Afstaða samgönguráðherra til jarðgangagerðar á Austurlandi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 15:30:34 (72)


[15:30]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. þátttöku í þessu og alveg sérstaklega þeim sem hafa hvatt til þess að staðið verði við þau markmið sem fram komu í langtímaáætlun í vegagerð á sínum tíma og sem hæstv. ráðherra var að reyna að gera lítið úr. Þótt hún hafi ekki verið endanlega samþykkt hér á Alþingi þá hefur hún verið til viðmiðunar í sambandi við svona meginmál. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Á öðru tímabili [þ.e. frá 1995--1998 mun það vera] er gert ráð fyrir að framkvæmdum og greiðslum vegna Vestfjarðaganga og framkvæmdir við Austfjarðagöng hefjist og verði þeim síðan fram haldið á þriðja tímabili.``
    Á þessu hefur aðeins orðið smáhliðrun, þ.e. þannig að gert er ráð fyrir framkvæmdafjármagni til framkvæmda á Austfjörðum á árinu 1998 þannig að framkvæmdum ljúki skömmu eftir aldamót við þá stórframkvæmd sem þar yrði ráðist í. Allt annað er útúrsnúningur í þessum efnum og fjárveitingar samkvæmt gildandi vegáætlun til rannsókna og undirbúnings þessa máls bera þess vitni að stefnt hefur verið að þessu af bæði þingmönnum kjördæmisins sem og Alþingi sem hefur samþykkt þær fjárveitingar. Þær eru að vísu

ekki háar, á árinu 1995 10 millj. kr., árinu 1996 samkvæmt vegáætlun 13 millj. kr., en þurfa síðan að vaxa í ljósi væntanlegra framkvæmda.
    Það er ósæmilegt að reyna að hlaupa frá þessum markmiðum og þessari stefnu með því að ala á því að það þurfi að bæta hið almenna vegakerfi í landinu eins og hæstv. samgrh. er að reyna að gera hér. Því miður heyrist mér hann fá einhvern stuðning frá einum úr hópi þingmanna Austurlands í því efni þar sem látið er að því liggja að það sé eitthvað nýtt að það hafi átt að byggja upp nýja vegi til fjarða á Austurlandi sem verið er nú að ljúka við. Sú stefnumótun lá fyrir þegar stefna var mörkuð varðandi jarðgangaframkvæmdir og er þannig ekkert nýtt inn í þetta samhengi.
    Spurningin um tengingu á milli Norðurlands og Austurlands, sem auðvitað er stórt mál á sinn hátt, er hins vegar annað mál. Jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi hafa allt annað og stærra gildi heldur en spurningin um tengingu á milli landshluta. Á því er enginn vafi. Auðvitað þarf að koma til uppbyggingar á þeim vegi en stefnan hefur hins vegar ekki verið skilmerkilega mörkuð hvar sá vegur eigi að liggja. Það er næsta verkefni sem hæstv. ráðherra ætti að reyna að beita sér fyrir að leyst verði.