Afstaða samgönguráðherra til jarðgangagerðar á Austurlandi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 15:27:53 (71)


[15:27]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hérna hefur komið fram að það var eftir því sem ég best vissi fullt samkomulag um það að eftir Vestfjarðagöng yrði hafist handa við jarðgöng á Austurlandi. Ég vil minna á það að jarðgangagerð er ekki gömul hér á landi. Hún hófst kannski að einhverju marki fyrir 30 árum eða svo. Þá var hafist handa við Strákagöng og síðan Oddsskarð. Ég tel að það hafi verið mikil mistök að eftir að við þau mannvirki var hætt, þá var gefist upp. Þess vegna var verkþekkingu ábótavant. Ef við hefðum haldið áfram í smærri stíl þá væri ástand þessara mála betra núna. Ég vil þess vegna taka það fram að ég tel mjög nauðsynlegt að sú verkþekking sem hefur náðst í Vestfjarðagöngum og reyndar í Ólafsfjarðarmúla, og hefur leitt til þess að vinna sem að mestu leyti var framkvæmd af útlendingum er nú að verulegu leyti í höndum Íslendinga, tapist ekki. Við verðum að halda henni við.
    Hér hefur komið fram að yfirlýsingar eins og eru á ferðinni í fjölmiðlum um málefni einstakra kjördæma eru tæplega til þess að skapa sátt eða greiða fyrir að mál af þessu tagi fái farsælan endi eða farveg. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ráðherrann gerir þetta. Við höfum orðið vör við þetta, Vestfirðingar. Á sama tíma, eins og komið hefur fram, og dregið er úr fjármagni til almennra vegaframkvæmda vegna stórframkvæmda sem eiga sér stað á Vestfjörðum þá eru þingmenn auðvitað að reyna að skipuleggja, hagræða og verja þeim knöppu fjármunum sem allra best og þá er mjög óþægilegt eins og henti fyrir ári eða svo að fá yfirlýsingar um nýjan veg í fjölmiðlum án þess að nokkurt frumkvæði kæmi að heiman. Hér er um að ræða Kollafjarðarheiði, sem er fallegur túristavegur. Ráðherrann lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að þetta væri vænlegasti kosturinn fyrir Vestfirðinga að ráðast í næst, en ég veit ekki um einn einasta mann af þeim sem þar ráða sem taka undir þau sjónarmið. Yfirlýsingar af þessu tagi eru afskaplega óheppilegar og mjög til þess fallnar að tefja mál og hindra.