Jarðhitaréttindi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 14:22:34 (54)


[14:22]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, hefur hér ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Alþb. endurflutt tvö merk frv., annars vegar um orku fallvatna og hins vegar um jarðhitaréttindi. Ég tek undir það með hv. þm. og raunar einnig hv. 3. þm. Reykv. að það er nauðsynlegt að taka af skarið í þessum efnum og fá þessi frv. inn í þingið til umræðu til að það sé hægt að komast að samkomulagi. Þessi frv. eru bæði að mínu viti jákvæð og ég held að það sé full ástæða til að þekkjast það ágæta boð hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, sem hér hefur komið fram, um samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu til þess að reyna að ná sáttum í þessu vandasama og flókna máli.
    Þetta mál á sér talsverðan aðdraganda. Það hafa af og til alla öldina staðið deilur sem tengjast eignarhaldi á auðlindum í jörðu. Ég hygg að þær fyrstu bókfærðu séu síðan 1904 eða 1905. Þau þingmál sem hér eru endurflutt má rekja aftur til ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar, sem í samstarfssamningi sínum 1. sept. 1978 gerði grein fyrir þeim óskum sínum að jarðhiti í jörðu yrði þjóðareign. Alþýðuflokkurinn átti aðild að þeirri ríkisstjórn, stóð að þeirri samstarfsyfirlýsingu og hefur ekki breytt sinni skoðun í þessum efnum.
    Nú er það svo að almenn löggjöf um eignarhald á auðlindum í jörðu hefur ekki verið sett. Menn hafa frekar freistast til að setja lög um tiltekin gögn og gæði úr jörðu. Ég minni til að mynda á námalögin frá því á fyrri hluta aldarinnar og jafnframt jarðhitalögin frá því árið 1941. Það er nauðsynlegt hins vegar, tel ég og ríkisstjórnin, að setja almenna löggjöf um eignarhald á auðlindum sem er að finna í jörðu og þá ekki einungis jarðhita eða vatnsorku heldur ýmis önnur efni.
    Nú er það svo að ég hygg að mig bresti ekki minni þegar ég held því fram, að fyrir fjórum þingum að líkindum þá var flutt og samþykkt frv. sem gerði ráð fyrir því að hafsbotninn og ólífræn efni önnur en þau sem féllu til vegna lifandi tegunda væru þjóðareign. Það er þess vegna ljóst að það er nauðsynlegt að setja samsvarandi löggjöf um eignarhald á auðlindum sem eru undir yfirborði jarðar og út að netalögnum.
    Eins og fram hefur komið í þessari umræðu þá hefur hæstv. ríkisstjórn í hyggju að leggja fram frv. af þessu tagi. Hér er um að ræða gerð tveggja frv. sem eru mjög áþekk að efni til og þau frv. sem hér eru lögð fram. Það er hárrétt hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að það stóð til að leggja þau fyrr fram, en eins og hefur komið fram hjá hæstv. forsrh. þá verða þau lögð fyrir á þessu þingi og ég vænti þess að með þeim góða vilja sem lýsir sér hjá hv. flm., sem jafnframt talar fyrir munn hv. formanns iðnn., þá takist að ná samkomulagi um þetta.
    Iðnrn. hefur áður fjallað um þessi frv. og viðhorf þess er að finna í fylgiskjali með frv. um jarðhitaréttindin. Þar kemur fram að í rauninni er iðnrh. sammála meginefni frumvarpanna. Það er hins vegar svo að sérfræðingar ráðuneytisins og ráðherrann telja að það sé e.t.v. ekki rétt að fara þá leið sem mörkuð er í 1. og 6. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að nytjaréttur fylgi landareignum í einkaeign niður að 100 metra dýpi en þar við taki þjóðareign. Ráðuneytið telur að það sé æskilegra að gera greinarmun á háhita- og lághitasvæðum og láta þá rétt til nýtingar á lághitasvæðum fylgja landareign, en telur hins vegar nauðsynlegt að það sé skýrt tekið fram í lögunum að rétturinn til að nýta háhitasvæðin sé sameign þjóðarinnar. Það má e.t.v. segja að þetta sé meginmunurinn á þessum frv., annars vegar þeim sem verið er að semja fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og hins vegar þess frv. sem hér liggur fyrir. Það er að vísu rétt, til að halda öllu til haga, að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, hefur í fyrri umræðum tekið fram að af hans hálfu og hans flokks þá sé það matsatriði hversu langt eigi að seilast í iður jarðar til að setja þessar markalínur. Ég met það svo að það sé undirstrikun á þeim vilja sem hann hefur lýst yfir hér fyrr í dag til að ná samkomulagi um þetta mál.
    Það er hins vegar rétt að það komi fram að í þeim frv. sem eru í samningu hjá ríkisstjórninni er gert ráð fyrir að efni þeirra sé talsvert víðtækara. Þar er einnig fjallað um aðrar auðlindir sem finnast í jörðu eins og málma, steinefni, jarðgas, olíu og jafnframt grunnvatn, sem er auðlind sem menn horfa stundum fram hjá en kann að verða af skornum skammti þegar vindur fram um miðja næstu öld.
    Nú er það svo, eins og hér hefur líka komið fram að niðurstaða í þessu máli verður enn brýnni vegna þess að við erum búin að samþykkja aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og því þarf enn frekar að vanda til við gerð þessa frv. og það er ein skýringin á því hversu framlagning þess hefur tafist. En það er rétt að taka fram að í undirbúningi þessa frv. hefur verið leitað til helstu sérfræðinga sem við eigum á sviði auðlindalöggjafar og einnig til erlendra sérfræðinga og ráðleggingar þeirra verið teknar upp í þessi frv.
    Ég vil að lokum segja það, virðulegi forseti, að ég tek undir að þessi mál þarf að leiða til niðurstöðu og vænti í framhaldi af því sem hæstv. forsrh. hefur sagt og þess samkomulagsvilja sem lýsir sér í ræðum hv. 1. flm. að þá muni það takast léttilega.