Jarðhitaréttindi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 14:58:23 (61)


[14:58]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég hef nú heyrt þessa ræðu hv. 4. þm. Austurl. áður og mér eru kunnar þær tilvitnanir sem hann fór með. Ég er náttúrlega ekki maður til þess að fara í lögfræðilegar rökræður við hina horfnu heiðursmenn Ólaf Jóhannesson og Bjarna Benediktsson. En þessar tilvitnanir eru að sjálfsögðu kunnar dr. Gauki Jörundssyni og ég geri einnig ráð fyrir að þær séu vafalítið kunnar lögfræðingum stjórnarflokkanna sem voru annarrar skoðunar. Það er nefnilega eitt að málið er öðrum þræði pólitískt, en pólitískur vilji rekur sig á lögfræðina að því er mér sýnist í þessu máli. Það er nefnilega eitt að langa til að eiga og annað að eignast.