Afstaða samgönguráðherra til jarðgangagerðar á Austurlandi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 15:17:07 (67)


[15:17]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Hann kemur mér nú satt að segja nokkuð á óvart sá mikli titringur sem orðið hefur í kringum ummæli hæstv. samgrh. Langtímaáætlun liggur reyndar fyrir og það plagg segir nú fyrir um að það er fyrst á þriðja tímabili þeirrar áætlunar sem nær yfir næstu aldamót sem gert er ráð fyrir byrjunarframkvæmdum í gerð vegganga á Austurlandi. Það eru smávægilegar fjárveitingar á hinum tveimur áætlununum sem varða einungis rannsóknir og brýnasta undirbúning. Með öðrum orðum gerir langtímavegáætlun ekki ráð fyrir því að það verði hafnar framkvæmdir við gerð jarðganga á Austurlandi fyrr en um næstu aldamót. Þetta eru nú staðreyndirnar sem liggja fyrir.
    Við skulum svo ekki gleyma því, þingmenn Austurlands, að meira að segja við höfum verið með auknar áherslur að því er varðar vegagerð til þeirra staða sem jarðgöngin áttu sérstaklega að rjúfa einangrun við þannig að nú er búið að byggja upp vel uppborinn veg til Norðfjarðar og hyllir undir árangur í sambærilegri vegagerð til Seyðisfjarðar. Auðvitað hafa menn með þessum ákvörðunum haft annað augað á því að svo gæti farið að upphaf þessara vegganga gæti eitthvað breyst frá upphaflegum áformum.
    Það er svo líka alveg ljóst að Alþingi, þar á meðal þingmenn Austurlandskjördæmis, sem studdu gerð síðustu vegáætlunar hafa líka fallist á breyttar áherslur eða auknar áherslur í vegaframkvæmdum með því að samkvæmt henni var tekin ákvörðun um að rjúfa sambandsleysið við Norðurland. (Forseti hringir.) Um það ætti því ekki að vera neinn ágreiningur okkar á milli.
    Virðulegi forseti. Ég lýk nú senn máli mínu. Það vill svo heppilega til að ég hef lagt fram till. til þál. um vegagerð á Austurlandi og það kemur fram í þeirri tillögu, sem verður rædd innan fárra daga, að til þess að koma þar á sambærilegu vegakerfi og er komið núna á í sumum öðrum kjördæmum þurfum við að fá 4 milljarða kr. Það er jafnmikið fé og þarf til þeirra stórframkvæmda sem hafa verið í veggöngum að undanförnu.