Réttur til launa í veikindaforföllum

4. fundur
Fimmtudaginn 06. október 1994, kl. 10:40:15 (77)

[10:40]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um rétt til launa í veikindaforföllum. Efni þess kemur fram í 1. gr. frv. sem flutt er sem breyting á lögum um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Til forfalla frá vinnu vegna sjúkdóma eða slysa samkvæmt lögum þessum teljast hvers kyns aðgerðir sem taldar eru nauðsynlegar af læknisfræðilegum ástæðum, rannsóknir og önnur meðferð að læknisráði enda þótt launþegi hafi ekki verið óvinnufær við upphaf læknismeðferðar.
    Heilbrigðir líffæragjafar njóta réttar til launa í forföllum frá vinnu vegna líffæragjafar í samræmi við ákvæði laga þessara.``
    Lögð er til hliðstæð breyting á sjómannalögum, nr. 35/1985, þar sem bætt verði við sams konar ákvæðum við 36. gr. þeirra laga.
    Markmið þessa frv. er einkum tvíþætt eins og fram kemur í því sem ég las. Annars vegar er lögð til lagabreyting sem stuðlar að því að jafna rétt launþega hér á landi til launa í veikindaforföllum. Hins vegar er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um rétt tiltekins hóps manna, heilbrigðra líffæragjafa, og þeim veittur lagalegur réttur til launa sem um veikindaforföll væri að ræða. Þessar breytingar eru lagðar til í ljósi réttarþróunar hér á landi undanfarinn áratug.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem tryggja eiga rétt launþega til greiðslu launa í forföllum að læknisráði án þess að gert sé að ófrávíkjanlegu skilyrði að viðkomandi sé óvinnufær. Þá er einnig lagt til að réttur heilbrigðra líffæragjafa verði tryggður sérstaklega eins og fram hefur komið. Enn hefur ekki reynt á rétt þessa hóps fyrir dómstólum en þegar hafa komið upp dæmi um að atvinnurekendur neiti að greiða heilbrigðum líffæragjöfum laun vegna fjarvista þeirra við líffæragjöf, enda þótt margir vinnuveitendur muni væntanlega kjósa að greiða starfsfólki sínu laun í slíkum tilvikum. Þess má geta að árið 1993 voru skráð fjögur tilvik líffæragjafa hjá Íslendingum.
    Opinberir starfsmenn hafa fengið viðurkenndan rétt til greiðslu launa vegna forfalla svipaðra þeim og frv. tekur til, eins og vegna tæknifrjóvgunar sem eru að vissu leyti einnig aðgerðir sem einstaklingar velja sjálfir hvort þeir gangast undir. Heilbrigðir líffæragjafar hafa hins vegar algera sérstöðu þar sem þeir gangast heilbrigðir undir aðgerð til að hjálpa þriðja manni, ef til vill ekki beinlínis að ráði læknis, þó að um geti verið að ræða að verið sé að bjarga lífi annars manns. Sú breyting, sem hér er lögð til, á því fyrst og fremst rætur að rekja til mannúðarsjónarmiða.
    Það getur verið álitamál hvort það eigi að setja málið fram eins og hér er gerð tillaga um eða nota almannatryggingalöggjöf til þess að reyna að tryggja hliðstæðan rétt og það er auðvitað eitt af því sem til álita er í sambandi við mál af þessum toga.
    Réttarþróun undanfarinna ára hefur aukið misrétti milli einstakra hópa launþega hvað varðar rétt til launa í veikindaforföllum. Það byggist annars vegar á því að lögbundinn réttur verkafólks og sjómanna á þessu sviði hefur verið túlkaður mjög þröngt og hins vegar á því að þessum hópum hefur ekki verið tryggður réttur í samræmi við þróun á sviði nútímalækninga. Þannig má sem dæmi nefna að ýmis fjölmenn samtök launþega, svo sem starfsmenn ríkis og bæja, hafa fengið viðurkenndan rétt til launa í forföllum vegna tæknifrjóvgunar. Sé litið til réttarþróunar er langt frá því að verkafólk og sjómenn njóti slíks réttar og í raun hefur þróunin í heild leitt til þess að verkafólk og sjómenn hafa nú lakari rétt en almennt gerist og lakari rétt en ráða má af lagafyrirmælum. Þannig hafa hugtökin ,,sjúkdómur`` og ,,óvinnufærni`` í lögum nr. 19/1979 og lögum nr. 35/1985 verið túlkuð afar þröngt af dómstólum. Þar hef ég í huga dóma eins og þann sem kveðinn var upp 28. maí 1980 í bæjarþingi Reykjavíkur þar sem deilt var um það hvort frávera vegna aðgerðar sem gerð var á kjálka manns stofnaði rétt til launa frá atvinnurekanda. Ég vísa einnig til dóms héraðsdóms Reykjavíkur frá 6. nóv. 1992 þar sem það sjúkdómstilfelli sem um var að ræða var æðahnútaaðgerð. Benda má einnig á dóm bæjarþings Sauðárkróks frá 30. jan. 1992 þar sem fjallað var um réttarstöðu konu sem þurfti að fara í munnskurðaraðgerð vegna töku endajaxla. Einnig má nefna dóm fyrir bæjarþingi Reykjavíkur frá 17. maí 1990 sem varðaði launakröfur stýrimanns í veikindum, en hann hafði verið með sífellda verki fyrir bringspölum á síðustu ferð skips og hungurverki og verulegt mataróþol á ýmsan mat og leitaði sem sagt læknismeðferðar og vildi fá laun sín tryggð. En við þessu var ekki orðið og útgerðin sýknuð af kröfu hans. Benda má einnig á dóm fyrir bæjarþingi Kópavogs frá 17. okt. 1990 þar sem um var að ræða hjartaþræðingu og fleira mætti til tína eins og dóm fyrir bæjarþingi Reykjavíkur frá 13. febr. 1984 þar sem um var að ræða sjómann, skipverja, sem krafði útgerðina um veikindalaun vegna fráveru sem stafaði af því að hann þurfti að fá nýtt gerviauga.
    Svona má tína til fleiri dóma sem fallið hafa gagnvart verkafólki og sjómönnum og það er til þess að slá föstu með löggjöf hver aðstaða slíkra er og til að jafna stöðu launafólks, opinberra starfsmanna, verkafólks og sjómanna að þessu leyti sem þetta frv. er hér flutt.
    Dómstólarnir hafa sem sagt komist að þeirri niðurstöðu að lögin tryggi þeim ekki rétt sem að læknisráði gangast t.d. undir hjartaþræðingu og rannsókn vegna magasárs. Vist á heilsuhæli að læknisráði vegna slæmrar vöðvabólgu hefur ekki verið talin veita rétt til launa í veikindaforföllum né heldur fjarvist vegna munnskurðaraðgerðar, kjálkaaðgerðar og ísetningar gerviauga, eins og ég gat hér um áðan. Sama gildir um tæknifrjóvgun sem ekki hefur talist til greiðsluskyldra forfalla enda þótt ófrjósemi kunni að stafa af sjúkdómi en eins og að framan er getið fá opinberir starfsmenn greidd laun í forföllum vegna tæknifrjóvgunar. Þá hafa einnig opinberir starfsmenn fengið greidd laun sem um veikindaforföll væri að ræða vegna áfengismeðferðar í fyrsta sinn þrátt fyrir niðurstöðu Hæstaréttar í dómi 1984 nr. 439, þar sem áfengissýki er ekki talin sjúkdómur og því ekki veita rétt til launa í veikindaforföllum. Hins vegar þótti ekki rétt í frv. þessu að leggja til að atvinnurekendur yrðu í lögum skyldaðir til greiðslu launa í forföllum starfsmanns vegna áfengismeðferðar. Það efni þarfnast að mínu mati sérstakrar athugunar, m.a. vegna þess að skiptar skoðanir eru um hvaða reglur eigi að gilda þar að lútandi.

    Virðulegur forseti. Ég hef rakið helstu sjónarmið sem tengjast þessu frv. sem hér er flutt og ég vænti að fái góða athugun á vegum hv. félmn., sem ég legg til að fái þetta mál til meðferðar.