Afstaða samgönguráðherra til jarðgangagerðar á Austurlandi

3. fundur
Miðvikudaginn 05. október 1994, kl. 15:33:27 (73)


[15:33]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég er hér með þskj. 961 frá þinginu 1990--1991 og þar kemur þetta allt saman fram um annað og þriðja vegaáætlunartímabil. Þessari langtímaáætlun átti að ljúka árið 2002. Það kemur fram að á þriðja tímabili átti að verja í Jökulsá á Dal 84 millj. kr., árið 2002. Það vantaði helminginn til verksins. Nú er gert ráð fyrir því að ljúka við brúargerð yfir Jökulsá á Dal þegar á næsta ári og hefur verið varið til þess 163 millj. kr. svo vissulega hefur verið ráðist í ný verkefni.
    Ef við erum að tala um hvort það hafi verið veitt nægilegt fé á þessari langtímaáætlun til þess að hægt sé að ljúka eftir henni jarðgangagerð á Austurlandi á árinu 2000 þá er hv. þm. ekki að tala um göngin frá Seyðisfirði í Mjóafjörð og Norðfirði í Mjóafjörð og þaðan upp á Hérað því þau göng eru miklu dýrari. Þau kosta 6,4 milljarða kr. En á langtímaáætlun eru eingöngu 2 milljarðar kr. Þannig að ef hv. þm. hefur haft þau göng í huga þegar hann blessaði sinn flokksbróður, samgrh. Steingrím Sigfússon, fyrir örlæti til Austfirðinga þá hefur hann gleymt tveim þriðju, gleymt 4 milljörðum af 6 til þess að hann gæti lokið við þessa jarðgangagerð. Ef hv. þm. var á hinn bóginn að hugsa um jarðgöngin frá Fáskrúðsfirði yfir til Reyðafjarðar eða Vopnafjarðargöng þá hefðu þessir peningar ekki alveg dugað en nokkuð hrokkið til að þeim göngum mætti ljúka.
    Ég ætla síðan að segja við þingmenn Vestfirðinga að samkvæmt langtímaáætlun er alls ekki gert ráð fyrir því að Austfjarðagöng komi þegar á eftir Vestfjarðagöngum. Væri náttúrlega rétt fyrir þingmenn, sem ekki voru hér vorið 1991, að fletta upp í þingskjölum áður en þeir fara að blanda sér í umræður af þessu tagi. Og ég vil segja við Pál Pétursson, hv. þm. Norðurl. v., að það er ekki einkamál einstakra kjördæma hversu mikið af stórframkvæmdafé kemur til einstakra framkvæmda. Það er ekki einkamál manna á Austurlandi hvenær ráðist verður í jarðgöng. Það er auðvitað Alþingi sem kveður upp úr um framlögin. En jafnvel samkvæmt langtímaáætlun, sem er biblía hv. fyrirspyrjanda, er ekki gert ráð fyrir að ráðast í jarðgöngin fyrr en á næstu öld.