Afstaða samgönguráðherra til jarðgangagerðar á Austurlandi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 15:22:53 (69)


[15:22]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið rifjað upp og er ástæða til þess að ítreka að á sínum tíma náðist samstaða milli Vestfirðinga og Austfirðinga um framkvæmdir í jarðgangamálum og að þeir studdu hvorir aðra um framvindu mála. Við nutum stuðnings Austfirðinga þegar unnið var að því að fá fram ákvörðun um jarðgöng á Vestfjörðum og þeir aftur njóti stuðnings okkar til þess að ráðist verði í jarðgangaframkvæmdir þar þegar að loknum framkvæmdum á Vestfjörðum. Það er ástæða til þess að halda þessu samkomulagi á lofti því það er greinilegt að hæstv. samgrh. leggur sig töluvert fram um að reyna að hleypa því í uppnám og spilla fyrir því sem mest hann má. Hann verður að eiga það við sig en það hljóta allir að skilja að það er brýnasta verkefnið í vegamálum að tryggja öruggar samgöngur á milli staða þannig að íbúar í byggðarlagi eigi kost á öruggum samgöngum frá sínum stað til annars. Það hlýtur að vera mikilvægara að tryggja að samgöngur séu öruggar þannig heldur en á milli landshluta meðan til eru staðir sem búa við ófullnægjandi öryggi í vegamálum eins og er bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum. Hæstv. samgrh. verður þá að svara því hvaða staðir það eru á Íslandi að hans mati sem ekki eru þess verðugir að menn leggi sig fram um það að tryggja öruggt heilsársvegasamband með jarðgöngum eða öðrum sambærilegum hætti. Hann er að ráðast gegn öryggi manna í þessa veru og bjóða upp á lakari kost en menn hafa fram til þessa talað fyrir.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, minna á það, fyrst hæstv. ráðherra fór nokkrum orðum um kostnað við jarðgöng á Vestfjörðum og hlut kjördæmisins í því, að ráðherrann hefur gert sitt til þess að gera okkur það óbærilegra en til stóð. Það stóð til og var samþykkt með sérstakri þingsályktun að kjördæmin greiddu sinn hluta á allmörgum árum. Ráðherrann hefur eyðilagt áhrif af þessari þál. og gert kjördæminu að reiða fram sinn hluta á framkvæmdatímanum. Það þýðir að á tveimur árum, virðulegi forseti, er hlutur Vestfirðinga til framkvæmda í kjördæminu rýrður um 400 millj. kr. Það munar um minna.