Jarðhitaréttindi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 14:37:33 (56)


[14:37]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Eftir að þessi mál komu til ríkisstjórnar þá varð það niðurstaðan, þar sem um viðkvæmt og vandmeðfarið mál er að ræða og nokkuð skiptar skoðanir milli stjórnarflokkanna um málið, að þeir tilnefndu hvor sinn lögvísindamanninn til að fara yfir málið og einkum þá í því formi sem það þá var og einkum þá með tilliti til þess hvernig málið viki við stjórnarskránni. Þessir tveir lögfræðingar, lögvísindamenn, sem flokkarnir tilnefndu, komust að þeirri niðurstöðu báðir tveir að málið í þeirri mynd sem það var þá stríddi gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar og gæti þess vegna ekki gengið fram. Það er auðvitað áríðandi að málið, þegar það er komið til þingsins, sé ekki slíkum annmarka háð. Í fyrsta lagi ef þetta lægi nú ótvírætt fyrir þá ætti að vísa málinu þegar af þeirri ástæðu frá þinginu og ef það væri óljóst en kæmi í ljós við meðferð málsins á þinginu þá væru menn verr staddir en að fara með málið inn í þingið betur undirbúið. Málið er vandmeðfarið. En það er eins og kom fram hjá hæstv. umhvrh. vilji til þess milli stjórnarflokkanna að reyna að finna á því ásættanlega lausn.