.