Afstaða samgönguráðherra til jarðgangagerðar á Austurlandi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 15:20:29 (68)


[15:20]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef deilt þeirri skoðun með hæstv. samgrh. að það sé afar brýnt úrlausnarefni fyrir Norður- og Austurland í samgöngumálum að rjúfa einangrunina sem nú er orðin á milli Norður- og Austurlands þar sem vegagerð yfir Fjöllin austur á Hérað er komin algerlega úr takt við hringveginn að öðru leyti. Ég hef m.a. fylgt þessu eftir, bæði heima fyrir og með tillöguflutningi hér á Alþingi. Ég óttast það hins vegar að með einstrengingslegum vinnubrögðum og strákslegu orðfæri þegar kemur að umræðu um þetta mál sé hæstv. samgrh. að tefja fyrir og skemma fyrir málinu. Það er ekki til þess fallið að ná samkomulagi í máli sem ég geri mér fulla grein fyrir að er viðkvæmt að ganga fram með þeim hætti sem hæstv. samgrh. hefur gert þegar kemur að ummælum hans um bæði um austfirska þingmenn og sjónarmið Austfirðinga almennt í þessu máli. Ég ítreka það, virðulegi forseti, að ég óttast það að með þessum vinnubrögðum sé hæstv. samgrh. að tefja fyrir málinu og í raun að skemma fyrir því að menn nái sameiginlegri viðunandi lausn.
    Ég vil svo að lokum, virðulegur forseti, segja það sem mína skoðun að þá fyrst þegar búið er að byggja upp veginn milli kjördæmanna, Norðurlands eystra og Austurlands, og leggja hringveginn allan bundnu slitlagi hefði verið tilefni og ástæða til að blása til fagnaðar og setja upp minnismerki, en ekki bara þegar búið var að ljúka ákveðnum spöl af þessari mikilvægu hringtengingu.