Jarðhitaréttindi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 15:00:53 (63)


[15:00]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. það innlegg sem hér kom fram í hans máli og ég vil aðeins hvetja til þess að það verði reynt að vinna bráðan bug að því að koma þessum málum fyrir þingið og inn í hv. iðnn. Ekki hefur skort viljann á þeim vettvangi á undanförnum árum til þess að reyna að taka á þessum málum. En við sem förum orðið með þessa vísu hér árvisst, þ.e. þau frumvörp sem hér eru til umræðu, erum auðvitað að verða nokkuð langþreyttir á stöðugum yfirlýsingum hliðstæðum þeim sem hér komu fram, vafalaust bornar fram af góðum vilja af hæstv. umhvrh., um það að þetta væri alveg að koma. Við svo búið má ekki standa og ég trúi ekki öðru en metnaður stjórnarflokkanna sé meiri en svo að þeir reyni nú að reka af sér slyðruorðið einnig í ljósi ákvæða eigin stjórnarsáttmála.