Afstaða samgönguráðherra til jarðgangagerðar á Austurlandi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 15:25:39 (70)


[15:25]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér í þessa umræðu, en eftir að hafa hlýtt á hana um stund, þá held ég að það sé alveg nauðsynlegt fyrir hæstv. samgrh. að þekkja valdmörk sín. Það er ekki hans að ákveða framkvæmdaröð í vegamálum, það er kjarni málsins. Hann þarf ekki að fara að haga sér eins og einhver Napóleon í vegamálum. Það er ákvörðunaratriði fyrir þingmenn viðkomandi kjördæma hvernig þeir vilja haga framkvæmdaröðinni og síðan hefur Alþingi síðasta orðið um fjárveitingar og framkvæmdaröð eftir tillögum viðkomandi þingmannahópa.
    Hér er um að ræða tvenns konar nauðsynlegar vegaframkvæmdir og það er sem sagt ekki samgrh. sem á að ákveða það í hvora er ráðist á undan.
    Kosningabomba hæstv. forsrh. um 7 milljarða til vegagerðar á næstu árum, sem á að greiðast af bensínkaupendum og á ekki að byrja á því fyrr en eftir nokkur ár, þ.e. ekki fyrr en á næsta kjörtímabili, hljómaði vel þegar hún sprakk en viðtökurnar hafa verið dauflegar svoleiðis að ég veit ekki hvort við getum reitt okkur á að þetta verði niðurstaðan.
    Nú veit ég ekki hvernig hv. þm. Austurl. raða framkvæmdum í kjördæminu eða hver þeirra hugur er. Mér kom það hins vegar á óvart þegar hv. þm. Egill Jónsson fór að leggjast gegn jarðgangagerð á Austurlandi. Venjulega hefur hann verið manna kröfustífastur hér fyrir sitt kjördæmi og framkvæmdir þar. Ég átta mig ekki alveg á því hvað hefur skeð, að hann skuli leggjast gegn jarðgangagerðinni. Það getur verið að það sé vilji meiri hluta þingmanna Austurl. og þá verður að búa við það og þá gröfum við jarðgöng bara einhvers staðar annars staðar.